Í dag er gamlársdagur – eða er kannski gamlaársdagur? Um það eru skiptar skoðanir. Í Íslenskri stafsetningarorðabók sem er á vegum Íslenskrar málnefndar og verður að teljast eins konar hæstiréttur um stafsetningu er aðeins fyrrnefnda myndin gefin, og sama gildir um Réttritunarorðabók handa grunnskólum sem Baldur Jónsson ritstýrði og Námsgagnastofnun og Íslensk málnefnd gáfu út 1989. Í Íslenskri orðabók, 3. útgáfu 2002, eru hins vegar báðar myndir gefnar án þess að gert sé upp á milli þeirra og í Stafsetningarorðabók Halldórs Halldórssonar sem var síðast gefin út 1994 segir: „gamlársdagur eða gamlaársdagur, rétt, að hver riti eftir sínum framburði.“ Allt það sama gildir vitanlega um gamlárskvöld eða gamlaárskvöld.
Orðin gaml(a)ársdagur og gaml(a)árskvöld koma ekki fyrir í fornu máli. Í Sturlungu er talað um „átta aptan jóla“ sem merkir 'kvöldið fyrir áttunda dag jóla', þ.e. gamlárskvöld, eftir því sem Pétur Sigurðsson segir í Safni til sögu Íslands og íslenzkra bókmenta. Árni Björnsson segir í Sögu daganna að áður fyrr hafi dagurinn yfirleitt verið „kenndur við Sylvester páfa sem þá á sér messudag, eða nefndur síðasti dagur ársins, dagurinn fyrir nýársdag eða annað í þeim dúr“. Hann segir að gamlárskvöld sjáist ekki í rituðu máli fyrr en 1791 og gamlársdagur ekki fyrr en í Þjóðsögum Jóns Árnasonar 1862, en reyndar má finna nokkur aðeins eldri dæmi um myndina gamlaársdagur – það elsta í Þjóðólfi 1855. Svo er líka til myndin gaml(a)ársdagskvöld.
Ritháttur þessara orða hefur lengi vafist fyrir fólki. Fyrir sextíu árum benti Davíð Oddsson (síðar forsætisráðherra) á það í háðskri grein í Skólablaði Menntaskólans í Reykjavík að kennarar þar teldu gamlaársdagur hinn eina rétta rithátt þrátt fyrir að uppflettirit ýmist viðurkenndu hvort tveggja eða hefðu aðeins gamlársdagur. Væntanlega endurspeglar rithátturinn gamlaársdagur/-kvöld myndun orðanna – um er að ræða lýsingarorð í veikri beygingu á undan nafnorði, gamla+ár, sem myndar svo eignarfallssamsetningu með dagur/ kvöld. Það er mjög eðlilegt að a falli niður í framburði á undan sérhljóði. Hliðstæðar tvímyndir eru t.d. til í örnefnunum Litl(a)holt og Mikl(a)holt þótt seinni hluti hefjist þar ekki á sérhljóði.
Ég efast um að gamlaársdagur, með a, sé algengur framburður – allavega hefur rithátturinn gamlársdagur, án a, alla tíð verið mun algengari en hinn þótt hann gangi í raun í berhögg við þá meginreglu stafsetningar að fara eftir uppruna orða (alltaf er t.d. ritað Elliðaár þótt a-ið sé líklega sjaldnast borið fram). Rithættinum gamalársdagur og gamalárskvöld bregður einnig fyrir – elstu dæmi um þær myndir eru frá því upp úr 1870 og nokkrir tugir dæma um þær eru í Risamálheildinni, einkum af samfélagsmiðlum. Þessar myndir er í sjálfu sér alveg rökréttar – þar er stofn lýsingarorðsins, gamal-, notaður í stað beygðrar myndar, sbr. gamaldags, gamalmenni, gamalær o.fl. En líklega er réttast að halda sig við ritháttinn gamlársdag/kvöld.

+354-861-6417
eirikurr