Mikilvægi yfirlestrar

Mér hefur sýnst að margir þeirra hnökra sem fólk kvartar undan í málfari annarra, t.d. í Málvöndunarþættinum á Facebook, séu í raun ekki málfarslegs eðlis, heldur stafi af fljótfærni og/eða hroðvirkni – fólk les ekki yfir þann texta sem það sendir frá sér. Í persónulegum samskiptum fólks er þetta auðvitað einkamál þeirra sem eiga í hlut, en þegar um er að ræða fjölmiðlafólk og aðra sem hafa atvinnu af tungumálinu getum við lesendur ætlast til þess að fólk vandi sig.

Í því samhengi má rifja upp söguna af vandvirkni Konráðs Gíslasonar (1808-1891) sem var einn af Fjölnismönnum og síðar lengi prófessor í Kaupmannahöfn. Hann þótti ákaflega nákvæmur, svo að ekki sé sagt smámunasamur. Orðabækur hans og útgáfur drógust sífellt á langinn, hann var alltaf að skrifa styrkveitendum sínum og launagreiðendum og óska eftir meira fé, og tilgreina nýjar lokadagsetningar sem aldrei stóðust. Þessi seinvirkni verður skiljanleg ef maður les lýsingu á vinnubrögðum hans í Séð og lifað, ævisögu Indriða Einarssonar systursonar hans:

„Ég kom til hans, þegar hann var að lesa prófarkirnar af Njálu. Hann fékk þrjár prófarkir af hverri örk. Lesmálið sjálft, sem var með stórum, skýrum stíl, las hann þrisvar í hverri próförk. Athugasemdirnar, sem voru með smáum stíl, las hann 10 sinnum í hverri próförk og gerði kross við fyrir hvern lestur. Hann las með þessu móti níu prófarkir á lesmálinu í Njálu, en 30 á athugasemdunum.“

Minna má nú gagn gera, og ég ætlast ekki til að nútímafólk feti í fótspor Konráðs að þessu leyti. En samt – yfirlestur er mikilvægur!