Posted on

Beyging frændsemisorða

Eintölubeyging frændsemisorðanna faðir, bróðir, móðir, systir og dóttir er einstök í málinu – þau hafa -i- í endingunni í nefnifalli en -u- í öllum aukaföllum. Við það bætist að í faðir verður u-hljóðvarp sem breytir a í ö í aukaföllunum. Karlkynsorðin faðir og bróðir hafa tilhneigingu til að fá -s-endingu í eignarfalli, föðurs og bróðurs, en um það hef ég skrifað áður. En fleiri tilbrigði eru í beygingu þessara orða – þau hafa einnig (nema faðir) ríka tilhneigingu til að halda -i- í aukaföllunum. Í Málfarsbankanum segir t.d.: „Lengi hefur þekkst að orðið systir sé haft óbeygt í eintölu eins og í eftirfarandi dæmum: þau kölluðu á „systir“ sína, hann sat hjá „systir“ sinni, hún fékk lánaðan kjól „systir“ sinnar. Slík málnotkun þykir ekki hæfa í vönduðu máli.“

Í bók Björns Karels Þórólfssonar Um íslenskar orðmyndir á 14. og 15. öld frá 1925 segir að það sé „algengt í nútíðarmáli, að hafa nefnifallsmyndina í allri eintölunni af orðunum móðir, dóttir, bróðir, systir“ og sú beyging eigi sér langa sögu: „Ruglingur á beygingarendingum r-stofna kemur fyrst fram á síðari hluta 14. aldar […]. Á 15. öld verður ruglingur þessi algengur í brjefum […]“ segir Björn. Í Málinu á Nýja testamenti Odds Gottskálkssonar 1540 segir Jón Helgason að „nokkur ruglingur“ á beygingu frændsemisorðanna komi „greinilega fram, sem vænta mátti“. Í Islandsk Grammatik eftir Valtý Guðmundsson frá 1922 segir að orðin móðir, dóttir og systir séu oftast höfð óbeygð í talmáli og einnig stundum í ritmáli.

Það er athyglisvert að Valtýr bætir við að þetta sjáist einkum á prenti í vesturíslenskum blöðum og bókum. Lausleg athugun á tímarit.is staðfestir þetta – meginhluti dæma um aukafallsmyndir með -ir allt frá því um aldamótin 1900 og langt fram eftir tuttugustu öld er úr vesturíslensku blöðunum. Það sýnir væntanlega að þótt málhreinsun þessa tíma hefur tekist að berja beyginguna að verulegu leyti niður í blöðum á Íslandi hefur hún minna náð vestur um haf. Engin ástæða er þó til að ætla annað en beygingin hafi alla tíð lifað góðu lífi í talmáli og jafnvel verið aðalbeygingin. Þegar ég var að alast upp í Skagafirði fyrir 60-70 árum held ég að hún hafi verið ríkjandi í umhverfi mínu – foreldrar mínir notuðu hana og það eldra fólk sem ég umgekkst.

En þrátt fyrir andstöðu við -ir-myndirnar í aukaföllum slapp slæðingur af þeim á prent alla tuttugustu öldina. Það er athyglisvert að dæmum um þær á tímarit.is fjölgar talsvert á árunum 1980-1990 – um svipað leyti og málsnið fjölmiðla varð frjálslegra og slaknaði á prófarkalestri. Í Risamálheildinni skipta dæmin tugum þúsunda, einkum um myndirnar bróðir, systir og dóttir í aukaföllum – móðir er af einhverjum ástæðum miklu sjaldgæfari sem aukafallsmynd. 90-95% dæma um þessar myndir eru af samfélagsmiðlum og þar eru -ir-myndirnar sjötti hluti og allt upp í fimmtungur af heildinni, nema aðeins tuttugasti hluti í móðir. Það er því ljóst að þessi beyging er sprelllifandi í málinu og engin ástæða til annars en telja hana fullgilt og rétt mál.