Höfuðlykill

Nýlega var ég að horfa á þátt um Lewis lögregluforingja í Oxford á DR1. Þegar ég horfi á þætti á ensku í danska sjónvarpinu les ég alltaf danska textann til að halda mér við í dönsku – af því líka að mér finnst danska skemmtilegt tungumál. Þarna hafði verið framið morð á hóteli og til að komast inn í tiltekið hótelherbergi þurftu þeir Lewis og Hathaway aðstoðarmaður hans að fá afnot af lykli sem gekk að öllum skrám – „hovednøgle“ stóð í danska textanum.

Þá rifjaðist upp fyrir mér að í fyrsta skipti sem ég komst í kynni við svoleiðis fyrirbæri var á heimavist MA fyrir tæpri hálfri öld. Þar var á þeim tíma tilnefndur hringjari úr hópi vistarbúa sem hafði það hlutverk að ganga um alla vistina snemma morguns með stóra bjöllu og hringja henni sem ákafast til að allir vistarbúar vöknuðu nú örugglega. Hringjaranum var treyst fyrir lykli sem gekk að öllum herbergjum og þess voru einhver dæmi að hann opnaði herbergi hljóðlega, læddist inn og hringdi bjöllunni rétt við höfuð steinsofandi vistarbúa sem hrökk að sjálfsögðu upp með andfælum.

Þetta var nú útúrdúr, en aðalatriðið er það að þetta þarfaþing, lykillinn, var kallað höfuðlykill – orð sem ég sé núna að er sniðið að danska orðinu yfir þetta fyrirbæri. En ef maður flettir höfuðlykill upp á Málið.is kemur það ekki fram í þessari merkingu, heldur eingöngu í íðorðasafninu „Íslensk plöntuheiti“ sem íslenskun á primula capitata. Í Íslenskri orðabók á Snöru er orðið alls ekki að finna, og ég man ekki eftir að hafa heyrt það eða séð í þessari merkingu lengi (í þeim fáu tilvikum sem orðið er notað í seinni tíð er það oftast í merkingunni 'aðallykill' frekar en 'allsherjarlykill').