Mótvægisaðgerðir

Á mbl.is var í gær frétt með fyrirsögninni „Ekki gerð krafa um íslenskukunnáttu“. Þar var sagt frá drögum að nýrri reglugerð heilbrigðisráðherra um „meðferð umsókna þriðjaríkisborgara um starfsleyfi og sérfræðileyfi“ sem nú eru í samráðsgátt. Í drögunum segir m.a.: „Íslenskukunnátta er ekki skilyrði fyrir starfsleyfi en vinnuveitandi heilbrigðisstarfsmanns skal ganga úr skugga um að heilbrigðisstarfsmaður búi yfir nauðsynlegri tungumálakunnáttu sem og þekkingu á lögum og stjórnvaldsfyrirmælum sem talin er nauðsynleg til að geta starfað sem heilbrigðisstarfsmaður, einkum vegna öryggis og samskipta við sjúklinga.“ Í lögum er þó heimilt að gera kröfur um íslenskukunnáttu en ólíklegt að það ákvæði verði nýtt.

Það væri erfitt og óraunhæft að setja sig upp á móti þessu, þó ekki væri nema vegna þess að í skýringum kemur fram að breytingin „verður til samræmis við það sem gildir um umsækjendur frá ríkjum innan EES og Sviss og kemur því einnig til með að auka jafnræði milli erlendra umsækjenda“. Þar fyrir utan er Ísland orðið fjölmenningarlegt samfélag, okkur sárvantar fólk með sérþekkingu og kunnáttu á ýmsum sviðum, og það er óraunhæft að gera ráð fyrir því að fólk sem hingað kemur byrji á því að læra íslensku áður en það tekur til starfa á sérsviði sínu. Ég hef áður nefnt að það samrýmist tæpast lögum um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls að ráða fólk í störf hjá ríkinu án íslenskukunnáttu, og brýnt að breyta þeim lögum.

Vitanlega er þetta samt enn einn vitnisburður um veikta stöðu íslenskunnar sem mikilvægt er að stjórnvöld bregðist við. En viðbrögðin mega hvorki vera uppgjöf né útlendingaandúð. Á undanförnum árum hafa stjórnvöld iðulega gripið til mótvægisaðgerða gegn ýmsum utanaðkomandi vandamálum og hremmingum sem landið, þjóðin eða einstakir hópar hafa lent í – mótvægisaðgerða vegna áhrifa covid-19, vegna losunar gróðurhúsalofttegunda, vegna verðbólgu o.s.frv. En einnig er stundum gripið til mótvægisaðgerða vegna aðgerða stjórnvalda sem valda skaða á ákveðnum sviðum en eru samt taldar borga sig þegar á heildina er litið. Gott dæmi um það eru mótvægisaðgerðir vegna umhverfisáhrifa Kárahnjúkavirkjunar.

Íslenskan glímir nú við mikinn utanaðkomandi þrýsting sem stafar ekki síst af mikilli fjölgun fólks með annað móðurmál en íslensku. Þessi fjölgun er æskileg og nauðsynleg í sjálfu sér en veldur íslenskunni vanda og setur stöðu hennar sem aðalsamskiptamál í landinu og burðarás þjóðfélagsins í hættu. En í stað þess að reyna að létta af hinum utanaðkomandi þrýstingi þurfum við að styrkja íslenskuna svo að hún standist hann og beita til þess ýmsum mótvægisaðgerðum. Máltækniáætlun stjórnvalda er af þeim toga, en nú er mikilvægast að stórauka og bæta framboð á kennslu, kennsluefni og kennurum í íslensku sem öðru máli. Einnig þarf að styrkja íslenska fjölmiðla og bókaútgáfu, auka framleiðslu á íslensku afþreyingar- og fræðsluefni, o.fl.

Mótvægisaðgerðir eru dýrar. Mótvægisaðgerðir vegna covid-19 kostuðu um 450 milljarða en það er ekki raunhæfur samanburður. Mótvægisaðgerðir vegna Kárahnjúkavirkjunar kostuðu um 1,7 milljarða á núverandi verðlagi, auk þess sem Landsvirkjun áætlaði að verja árlega 300 milljónum á núverandi verðlagi til „mótvægisaðgerða við Hálslón og vöktunarrannsókna“. Framlag ríkisins til mótvægisaðgerða vegna þrýstings á íslenskuna verður að vera töluvert meira en það. Einhverjum kann að finnast það mikið fé, og það er alveg rétt, en þá verður að hafa í huga hvað er í húfi. Fjármálaáætlun vakti vissulega ekki mikla bjartsýni, en nú bíðum við eftir aðgerðaáætlun ráðherranefndar sem átti að leggja fram 27. mars en ekki er komin fram.