Í frétt á mbl.is segir „Segja þeir að gæta þurfi varhugar við áframhaldandi samningsgerð.“ Ég hjó eftir þessu vegna þess að orðið varhugur – eða varhugi, báðar myndir eru til – er yfirleitt aðeins notað í einu föstu orðasambandi, gjalda varhug(a) við einhverju, rétt eins og boðstóll er aðeins notað í hafa/vera á boðstólum og takteinn í hafa á takteinum. Þarna er orðið hins vegar notað með sögninni gæta og haft í eignarfalli sem er venjulegt andlagsfall sagnarinnar. Orðalag fréttarinnar er komið úr bókun fulltrúa Sjálfstæðisflokksins á fundi skóla- og frístundaráðs en þar segir hins vegar „gæta varhug við áframhaldandi samningsgerð“ – þar er varhug í þolfalli eins og með gjalda. En þótt ég hafi ekki kannast við gæta varhug(ar) við er það ekki nýjung.
Þegar í fornu máli kom orðið varhugi eingöngu fyrir í sambandinu gjalda varhuga við sem merkir 'vera á verði gagnvart', t.d. „Hann lét þá vandlega gæta hans og galt mikinn varhuga við svikum hans“ í Ólafs sögu helga. Í öllum fornmálsdæmum er veika myndin varhugi notuð og það er ekki fyrr en undir aldamótin 1900 sem sterka myndin varhugur fer að sjást. Sú veika var samt lengst af mun algengari og í Íslenskri nútímamálsorðabók segir undir varhugur: „oftar: gjalda varhuga við e-u.“ En um 1970 náði sterka myndin yfirhöndinni og hefur aukið forskotið smátt og smátt. Sú veika virðist vera alveg að hverfa ef marka má tímarit.is og í Risamálheildinni er sterka myndin tólf sinnum algengari en hin í textum frá þessari öld.
Orðið varhugi/varhugur er sæmilega gagnsætt, en vegna þess að sögnin gjalda hefur augljóslega ekki venjulega merkingu sína í sambandinu gjalda varhug(a) við skiljum við það sem heild og það er skýrt sem heild í orðabókum. Þess vegna er ekkert undarlegt að málnotendur hneigist til að breyta því í átt til meira gagnsæis með því að nota sögnina gæta í staðinn. Um það er á sjötta tug dæma á tímarit.is, þau elstu frá því á nítjándu öld eins og þetta í Norðanfara 1875: „Verður því að gæta varhuga við, að hún komist að mat.“ Elsta dæmi um sterku myndina varhugur með gæta er í Heimskringlu 1889: „ökumenn skyldu einnig gæta varhuga við slíkri óþarfa nærgengni drengja.“ Eins og með gjalda eru dæmi um veiku myndina að hverfa.
Sögnin gæta stjórnar venjulega eignarfalli eins og áður er nefnt og framan af var venjulega talað um að gæta varhugar þegar sterka myndin var notuð – sú veika er eins í öllum aukaföllum og því sést ekki hvort notað er þolfall eða eignarfall í gæta varhuga. En á seinni árum er oftast notað þolfall af sterku myndinni. Elsta dæmi um það er í Mánudagsblaðinu 1953: „Samt sem áður verður að gæta varhug við mjóum götum.“ Af tíu dæmum um sterku myndina með gæta í Risamálheildinni eru níu með þolfall, gæta varhug. Þarna er búið að rjúfa tengslin við venjulega hegðun sagnarinnar gæta – engum dytti í hug að segja t.d. *gæta varúð. Þetta er því farið að haga sér eins og fast orðasamband þar sem merkingin felst í heildinni en ekki einstökum orðum.
Merking sambandsins gæta varhug(ar) er reyndar eitthvað á reiki – í sumum tilvikum virðist sambandið fremur haft í merkingunni ‚fara varlega‘ en ‚vera á verði gagnvart‘ og er þá yfirleitt notað án þess að við komi á eftir. Í Búnaðarritinu 1887 segir: „Verður því að gæta varhuga við kaup á því“ (hér kemur að vísu við á eftir en það á við kaup, ekki varhuga). Í Vísi 2012 segir: „Hún hvetur fólk til að gæta varhugar þar sem öfgarnar geti eyðilagt góðan málstað.“ Einhver dæmi eru líka um þessa merkingu í gjalda varhug þótt þau virðist ekki vera mörg. Í Morgunblaðinu 2005 segir: „það þarf að gjalda varhug eigi enskan ekki að sigla upp að hlið íslenskunnar.“ Í Vísi 2012 segir: „við eigum jafnframt að vera á varðbergi og gjalda varhug.“
Það má halda því fram að sambandið gæta varhuga/varhugar/varhug við sé tilkomið fyrir misskilning en þó liggur beinna við að segja að þarna hafi orðasambandi sem var torskilið og ruglingslegt, vegna þess að í því var algeng sögn sem augljóslega hafði ekki venjulega merkingu, verið breytt í samband sem var skiljanlegt út frá merkingu einstakra orða í því. En þegar farið er að nota þolfall með gæta í stað eignarfallsins sem sögnin tekur annars, og segja gæta varhug við, verður í raun til nýtt fast orðasamband sem verður að skilja í heild. Hvað sem þessu líður er ljóst að þótt sögnin gjalda sé upphafleg í þessu sambandi á sögnin gæta sér hálfrar annarrar aldar sögu í því. Mér finnst ekkert að því að telja gæta varhug við gott og gilt.

+354-861-6417
eirikurr