Posted on

Pólitísk misnotkun íslenskunnar

Í grein í Viðskiptablaðinu í gær vísar varaformaður Miðflokksins í grein sem Bubbi Morthens („mistæk samviska þjóðarinnar“) skrifaði nýlega í Morgunblaðið og segir: „Bubbi er þó sömu fjötrum bundinn og okkar helsti málfarslegi aðgerðaleysissinni, Eiríkur Rögnvaldsson. Í þeirra hópi snarhemlar öll umfjöllun um innflytjendamál á hárréttum stað við leyfileg mörk opinberrar umræðu á frjálslyndum vinstri væng, nefnilega í léttvægum athugasemdum um ófullnægjandi aðkomu hins opinbera að íslenskukennslu fyrir útlendinga. Þótt sú umræða sé áratugagömul og þótt það verkefni hafi augljóslega aldrei verið alveg raunhæft, get ég sannarlega tekið undir að útlendingar verða að hafa hér bæði hvata og tækifæri til þess að læra íslensku.“

En í þessum orðum opinberar varaformaðurinn að hann hefur annaðhvort ekki kynnt sér málið ýkja vel eða er ekki sérlega annt um sannleikann. Tæpast er hægt að segja að umræða um mikilvægi opinbers stuðnings við íslenskukennslu innflytjenda sé „áratugagömul“ enda voru innflytjendur sárafáir fram yfir aldamót. Ég sé ekki heldur hvers vegna verkefnið var „augljóslega […] aldrei raunhæft“. En þetta eru aukaatriði. Aðalatriðið er að það er fráleitt að halda því fram að umræða um þessi mál, a.m.k. af minni hálfu, hafi ekki náð lengra en að „léttvægum athugasemdum um ófullnægjandi aðkomu hins opinbera að íslenskukennslu fyrir útlendinga“. Þau sem hafa lesið það sem ég hef skrifað vita að þetta er rangt – kolrangt.

Ég hef vissulega oft gagnrýnt stjórnvöld, bæði fyrri ríkisstjórn og þá sem nú situr, fyrir lítinn stuðning við kennslu í íslensku sem öðru máli. En ég hef ekki síður gagnrýnt atvinnurekendur fyrir að gera engar kröfur um íslenskukunnáttu og liðsinna starfsfólki ekki við íslenskunám. Ég hef gagnrýnt ferðaþjónustuna harkalega fyrir að halda ferðafólki frá íslensku á ýmsan hátt. Ég hef skrifað um óþarfa og óeðlilega enskunotkun á ýmsum sviðum – á ráðstefnum, á skiltum, í auglýsingum og víðar. Ég hef brýnt fyrir fólki að sýna þeim sem eru að læra málið þolinmæði, stilla óumbeðnum leiðréttingum í hóf og skipta ekki að óþörfu yfir í ensku. Ég hef skrifað um meðvirkni okkar og meðvitundarleysi gagnvart því hvernig íslenskan hörfar fyrir ensku.

En ég hef líka skrifað um nauðsyn breyttrar atvinnustefnu og sagt: „Mín skoðun er sú að framtíð íslenskunnar verði ekki tryggð nema með gerbreyttri atvinnu- og launastefnu þar sem hætt verði að leggja áherslu á að fá til landsins tugþúsundir fólks í láglaunastörf þar sem þarf að vinna myrkranna á milli til að ná endum saman og fólk hefur hvorki tíma né orku, né heldur hvata, til íslenskunáms. Þess í stað þarf að leggja áherslu á atvinnugreinar þar sem eru færri en betur launuð störf sem krefjast menntunar. Vandinn verður þá minni vegna þess að fólkið er færra, og við fáum fólk sem hefur betri aðstæður til íslenskunáms.“ En ég bætti við: „Kannski verðum við bara að sætta okkur við að fórna íslenskunni fyrir hagvöxtinn.“

Það verður ekki betur séð en varaformaðurinn reki vanda íslenskunnar fyrst og fremst til fjölgunar innflytjenda. Gott og vel – segjum að ég sé réttnefndur „aðgerðaleysissinni“ sem ekki hefur neitt fram að færa til bjargar íslenskunni – af því að ég vil ekki tala gegn innflytjendum – og hugum að því hvaða aðgerðir varaformaðurinn boði í því efni. Ég sé ekki að hann nefni neitt, nema nauðsyn þess að auka fæðingartíðni og fækka þar með innflytjendum (hann segir „ljóst að þessi innflytjendastraumur til Íslands helst að einhverju leyti í hendur við samdrátt í barneignum“ sem er auðvitað nokkuð sérkennileg skýring vegna þess að það hlýtur að taka a.m.k. tuttugu ár að samdráttur í barneignum komi fram í fækkun fólks á vinnumarkaði).

En segjum samt að varaformanninum yrði að þeirri ósk að fæðingartíðni snarhækkaði og innflutningur fólks til landsins stöðvaðist algerlega nú þegar. Eftir sem áður eru fyrir í landinu tugir þúsunda innflytjenda sem tala ekki íslensku nema að takmörkuðu leyti, og það fólk er ekkert að fara – ef það gerði það, annaðhvort af frjálsum vilja eða yrði hrakið burt með einhverjum ráðum, hryndi þjóðfélagið samstundis eins og öllum má ljóst vera. Við þurfum á þessu fólki að halda næstu áratugina, a.m.k. þangað til börnin sem fæðast á næstu árum geta tekið við störfunum sem það sinnir nú. Ef við viljum halda íslenskunni sem aðalsamskiptamáli í atvinnulífinu verðum við þess vegna að kenna innflytjendum íslensku. Við höfum ekkert val.

Auðvitað veit varaformaður Miðflokksins þetta allt saman þótt hann hiki ekki við að ljúga því að ég sé „aðgerðaleysissinni“ sem hafi engar tillögur að aðgerðum til að bæta stöðu tungunnar. En tilgangur hans með þessum skrifum er augljóslega ekki að ræða uppbyggilega um vanda íslenskunnar – sem vissulega er raunverulegur – og lausnir á honum. Tilgangurinn er að slá pólitískar keilur. Það er t.d. vitanlega meðvitað hjá honum að tala alls staðar um útlendinga frekar en innflytjendur. Það er dapurlegt – en ekki óvænt – að íslenskan skuli þannig gerð að pólitísku bitbeini. Það er ekki til þess fallið að efla samstöðu um hana, sem er þó mikilvægari en nokkru sinni fyrr. Við skulum sameinast um að hafna pólitískri misnotkun íslenskunnar.