Posted on

Sólítt og vandað

Ég var spurður að því í dag hvort einhver möguleiki væri að segja hversu mörg íslensk orð væru í hættu að hverfa úr málinu, eða hversu mörg féllu úr notkun á hverju ári. Ég sagði að það væri útilokað að segja nokkuð um þetta. Í fyrsta lagi er það skilgreiningaratriði hvenær orð er „dautt“ eða „horfið“ úr málinu – er orð ekki „til“ í málinu í einhverjum skilningi ef heimildir eru um það, jafnvel þótt það sé aldrei notað í nútímamáli? Í öðru lagi er ógerlegt að fullyrða að eitthvert orð sem heimildir eru um sé algerlega horfið úr notkun – þótt við heyrum það aldrei, og þótt við finnum engin rituð dæmi um það í nýlegum textum, sýnir það ekki að orðið sé horfið. Ýmis dæmi eru um að orð lifi öldum saman í málinu án þess að komast nokkru sinni á prent.

En svo er ekki heldur neitt athugavert við það að orð falli úr notkun. Þjóðfélagið breytist, atvinnuhættir breytast, tæknin breytist, og það er fullkomlega eðlilegt að orð sem tengjast úreltum þjóðfélagsháttum, úreltum atvinnuháttum eða úreltri tækni hverfi úr málinu en önnur orð komi í staðinn. Vissulega er okkur stundum sárt um orð sem voru hluti af málinu þegar við vorum að alast upp og sjáum eftir þeim ef þau falla úr notkun. En ef ástæðan fyrir hvarfi þeirra er sú að við þurfum ekki á þeim að halda lengur vegna þess að það sem þau vísuðu til er ekki hluti af nútíma þjóðfélagi tökum við sjaldnast eftir því að við erum hætt að heyra þau eða sjá. Stundum rekumst við samt á þau og áttum okkur þá á að við höfum ekki heyrt þau lengi.

Eitt slíkt dæmi – reyndar ekki um orð heldur orðasamband – rakst ég einmitt á í vikunni, í viðtali við rúmlega sextugan mann í sjónvarpsþætti. Það var sambandið sólítt og vandað sem ég hef ekki heyrt áratugum saman svo að ég muni en man vel eftir á bernskuheimili mínu upp úr 1960. Einhvern veginn finnst mér samt að það hafi verið notað sem einhvers konar tilvitnun. Merkingin er 'traust og vandað' eða eitthvað slíkt enda ljóst að sólítt er komið af danska lýsingarorðinu solid sem merkir 'traustur, rammgerður'. Orðið sólítt er þó ekki að finna í neinum íslenskum orðabókum og virðist ekki hafa verið mikið notað, a.m.k. ekki í formlegu máli – aðeins fimmtán dæmi eru um það á tímarit.is, það elsta frá 1933.

Í þrem af þessum dæmum kemur orðið fyrir í sambandinu sólítt og vandað. Í Tímariti rafvirkja 1953 segir: „Allt er jafn sólítt og vandað hjá Gvendi, sagði rafvirkinn.“ Í grein um rómverska mynt í Morgunblaðinu 1987 segir: „Menn tala um að eitthvað sé „sólítt og vandað“. Orðið solitt er dregið af nafninu á gullpeningi Konstantinusar mikla, sem kallaðist solidus.“ Í minningargrein í Morgunblaðinu 2001 segir: „Allt skyldi „traust, sólítt og vandað“ heyrðist oft á þeim árum.“ Svo skemmtilega vill til að undir þessa minningargrein skrifa m.a. foreldrar mannsins sem ég heyrði sambandið hjá í vikunni, sem sýnir að hann hefur lært sambandið í æsku. Ekkert bendir til að sambandið hafi verið notað í einum landshluta öðrum fremur.

En þrátt fyrir að nær engin dæmi séu um sambandið á prenti getur vel verið að það hafi verið þekkt og útbreitt víða um land áður fyrr en ekki komist á meira prent vegna þess að sólítt er dönskusletta. Það er hins vegar lítill vafi á því að sambandið er nær horfið núna – óformlegt mál kemst miklu frekar á prent og ef það væri eitthvað notað væru örugglega einhver dæmi um það á samfélagsmiðlum eða annars staðar á netinu. En ekki eitt einasta dæmi er um það í Risamálheildinni þar sem eru þó tuttugu dæmi um sólítt eitt og sér. Enga sérstaka skýringu er að sjá á hvarfi sambandsins og auðvitað er enginn sérstakur missir að því en af því að það er hluti af málheimi æsku minnar sé ég samt svolítið eftir því.