Posted on

Hvortveggi, hvor tveggja – og báðir

Í innleggi í „Málvöndunarþættinum“ nýlega sagðist höfundur sakna þess að heyra ekki lengur orðin hvort tveggja eða hvoru tveggja og sagði að orðið bæði virtist „hafa yfirtekið þessi orð“. Það minnti mig á að fyrir fimm árum skrifaði ég: „Ég held nefnilega að „rétt“ notkun fornafnsins hvor tveggja (að ekki sé talað um hvortveggi) sé það atriði íslensks málstaðals sem er fjærst máltilfinningu venjulegra málnotenda.“ Þarna er myndin hvortveggi nefnd innan sviga en í Málfarsbankanum segir: „Hvorugkyn eintölu, hvort tveggja, er haft um ýmislegt sem ekki er hægt að telja. [...] Forn orðmynd er hvortveggi þar sem báðir orðliðir beygjast“ – í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924 er hvortveggi gefið en merkt sem „forældet“ eða „úrelt“.

Þrátt fyrir það gerði Helgi Hálfdanarson ítrekaðar tilraunir til að kenna þjóðinni notkun þessa fornafns, með  molunum „Gætum tungunnar“ sem birtust í blöðum á árunum 1982-1984 og samnefndu kveri frá 1984 – Morgunblaðið endurbirti svo molana 2006-2007. Notkun hvortveggi var skýrð í nokkrum molum, m.a. þessum: „Fornafnið hvortveggi beygist eins og greinir og veikbeygt lýsingarorð, svo sem „hinn góði“. T.d.: í hvorumtveggju samtökum (í hinum góðu samtökum. Eða: um hvorartveggju dyrnar (um hinar góðu dyr). Eða: Þetta hvorttveggja er rétt (þetta hið góða).“ En þessi tilraun mistókst – hvortveggi sést nú aldrei og það má fullyrða að þessi notkun orðsins sé algerlega horfin og fjarri máltilfinningu fólks.

Í Málfarsbankanum segir: „Óákveðna fornafnið báðir er notað um það sem telja má með töluorðinu tveir, tvær, tvö (ekki um það sem talið er með töluorðinu tvennir, tvennar, tvenn). Jóna og Sigga komu báðar. Þegar rætt er um einhverja tvenna (t.d. Rússa og Svía) er hins vegar betra að tala um t.a.m. herbúnað hvorra tveggja. Betra er að segja hvorar tveggja buxurnar en „báðar buxurnar“.“ Í pistli Jóns G. Friðjónssonar í Málfarsbankanum segir líka að báðir sé „að ýmsu leyti vandmeðfarið“ – það er „helst ekki notað með fleirtöluorðum en með þeim er notað fn. hvor tveggja.“ Orðalagið í þessum heimildum, „betra“ og „helst ekki“ er athyglisvert – það er ekki sagt berum orðum að það sé beinlínis rangt að nota báðir með fleirtöluorðum.

Í áðurnefndum pistli tekur Jón G. Friðjónsson dæmin „?bæði skærin; ?báðar buxurnar; ?báðar börurnar; ?fara á báða tónleikana“ sem hann setur spurningarmerki við til að sýna að þetta eigi „helst ekki“ að segja, heldur nota hvor tveggja – „hvor tveggja skærin; hvorar tveggja buxurnar; hvorar tveggja börurnar; fara á hvora tveggja tónleikana. Ég þori samt að fullyrða að meginþorri málnotenda notar spurningarmerktu dæmin – ekki bara af þessum orðum, heldur öðrum hliðstæðum fleirtöluorðum. Auðvelt er að sýna fram á það með því að vísa í tíðni þriggja algengara fleirtöluorða sem ég skoðaði á tímarit.is og í Risamálheildinni buxur, tónleika og dyr. Orðin börur og skæri eru mun sjaldgæfari og tölur um þau ekki jafn marktækar.

Á tímarit.is eru þrjú dæmi um hvorar tveggja buxur en 157 um báðar buxur, um hvora tveggja tónleika eru um 130 dæmi en um báða tónleika um 720 dæmi, og um hvorar tveggja dyr eru tuttugu dæmi en um báðar dyr um tvö hundruð. Það er því ljóst að í yfirgnæfandi meirihluta dæma er notað báðar/báðir þar sem „ætti“ að vera hvorar/hvorir  tveggja. Þetta er þeim mun athyglisverðara sem þarna er nær eingöngu um að ræða prófarkalesna texta þar sem búast mætti við að „röng“ málnotkun hefði verið leiðrétt. Í Risamálheildinni er ekkert dæmi um hvorar tveggja buxur en nítján um báðar buxur, um 220 dæmi um hvora tveggja tónleika en um 360 um báða tónleika, og sjö dæmi um hvorar tveggja dyr en nítján um báðar dyr.

Elsta dæmi um hvorar tveggja buxur á tímarit.is er í Lesbók Morgunblaðsins 1951, „Hvorar tveggja buxurnar voru í sundur“, en það elsta um báðar buxur í Þjóðólfi 1882, „Eg settist nú á klepraðan stein, fór úr sokkunum og báðum buxunum“. Elsta dæmi um hvora tveggja tónleika er í Morgunblaðinu 1956, „Hvorir tveggja tónleikarnir eru kl. 3 síðdegis“, en um báða tónleika í Þjóðviljanum 1952, „mínum eigin tónverkum, sem ég spilaði á báðum tónleikunum, var vel tekið“. Elsta dæmi um hvorar tveggja dyr er í Búnaðarritinu 1911, „2 álnir væru frá endum hans til hvorratveggja dyranna“, en um báðar dyr í Heimskringlu 1892: „Báðar dyr reiðhússins voru nú opnaðar.“ Elstu dæmin um báðar/báðir eru því í öllum tilvikum eldri.

Þar með er ég ekki að segja að það sé eldra í málinu að nota báðar/báðir en hvor tveggja í slíkum setningum – það liggur fyrir að svo er ekki. En þetta sýnir samt að „rétt“ notkun hefur lengi verið sjaldgæfari en sú „ranga“, og ég fullyrði að „rétta“ notkunin er ekki einungis sjaldgæf, heldur er hún fjarri máltilfinningu meginþorra málnotenda – og raunar í andstöðu við hana. Ég hef vissulega engar formlegar rannsóknir til að styðja þessa fullyrðingu en ég byggi hana á reynslu minni, ekki síst fjörutíu ára kennslureynslu. Eins og ég skrifaði fyrir fimm árum: „Það er ekki nokkurt vit í að halda í svona forngrip sem fæstir hafa á valdi sínu og mér finnst sjálfsagt að tala um báðar buxurnar, bæði skærin og báða málstaðina – og blöndu af báðu.“