Nauðsyn nýrra viðmiða
„Reiðareksmönnum“ eins og mér er iðulega borið það á brýn að telja allt sem fólk segir eða skrifar jafngott og jafngilt. En það er fjarri sanni, og ég fellst fúslega á að það sé gott og gagnlegt – og nauðsynlegt – að hafa einhver viðmið um vandaða, formlega íslensku. Ég held hins vegar að það sé mjög brýnt að breyta þeim viðmiðum sem hafa gilt undanfarna öld og færa í átt til þess máls sem almenningur talar og skrifar – ekki endilega í öllum atriðum, og ekki endilega alla leið. Þetta þarf helst að gerast án þess að fórnað sé hinu órofa samhengi í íslensku ritmáli sem svo oft er vegsamað – með réttu.
Vandinn er bara sá að við höfum hvorki tæki né vettvang til slíkra breytinga. Það hefur enginn lengur þá stöðu sem Björn Guðfinnsson, Halldór Halldórsson, Árni Böðvarsson, Gísli Jónsson og Baldur Jónsson (allt karlmenn, auðvitað) höfðu á síðustu öld. Ég held að það vilji heldur enginn hafa slíka stöðu – eða vilji að einhver einn hafi þá stöðu yfirleitt. Ef einhver ætti að beita sér fyrir endurskoðun viðmiðanna væri það kannski helst Íslensk málnefnd sem hefur m.a. það hlutverk „að veita stjórnvöldum ráðgjöf um málefni íslenskrar tungu á fræðilegum grundvelli“. Samkvæmt þingsályktun sem samþykkt var vorið 2019 ber Íslenskri málnefnd að hafa forystu um endurskoðun íslenskrar málstefnu sem á að ljúka fyrir árslok 2020.
En almenn stefna er eitt, útfærsla hennar annað, og jafnvel þótt einhver hefði boðvald eða kennivald til að endurskoða viðmiðin væri það ýmsum vandkvæðum bundið. Þau eru nefnilega hvergi skráð nema að hluta til – þau felast mestanpart í einhverri tilfinningu sem erfitt er að negla niður, og fæst varla nema með lestri texta þar sem honum er fylgt. Ég vona samt að endurskoðuð málstefna felist ekki bara í almennum orðum sem við gerum öll tekið undir, heldur verði einnig hugað að því að endurskoða viðmið um vandað og viðurkennt íslenskt mál. Fyrsta skrefið er að vekja umræðu og greina stöðuna.