Eruð þið sammála þessu?

Lýsingarorðið sammála kemur fyrir þegar í fornu máli þótt það sé ekki algengt – Ordbog over det norrøne prosasprog hefur aðeins fjögur dæmi um það. Það er athyglisvert að í þeim öllum er það í sambandinu sáttir og sammála – „Nú erum vér sáttir og sammála hvar sem vér finnumst á landi og á legi“ segir t.d. í Heiðarvíga sögu. Þetta samband var algengt fram undir miðja síðustu öld, og öfug röð, sammála og sáttir, kemur einnig fyrir en er mun sjaldgæfari. Bæði samböndin virðast vera á útleið úr málinu – aðeins níu dæmi eru um þau frá þessari öld á tímarit.is. Því kemur það nokkuð á óvart að 18 dæmi eru um samböndin í samfélagsmiðlahluta Risamálheildarinnar. En sammála tengist ekkert sérstaklega við sáttur í mínu máli.

Í Íslenskri orðabók er sammála skýrt 'samþykkur, á sama máli, samdóma, samhuga' og í Íslenskri nútímamálsorðabók 'sem er á sama máli, samþykkur'. Í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924 er sammála einhverjum skýrt 'enig med en' og við erum sammála er 'vi er enige'. Þarna er merkingin 'samþykkur' sem sé ekki nefnd. Í An Icelandic-English Dictionary eftir Richard Cleasby og Guðbrand Vigfússon er skýringin 'agreeing', en skýring Fritzners á orðinu í fornmálsorðabók sinni, Ordbog over det Gamle Norske Sprog, er hins vegar 'som taler, kan tale sammen med andre'. Það á væntanlega að skilja svo að þeir sem eru sammála geti talast við, án þess að vera endilega sama sinnis – um þá merkingu er haft sambandið vera á einu máli.

Í nútímamáli held ég að sammála hafi í máli flestra þær merkingar sem lýst er í Íslenskri orðabók og Íslenskri nútímamálsorðabók. En ekki fellur það öllum í geð. Árni Böðvarsson segir í bókinni Íslenskt málfar: „Menn eru stundum sammála, ég get verið sammála þér eða samþykkur tillögu þinni. Á nútíma íslensku eru menn ekki sammála tillögu, heldur flytjanda hennar.“ Guðni Kolbeinsson segir í Helgarpóstinum 1995: „„Ég er alveg hjartanlega sammála þessu hjá þér,“ heyrist iðulega. Já, of oft, því að þetta er beinlínis rangt. Við getum ekki verið sammála því sem einhver segir. Þá værum við á sama máli og málefnið — sem augljóslega er rökleysa. Reynum að vera sammála hvert öðru og þar með samþykk því sem sagt er.“

Hannes Hólmsteinn Gissurarson sagði í Andvara 1994: „Maður getur verið sammála öðrum manni um skoðun, hugmynd eða gagnrýni, en hann er ekki sammála skoðuninni, hugmyndinni eða gagnrýninni, heldur samþykkur henni.“ Í Morgunblaðinu 1996 segir: „Væri rétt að segja: Hann er sammála kenningu minni? Svar: Betra þætti að segja: Hann er mér sammála um kenningu mína, eða: Hann er kenningu minni samþykkur.“ Þarna er sagt að eingöngu sé hægt að vera sammála fólki, ekki sammála einhverju. Vissulega vísar sammála eingöngu til fólks í fornmálsdæmum, og í dæmum fram undir lok 19. aldar. En í eldri dæmum er fólk annaðhvort sammála án nokkurrar skýringar eða sammála um eitthvað – og stundum sammála í einhverju.

Það virðist ekki vera fyrr en eftir miðja 19. öld sem sammála fer að taka með sér nafnorð í þágufalli. Elsta dæmi sem ég hef rekist á um það er í Norðra 1858 þar sem segir: „Monrað, einhver hinn merkasti þingmaður Dana, kvaðst ekki geta orðið Lehrmann sammála.“ Í Víkverja 1873 segir: „Eg er sammála þeim manni sem ritað hefir greinina um kvennaskólann.“ Þágufallsorðið vísar í fyrstu alltaf til fólks, en það breyttist fljótlega – „Það munu því allir taka vel á móti „Norðurljósinu“, hvert heldur þeir eru sammála eða andstæðir þjóðmálaskoðunum Þingeyinga“ segir í Akureyrarpóstinum 1886. Í Lýð 1889 segir: „get ég þó ekki verið því sammála, að skólinn sé á heljarþröminni.“ Þar er merkingin 'samþykkur' greinilega komin til.

Allmörg dæmi um þá merkingu koma fyrir undir lok 19. aldar og fer fjölgandi þegar líður á 20. öld, og hún er vitaskuld mjög algeng í nútímamáli – enda gefin athugasemdalaust í orðabókum eins og áður segir. Mig rámar í að hafa heyrt amast við henni einhvern tíma fyrir löngu, annaðhvort í kennslu eða útvarpsþættinum Daglegt mál, en ég hef ekki orðið var við slíkar athugasemdir nýlega – þetta er t.d. ekki nefnt í Málfarsbankanum. Enda væri fráleitt að gera athugasemdir við notkun sammála í merkingunni 'samþykkur'. Eins og áður segir er sammála einhverjum ekkert síður nýjung en sammála einhverju og það virðist vera lítill aldursmunur á elstu dæmum um þetta tvennt – á annað hundrað ára hefð komin á hvort tveggja.