Annar janúar er einn þeirra daga sem hafa óopinbert heiti í óformlegu máli – hann er stundum kallaður vörutalningardagurinn. Þetta orð sést fyrst á prenti um þennan dag í Morgunblaðinu 1961: „Síðan kemur sunnudagur, svo nýársdagur og þá vörutalningardagur, og verzlanir ekki opnaðar fyrr en þriðja janúar.“ Þarna er þetta þó augljóslega aðeins skilgreining eða lýsing á deginum en ekki heiti sambærilegt við þrettándinn eða eitthvað slíkt. Orðið varð ekki heiti þessa dags fyrr en eftir að Jón Gnarr notaði það í uppistandi sínu, „Ég var einu sinni nörd“, árið 1998. Þar lýsti hann því hvernig það hefði verið að eiga afmæli annan janúar þegar hafði gleymst að kaupa afmælisgjöf og allar verslanir voru lokaðar vegna þess að það var vörutalningardagur.
Jón notaði orðið líka sem lýsingu, án greinis, en upp úr þessu var farið að bæta á það greini og nota það sem heiti á deginum. Á Bland.is 2004 segir: „Ég á afmæli á vörutalningardaginn.“ Á Hugi.is 2007 segir: „Það er 2. janúar, betur þekktur sem vörutalningardagurinn.“ Í Austurglugganum 2013 segir: „Sjálf á ég afmæli á „vörutalningardaginn“ – 2. janúar.“ Á vef Ríkisútvarpsins 2014 segir: „Gamli góði vörutalningardagurinn stendur fyrir sínu.“ Á twitter 2015 segir: Gleðilegan vörutalningardag kæru landsmenn!“ Á mbl.is 2019 segir: „Svo er ég ekta steingeit, enda fædd 2. janúar, á sjálfan vörutalningardaginn.“ Í Viðskiptablaðinu 2022 segir: „enda kemur hópurinn ekki saman fyrr en á sjálfan vörutalningardaginn, 2. janúar.“
Það er hátt á þriðja tug dæma um orðið í Risamálheildinni, flest af samfélagsmiðlum og meirihlutinn frá síðustu árunum 2013-2023. Það er skondið að heitið vörutalningardagurinn kom fyrst fram um þær mundir sem það var að verða úrelt – vegna strikamerkinga og rafrænnar skráningar á öllum vörum er það liðin tíð að verslanir séu lokaðar vegna vörutalningar annan janúar. Orðið hefur samt þótt fyndið og þess vegna komist í nokkra notkun, a.m.k. tímabundið. Mér sýnist þó að dregið hafi úr notkun þess á allra síðustu árum, e.t.v. vegna þess að yngra fólk man ekki eftir lokunum verslana vegna vörutalningar og tengir orðið því ekki við neitt. Líklega verður þetta eitt þeirra fjölmörgu orða sem eru aðeins notuð í stuttan tíma og hverfa svo.

+354-861-6417
eirikurr