Fyrir hálfu öðru ári skrifaði ég um sambandið lokað búsetuúrræði sem kom fyrst fyrir í frumvarpi um breytingar á útlendingalögum sem þáverandi dómsmálaráðherra lagði fram vorið 2022. Ég benti á að þetta félli illa að merkingu orðsins úrræði og samsetningarinnar búsetuúrræði sem hefur unnið sér nokkra hefð í merkingunni 'heimili fyrir fólk í viðkvæmri stöðu'. Þarna væri hins vegar gert ráð fyrir að fólk sætti frelsisskerðingu og því væri ekki um neins konar „heimili“ að ræða. Haustið 2024 hugðist nýr dómsmálaráðherra leggja málið fram að nýju og þá hét sama fyrirbæri lokað brottfararúrræði, sem hugsanlega má segja að sé nær því en búsetuúrræði að lýsa því um hvað er að ræða, en þó vantar enn í orðið það grundvallaratriði að brottförin er ekki sjálfviljug.
Í fyrra skiptið náði frumvarpið ekki fram að ganga og í það seinna var það aldrei lagt fram vegna stjórnarskipta. En núverandi dómsmálaráðherra klappar sama stein og hefur nú lagt fram í samráðsgátt stjórnvalda „Frumvarp um brottfararstöð“ – orðhlutinn -úrræði er sem sé horfinn úr heitinu sem er vissulega til bóta. Eftir stendur að talað er um brottför en ekki brottvísun, og þar að auki hefur lýsingarorðið lokaður verið fellt brott. Skilgreiningin á brottfararstöð er „Staður þar sem útlendingur sætir frelsisskerðingu samkvæmt lögum um útlendinga vegna ákvörðunar um að hann skuli yfirgefa landið“ en orðið sjálft er hlutlaust og meinlaust – hvorugur orðhlutinn gefur nokkrar vísbendingar um að um sé að ræða nauðungarvistun til undirbúnings þvingaðri brottvísun.
Íslenska orðið yfir það þegar fólk er sent úr landi gegn vilja sínum er vitanlega ekki brottför, heldur brottvísun eða brottrekstur, og íslenska orðið yfir það þegar fólki er haldið einhvers staðar gegn vilja sínum er vitanlega ekki stöð, heldur fangelsi eða hugsanlega varðhald. Ég nefndi í fyrri pistli að til greina kæmi að tala um lokaðar brottvísunarbúðir vegna þess að í búðum er fólk oft ekki sjálfviljugt, svo sem í einangrunarbúðum, fangabúðum, flóttamannabúðum, herbúðum o.fl. Í frumvarpsdrögunum er líka notað orðið vistmaður og skilgreint „Einstaklingur sem er vistaður á brottfararstöð“ – en þótt vissulega sé stundum talað um nauðungarvistun er þetta í andstöðu við venjulega merkingu orðsins vistmaður, ‚sá eða sú sem býr á stofnun‘. Rétta orðið er auðvitað fangi.
Af einhverjum ástæðum er þó feluleiknum ekki haldið áfram til enda – orðalag frumvarpsdraganna er sem sé nykrað. Það er nefnilega alls staðar talað um fangaverði en ekki t.d. gæslumenn og þar kemur því hið rétta eðli fyrirbærisins upp á yfirborðið – þar sem eru fangaverðir hljóta að vera fangar. Ég legg áherslu á að þetta snýst ekkert um það hvort umrætt lagafrumvarp eða fyrirhuguð stofnun eigi rétt á sér. Ég er eingöngu að gera athugasemdir við málnotkunina sem virðist miðast að því að milda ásýnd tillögunnar og slá þannig ryki í augu málnotenda. Vandræðagangurinn með nýtt og nýtt heiti á áformaða stofnun sýnir þetta glöggt. Það rýrir traust almennings á stjórnvöldum ef þau hafa ekki kjark til að segja það sem þau meina og nota þau orð sem hefð er fyrir í málinu.

+354-861-6417
eirikurr