Að detta í eða á gólfið

Ekki löngu eftir að Háskólatorg, ein bygginga Háskóla Íslands, var tekið í notkun síðla árs 2007 var hringt til mín frá rektorsskrifstofu og spurt hvort ætti að segja í Háskólatorgi eða á Háskólatorgi. Ég sagði að þar væri úr vöndu að ráða. Grunnmerking forsetningarinnar í er 'inn(i) í' og þess vegna notum við hana venjulega um hús – í Þjóðleikhúsinu. Grunnmerking á er aftur á móti 'ofan á' eða 'utan á' og þess vegna notum við hana venjulega um torg – á Lækjartorgi. En hvernig á að fara með fyrirbæri sem er hús en heitir torg? Ég man ekki fyrir víst hvað við ritari rektors sammæltumst um en held þó að það hafi verið á Háskólatorgi – a.m.k. sýnist mér að það hafi fljótlega fest í sessi og sé venjulega notað þótt hinu bregði fyrir.

Ástæðan fyrir því að ég nefni þetta hér er færsla Sverris Páls í gær, þar sem hann sagði: „Ég hef tekið eftir því í fréttum að fólk er nær endalaust að falla í jörðina. Nú dettur fólk ekki lengur á gólfið, á gangstéttina, á grasið eða á götuna.“ Út frá þessu fór ég að hugsa um forsetningarnar sem notaðar eru með sögnunum detta og falla. Eins og þarna er nefnt er hægt að tala um að detta eða falla á gólfið / gangstéttina / götuna / jörðina, en það er líka hægt að detta / falla í gólfið / götuna / jörðina – en tæplega *í gangstéttina. Báðar forsetningarnar eru algengar með þessum orðum og eiga sér yfirleitt margra áratuga sögu með þeim – nema sambandið falla / detta í jörðina sem virðist vera fremur nýlegt en er orðið mjög algengt eins og Sverrir Páll taldi.

Það þarf í sjálfu sér ekki að koma á óvart að forsetningin í sæki á. Þetta er næstalgengasta orðmynd málsins, á eftir , og hefur verið að sækja í sig veðrið undanfarna áratugi (og raunar allt frá fornu máli). Spurningin er hins vegar hvort einhver merkingarmunur sé á í og á í þessum samböndum. Mér sýnist að svo geti stundum verið og held að sá munur felist í því að með í sé athygli beint að sögninni en með á fremur að nafnorðinu. Þannig finnst mér mun eðlilegra að segja bollinn datt í gólfið og brotnaði en á gólfið – þar má segja að ástæðan fyrir því að bollinn brotnaði sé að hann datt, aukaatriði hvar hann lenti. Aftur á móti er eðlilegt að segja ég datt á hart steingólf og rotaðist en ekki í hart steingólf – þar er lendingarstaðurinn aðalatriðið.

Ég er sem sé ekki sammála mati Sverris Páls, „að falla í jörðina finnst mér að fara talsvert dýpra en á yfirborð hennar“. Þessi skilningur væri vissulega rökréttur miðað við að grunnmerking í sé 'inn(i) í' eins og áður segir, en hins vegar er merkingin miklu fjölbreyttari en svo, eins og er með flestar forsetningar. En ef þetta væri eini skilningurinn ætti sama að gilda um falla / detta í gólfið og falla / detta í götuna en hvort tveggja hefur verið algengt í málinu undanfarin 80-90 ár. Aftur á móti er aldrei sagt *falla / detta í gangstéttina eins og áður segir, og ekki heldur *falla / detta í veginn, þótt búast mætti við að um gangstéttina og veginn gilti hið og um götuna. Það er mjög oft tilviljun háð hvaða forsetningar eru notaðar með tilteknum nafnorðum.

Þetta er auðvitað vel þekkt í tengslum við staðanöfn þar sem ýmist er notað í eða á með nöfnum sem hafa sama seinni hluta og búast mætti við að tækju sömu forsetningu – við segjum í Reykjavík en á Húsavík, í Hafnarfirði en á Stöðvarfirði, í Borgarnesi en á Akranesi, í Vatnsdal en á Kaldadal, í Grafarósi en á Blönduósi, í Kópavogi en á Djúpavogi, í Holtsmúla en á Fellsmúla, o.s.frv. Að einhverju leyti er þetta landshlutabundið en það er vitanlega engin skýring – þetta eru málvenjur sem ekki eiga sér neinar röklegar skýringar nema í einstöku tilvikum. En einmitt þess vegna geta þessar málvenjur breyst, og tilfinning fólks fyrir því hvaða forsetning eigi við með tilteknum orðum getur verið mismunandi. Það er ekkert óeðlilegt.