Alfarið
Um daginn var minnst á það hér í umræðum að atviksorðið alfarið hefði skyndilega orðið mikið tískuorð en sæist nú vart lengur – sem er reyndar ekki rétt. Þá rámaði mig í að það hefði eitthvað verið amast við þessu orði þegar ég var í skóla og sá á tímarit.is að notkun orðsins stórjókst einmitt um miðjan áttunda áratuginn, og þó sérstaklega eftir 1980. Eiríkur Brynjólfsson skrifaði í DV 1985: „Eins og mörg önnur fyrirbæri mannanna þá taka orð einhvers konar tískusveiflum. Þessi orð eru þá notuð mjög mikið í daglegu tali í nokkum tíma. Síðan verður ofnotkun þeirra til þess að merking þeirra slævist og önnur koma í staðinn. […] Enn má nefna orðið alfarið. Það er orðið að nokkurs konar stöðutákni þeirra sem telja sig hafa eitthvað til mála að leggja.“
Eiríkur lagði þó áherslu á að engin ástæða væri til að forðast þetta orð en hins vegar væri „auðvitað verra ef önnur orð falla í gleymsku vegna þessa“ enda hafi fjölbreytni í orðavali „verið talin prýði á góðu máli“. Í Morgunblaðinu 1987 segir Hjálmar Pétursson að þessi „málleysa“ sé nú „mjög í tísku“ og bætir við: „Að undanfömu hefur verið fjallað um þetta orð í íslenskuþáttum í útvarpi þannig að allir ættu að vita að þetta er ekki íslenska.“ Í bókinni Íslenskt málfar segir Árni Böðvarsson að alfarið sé „tískuorð“ og segir ástæðu til „að minna á samheiti eins og gjörsamlega, allsendis, alveg, fullkomlega, með öllu“. Eitthvað hefur dregið úr notkun alfarið en það er þó enn mjög algengt ef marka má tímarit.is og Risamálheildina.
Í fljótu bragði kann það að virðast undarlegt að alfarið merki 'alveg, algerlega' en tengist ekki sögninni fara eins og búast mætti við. Í fornu máli kemur fyrir lýsingarorðið alfari – „býr hann snemmendis ferð sína til skips og sagði þá öllu liði að hann mundi ríða í braut alfari“ segir í Njálu. Þetta orð beygist ekki frekar en önnur lýsingarorð sem enda á sérhljóði (andvaka, hugsi o.fl.). Það virðist síðan leiða af sér tvö orð – annars vegar atviksorðið alfarið og hins vegar lýsingarorðið alfarinn. Það fyrrnefnda er a.m.k. komið til á 16. öld – í Biskupa sögum segir: „og hafði þá farið alfarið með öllu úr Skálholti.“ Það síðarnefnda er komið til á 17. öld: „Reið bóndi alltjafnt fyrir, þar til hann kom á alfarinn veg“ segir í Munnmælasögum 17. aldar.
Þótt þarna sé talað um alfarinn veg hefur lýsingarorðið alfarinn venjulega verið notað um fólk alla tíð, í merkingunni 'farinn endanlega' eins og það hefur enn í dag – „Napóleon eldri […] ætlaði að sigla alfarinn til Ameríku frílanda“ segir í Íslenskum sagnablöðum 1816; „á fyrstu tveimur mánuðum yfirstandanda árs, flúðu eða fluttu alfarin frá Stórabretlandi […] 35,850 manns“ segir í Klausturpóstinum 1821. Hliðstæð merking er í atviksorðinu alfarið framan af – „eptir að Eyvindur kom alfarið til byggða“ segir í Íslendingi 1861; „Eptir það hafði hann farið og kvatt foreldra sína, áður hann færi til embættis síns alfarið“ segir í Norðlingi 1877; „Hinn 22. júlí fórum við alfarið úr surtarbrandsgilinu hjá Brjámslæk“ segir í Andvara 1887.
Í þessum dæmum gæti eins staðið beygt lýsingarorð – Eyvindur kom alfarinn, hann færi til embættis síns alfarinn, fórum við alfarnir úr surtarbrandsgilinu. Í öllum tilvikum gæti merkingin líka verið 'alveg, algerlega' en þó er alltaf um tengingu við fara að ræða þótt hún sé ekki eins augljós og væri ef orðið sambeygðist frumlaginu. En á seinni hluta 19. aldar fara að sjást dæmi án slíkrar tengingar – „vildi hann um fram alt losa sig alfarið við konu sína“ segir í Þjóðsögum Jóns Árnasonar, „úr því létti af harðindunum alfarið“ segir í Fjallkonunni 1898, „Með þessu móti væri alfarið komið í veg fyrir hrakning á öldruðu og uppgefnu fólki“ segir í Þjóðólfi 1905. Þarna hefur orðið slitnað frá upprunanum og merkir eingöngu 'alveg, algerlega'.
Þróunin úr lýsingarorðinu alfari yfir í atviksorðið alfarið, og úr merkingunni 'endanlega farinn' yfir í 'alveg, algerlega' er því mjög skiljanleg og eðlileg. Orðið hefur verið notað í síðarnefndu merkingunni í meira en hálfa aðra öld þannig að hún hefur löngu unnið sér hefð og er gefin athugasemdalaust í orðabókum, allt frá Íslensk-danskri orðabók 1920-1924. Óljóst er hvers vegna notkun þess margfaldaðist upp úr 1980 en óljósar sagnir eru um að einhverjir einstaklingar eða hópar hafi tekið það upp á sína arma – „Stjórmálamenn nota þetta orð oft og það er eins og menntamönnum sé það afar tamt“ sagði Hjálmar Pétursson í áður ívitnuðum pistli í Morgunblaðinu 1987. En auðvitað er engin ástæða til að láta það skyggja á samheiti sín.