Posted on

Skiptir íslenskukunnátta máli fyrir verkafólk?

Formaður Eflingar skrifar langan pistil á Facebook í framhaldi af erindi sínu á málþingi ASÍ á föstudaginn var um stöðu kvenna af erlendum uppruna á vinnumarkaði. Þótt ég sé ósammála henni um sumt er mjög margt þarna sem ég get tekið undir, ekki síst um óæskileg áhrif þeirrar atvinnustefnu sem hefur „síðasta áratug snúist um að hingað flyttist fólk í þeim tilgangi að vinna í láglaunastörfum“. Ég skrifaði í pistli í fyrra: „Mín skoðun er sú að framtíð íslenskunnar verði ekki tryggð nema með gerbreyttri atvinnu- og launastefnu þar sem hætt verði að leggja áherslu á að fá til landsins tugþúsundir fólks í láglaunastörf þar sem þarf að vinna myrkranna á milli til að ná endum saman og fólk hefur hvorki tíma né orku, né heldur hvata, til íslenskunáms.“

Ein ástæðan sem formaðurinn nefnir fyrir því að frjálst flæði vinnuafls sé „eftirsóknarvert fyrir efnahagslega og pólitíska valdastétt“ er þessi: „Lýðræðisleg þátttaka væri að mestu skilin eftir í heimalandinu. Fyrsta kynslóð innflytjenda tæki yfirleitt ekki þátt í kosningum, sem gerði það að verkum að þau yrðu ekki hópur sem gæti haft áhrif á útkomu þingkosninga; því væri mjög auðvelt fyrir stjórnmálafólk að láta sem hagsmunir þeirra skiptu engu máli.“ Þetta er alveg rétt, en ég held að þarna hlyti aukin íslenskukunnátta að geta breytt einhverju. Ef innflytjendur skildu almennt íslensku gætu þeir frekar fylgst með pólitískri umræðu, líkur á að þeir tækju þátt í kosningum ykjust, og stjórnmálafólk og flokkar sæju frekar hag sinn í að taka tillit til þeirra.

Formaðurinn segir einnig: „Að sjálfsögðu er alltaf gagnlegt að geta talað tungumál landsins sem búið er í. En það er ekki töfralausn á þeim grafalvarlegu kerfisbundnu vandamálum sem aðflutt verkafólk býr við. Við vinnum ekki gegn stéttaskiptingu, arðráni og misskiptingu með því að læra íslensku. Jafnvel þótt allt aðflutta verkafólkið sem starfar á íslenskum vinnumarkaði myndi á morgun vakna altalandi á íslensku yrðu þau enn verkamenn við störf á byggingasvæðum, á hótelum, við ræstingar, í eldhúsum, á hjúkrunarheimilum og leikskólum.“ Í framhaldi af þessu segir formaðurinn „það er ekki mitt hlutverk eða félaga minna í stjórn eða trúnaðarráði eða samninganefnd að kenna fólki íslensku eða vinna að verndun þjóðtungunnar“.

Þetta er auðvitað hárrétt – þótt því megi bæta við að það er ekki heldur hlutverk verkalýðsfélaga að gera lítið úr verndun þjóðtungunnar eins og mér finnst formaðurinn stundum gera með tali sínu. Ég held reyndar að ein leið til að vinna gegn stéttaskiptingu, arðráðni og misskiptingu sé að innflytjendur læri íslensku og fer ekki ofan af því að með því aukast möguleikar þeirra á vinnumarkaði auk þess sem dregið er úr hættu á að svindlað sé á þeim. En vitaskuld er það rétt að íslenskukunnátta ein og sér bætir stöðu fólks ekki endilega mikið. Aðalvandinn er nefnilega viðhorf Íslendinga – til ensku, ófullkominnar íslensku, og ekki síst til innflytjenda almennt. Ef okkur er í raun og veru annt um íslenskuna þurfum við virkilega að taka okkur tak í þeim efnum.

Okkur formann Eflingar greinir vissulega á um það hvort íslenskukunnátta sé eða geti orðið innflytjendum til hagsbóta á einhvern hátt. Eins og ég hef oft reynt að rökstyðja held ég að svo sé, en ætla ekki að fara að þrasa um það – það er allt í lagi að við séum ósammála um þetta. Formaðurinn tekur vitanlega afstöðu út frá því sem hún telur gagnast umbjóðendum sínum best og það kann vel að vera að einhliða áhersla á mikilvægi íslenskukennslu dragi athyglina frá öðru sem máli skiptir fyrir innflytjendur. En ég tel að hagsmunir innflytjenda geti vel farið saman við hagsmuni íslenskunnar – eða ættu a.m.k. ekki að þurfa að rekast ekki á við þá. Það er hvorki innflytjendum í hag né íslenskunni að þessu tvennu sé stillt upp sem andstæðum.