Evrópska meginlandið

Í hádegisfréttum útvarpsins var sagt að von væri á hitabylgju á vesturhluta evrópska meginlandsins. Þetta er auðvitað íslenska og fráleitt væri að kalla þetta rangt mál. En þetta er ekki hefðbundið íslenskt orðalag. Venja er að tala um meginland Evrópu en ekki evrópska meginlandið. Á tímarit.is eru hátt í 15 þúsund dæmi um fyrrnefnda orðalagið, þau elstu frá miðri 19. öld, en aðeins 42 dæmi um það síðarnefnda.

Á ensku er talað um the European continent og trúlegt að það sé (ómeðvituð) fyrirmynd þess að tala um evrópska meginlandið. Ensk áhrif á íslensku koma ekki síst fram á þennan hátt og fólk tekur oft ekki eftir þessu vegna þess að orðin eru íslensk og ekki brotið gegn neinum reglum eða hefðum í beygingum eða setningagerð. Það er bara ekki venja að orða þetta svona á íslensku.

Það væri vissulega ekkert stórslys þótt þetta orðalag ryddi sér til rúms. En almennt séð finnst mér æskilegt að virða íslenska málhefð um þau atriði sem hún nær til. Þarna höfum við orðalag sem löng hefð er fyrir og eðlilegt að nota það áfram.