-ast

Orð sem enda á -ast eru yfirleitt miðmynd sagna. Miðmyndarendingin –st (áður -sk) er orðin til úr afturbeygða fornafninu sig (áður sik) og stundum er merking miðmyndarinnar nokkurn veginn sú sama og merking germyndar með afturbeygðu fornafni – klæddist merkir u.þ.b. sama og klæddi sig, festist merkir u.þ.b. sama og festi sig, o.s.frv. Þetta er þó fjarri því að vera algilt. Stundum er merking miðmyndarinnar gagnverkandi – þau kysstust/hittust/börðust o.s.frv. Stundum er merking miðmyndarinnar talsvert önnur en samsvarandi germyndar – þykjast er allt annað en þykja, farast er allt annað en fara. Og stundum er miðmyndin leidd af annarri sagnmynd en nafnhætti – hlotnast er af lýsingarhættinum hlotinn, ekki af hljóta.

Það kemur líka fyrir að aðeins sé til miðmynd en ekki samsvarandi germynd. Þótt við höfum sögnina ferðast er hún ekki leidd af *ferða, enda er sú sögn ekki til, heldur af nafnorðinu ferð. Þetta var sjaldgæft til skamms tíma, en á síðustu árum hefur viðskeytið -ast orðið frjósamt til myndunar sagna af nafnorðum. Eitt elsta og þekktasta dæmið um það er jólast – „hvers virði verða jólin ef maður ekki jólast þessi jól?“ segir í kvæði eftir Rúnar Ármann Arthursson í Stúdentablaðinu 1972. Fáein önnur dæmi eru um þetta orð á tímarit.is, sum innan gæsalappa til að sýna að um óformlegt orð sé að ræða. En orðið er algengt í talmáli og er notað um hvers kyns jólaundirbúning – að fara í búðir, kaupa gjafir, skreyta, baka o.s.frv.

Fjöldamargar sagnir af þessu tagi má finna á netinu og heyra í daglegu tali fólks. Oft er um augnabliksmyndanir að ræða – orð sem verða til við tilteknar aðstæður þegar á þeim þarf að halda, og eru þá skiljanleg út frá aðstæðunum, en eru svo kannski aldrei notuð aftur. Fáeinar slíkra sagna sem ég hef rekist á eru bjórast, facebookast, hamborgarast, hipsterast, kaffast, kaffihúsast, mammast, pabbast, símast, tölvast. Enga þessara sagna er að finna í íslenskum orðabókum og fæstar virðast hafa komist á prent. Þessi orðmyndun er nær algerlega bundin við óformlegt málsnið – talmál, blogg, samfélagsmiðla o.þ.h. Fyrir utan jólast eru það helst mammast, pabbast og tölvast sem eru í einhverri notkun, sýnist mér.

Meðfylgjandi dæmi af netinu sýna að -ast bætist við stofn nafnorða af ýmsu tagi og af ýmsum merkingarsviðum. Merkingarvenslin má reyna að orða þannig að X+ast (þar sem X stendur fyrir nafnorðið sem um er að ræða) merki ‘nota X mikið’, ‘vera niðursokkinn í X’, eða ‘haga sér eins og X’. Í raun má segja að -ast komi í staðinn fyrir þá sögn sem er dæmigerðust með X. Þannig merkir bjórast ‘drekka bjór’, Facebookast merkir ‘hanga á Facebook’, hamborgarast merkir ‘borða hamborgara’, kaffihúsast merkir ‘sitja á kaffihúsi’, símast merkir ‘tala í síma’ o.s.frv. Þegar X er orð um hlutverk eða manngerð er oft ekki um neina dæmigerða sögn að ræða en þá merkir X+ast ‘hegða sér eins og X’eða ‘leika hlutverk X’.

Það virðist vera hægt að mynda -ast-orð af nánast hvaða nafnorði sem er – eina takmörkunin er sú að hægt sé að kenna athöfn, hegðun eða verknað við nafnorðið á einhvern hátt. -ast felur í sér áherslu á þetta í einhverjum skilningi – að maður lifi sig inn í það, stundi það af ákafa eða heilum hug, eða eitthvað slíkt. Ég er alltaf að heyra eða sjá ný orð af þessu tagi – í vikunni heyrði ég t.d. í útvarpinu um tónlistarmann sem væri farinn að plötusnúðast aftur. Það er gaman að velta þessari orðmyndun fyrir sér frá ýmsum sjónarhornum, t.d. í kennslu. Eru einhver takmörk á henni? Hvað gerir hana óformlega? Af hverju er jólast óformlegt mál en ferðast ekki þótt myndunin sé hliðstæð? Gætu þessi orð öðlast formlegan sess í framtíðinni?