Risamálheildin
Risamálheildin er safn íslenskra texta af ýmsu tagi, aðallega frá síðustu 20 árum. Þar eru textar af öllum helstu fréttamiðlum landsins, dómar, lög, þingræður, efni af Wikipediu og Vísindavefnum, blogg, efni úr héraðsfréttablöðum, íþróttafréttamiðlum og ýmsum sérritum. Textamagnið er gífurlegt – alls er þetta 1,64 milljarður orða sem jafngildir 20-30 þúsund meðalstórum skáldsögum. Athugið að textar frá þessu ári eru ekki enn komnir þarna inn.
Það er hægt að leita í Risamálheildinni á margvíslegan hátt. Hér er t.d. leitað að orðinu stjórnarskrá. Þá fæst bara þessi tiltekna orðmynd, þ.e. nefnifall, þolfall og þágufall eintölu án greinis, en til að fá allar beygingarmyndir þarf að velja „uppflettimynd“ eins og hér hefur verið gert. Svo er líka hægt að velja „Útvíkkuð“, setja inn atkvæð og velja „inniheldur“, velja svo „Bæta við leitarorði“ og skrifa um, og velja aftur „Bæta við leitarorði“, velja „Lemma“ til að fá allar beygingarmyndir, og leyfa „allt að“ eitt orð á milli. Þá fást dæmi eins og þjóðaratkvæðagreiðsla um stjórnarskrána, atkvæðagreiðslu um nýja stjórnarskrá o.m.fl.
Það er líka hægt að leita eftir málfræðilegri greiningu. Hugsum okkur t.d. að við viljum leita að „nýju þolmyndinni“ svokölluðu – það var barið mig, það var hrint mér o.þ.h. Þá getum við byrjað á að setja inn það, valið „Bæta við leitarorði“ og skrifað var, aftur „Bæta við leitarorði“, valið „Sagnháttur“ og síðan „Lýsingarháttur þátíðar“, og enn „Bæta við leitarorði“, valið „Flokkun fornafns“ og „Persónufornafn“, og svo „Bæta við skilyrði (og)“ og „er ekki“ og „nefnifall“. Athugið að „nýja þolmyndin“ er mun fjölbreyttari en þetta – hér er aðeins verið að gefa einfalt dæmi um möguleikana. En þessi leit skilar fjölda dæma – mörg þeirra eiga að vísu ekki við, en þarna eru þó dæmi eins og það var barið mig (af Bleikt.is), það var náð honum (af Fótbolti.net) o.fl.
Risamálheildinni fylgja ítarlegar notkunarleiðbeiningar þar sem sýnd eru ýmis dæmi um fjölbreyttar leitarfyrirspurnir. Það tekur tíma að setja sig inn í það allt, en það er engin þörf á að átta sig á öllum möguleikum strax í byrjun – það getur komið smátt og smátt. Ég er ekki í vafa um að það er hægt að nota Risamálheildina til að sýna nemendum allt mögulegt og láta þá vinna fjölbreytt verkefni um orðtíðni, orðaforða, orðanotkun og margt fleira.