Gildi tungumálsins
Í hverju tungumáli felast menningarverðmæti. Sérhvert tungumál er einstakt á einhvern hátt – orðaforði þess, setningagerð og hljóðkerfi eru frábrugðin öllum öðrum tungumálum, merkingarblæbrigðin sem það getur tjáð geyma reynslu kynslóðanna og eru önnur en í öðrum málum. Tungumál sem deyr er að eilífu glatað – þótt við höfum um það miklar ritheimildir og upptökur, sem sjaldnast er, verður það aldrei endurvakið í sömu mynd því að tungumál lærist ekki til hlítar nema berast frá manni til manns – frá foreldrum til barna.
Sérhvert tungumál er líka merkilegt og einstakt frá fræðilegu sjónarmiði vegna þess að það getur hjálpað okkur að komast að einhverju um eðli mannlegs máls. Íslenska er t.d. viðfangsefni fræðimanna víða um heim og dæmi úr íslensku eru notuð í kennslu í miklum fjölda erlendra háskóla. Ástæðan er ekki síst sú að íslenskan er náskyld ensku og lík henni á margan hátt, þannig að auðvelt er að bera málin saman og láta sérkenni íslenskunnar í beygingum og setningagerð varpa ljósi á eðli mismunar málanna og ýmissa fyrirbæra í þeim.
Á Íslandi er tungumálið er líka beintenging okkar við sögu og menningu þjóðarinnar fyrr á tímum. Íslendingar njóta þeirra forréttinda umfram flestar aðrar þjóðir að geta tiltölulega auðveldlega lesið texta allar götur frá upphafi ritaldar fyrir 900 árum, án þess að þeir séu þýddir á nútímamál. Ef íslenskan tekur róttækum breytingum, eða hættir að vera lifandi tungumál, missum við ekki bara bein tengsl við Hávamál og Njálu, heldur líka við Íslenskan aðal og Íslandsklukkuna, Engla alheimsins og Kaldaljós, og meira að segja Ungfrú Ísland og Sextíu kíló af sólskini.
Vitanlega er tungumálið ekki síður félagslegt fyrirbæri – langsamlega mikilvægasta samskiptatæki okkar við annað fólk. Þess vegna má það ekki staðna, heldur þarf að vera lifandi og laga sig að þörfum samfélagsins á hverjum tíma. Hún verður að þola tilbrigði í framburði, beygingum og setningagerð, og að ný orð komi inn í málið og gömul orð fái nýja merkingu. Hún má ekki verða einkaeign ákveðinna hópa, og það má ekki nota hana og tilbrigði í beitingu hennar til að mismuna fólki eða skipa því í andstæðar fylkingar. Við þurfum að styðja þau sem vilja lifa og starfa í íslensku samfélagi til að ná góðu valdi á þessu mikilvæga samskiptatæki en megum ekki láta takmarkaða íslenskukunnáttu fólks bitna á því á nokkurn hátt.
En síðast en ekki síst er tungumálið útrás fyrir tilfinningar okkar – ást og gleði, hatur og reiði, sorg og hryggð, vonir og þrár – en líka tæki okkar til sköpunar, miðlunar og frjórrar hugsunar. Tungumál sem við tileinkum okkur á máltökuskeiði, móðurmál okkar, er hluti af okkur sjálfum, einkaeign okkar jafnframt því að vera sameign alls málsamfélagsins og í vissum skilningi alls mannkyns. Þetta hljómar eins og þversögn – og er þversögn. Það er ekki einfalt að umgangast málið þannig að öll hlutverk þess séu höfð í heiðri.
Það er samt það sem við þurfum að reyna að gera – með umburðarlyndi, virðingu og tillitssemi að leiðarljósi. En því miður skortir oft á það í umræðum um tungumálið. Fjöldi fólks stundar það að hnýta í málfar annarra sem tala ekki eins og þessum sjálfskipuðu verndurum tungunnar þykir rétt – fólks sem fylgir ekki hinum óopinbera íslenska málstaðli. Íslenskan – daglegt mál – hefur breyst talsvert undanfarna öld. Ýmsar málbreytingar hafa komið upp og breiðst út, og jafnvel náð til verulegs hluta landsmanna, án þess að verða hluti af staðlinum.
Það sem ekki á að segja, þau afbrigði sem samræmast ekki staðlinum, eru kölluð málvillur, þrátt fyrir að talsverður hluti þeirra sem eiga íslensku að móðurmáli – í sumum tilvikum meirihluti – noti þau. En hugum aðeins að því hvað við erum að segja með þessu. Erum við að segja að fólk sem elst upp í íslensku málumhverfi og tileinkar sér íslensku á máltökuskeiði kunni ekki íslensku? Getur málbreyting sem hefur náð til umtalsverðs hluta málnotenda verið villa? Hvaða vit er í því?