Að fagna sigri og tryggja sér sigur

Sumarið 1984 sá ég um þáttinn Daglegt mál í útvarpinu um tveggja mánaða skeið. Meðal þess sem ég tók þar fyrir var sambandið tryggja sér sigur. Ég sagði:

„Í staðinn fyrir að segja Akurnesingar unnu leikinn eða mótið er sagt Akurnesingar tryggðu sér sigur; þessi og þessi tryggir sér annað sætið í keppninni í stað þess að ná öðru sætihreppa annað sæti, eða jafnvel hafna í öðru sæti. Þetta orðaval getur vissulega átt rétt á sér, en í flestum tilvikum er það óþarfa málalengingar, og verður leiðigjarnt þegar það er jafnmikið notað og raun ber vitni.

Þar að auki er notkun sagnarinnar tryggja í þessum samböndum stundum nokkuð á skjön við þá merkingu sem gefin er upp í orðabókum. Tryggja einhverjum eitthvað er skýrt svo: 'ganga örugglega frá því að einhver fái eitthvað'. Það er hæpið að mark skorað löngu áður en leik lýkur tryggi liðinu sem skorar sigur, því að alltaf er a.m.k. fræðilegur möguleiki að hitt liðið jafni eða komist yfir. Sigurinn er ekki tryggur fyrr en leiknum er lokið.“

Elstu dæmi sem ég finn um tryggja sér sigur eru rúmlega aldargömul en orðalagið virðist ekki verða algengt fyrr en undir miðja síðustu öld. Í flestum eða öllum eldri dæmunum virðist merking sambandsins falla að orðabókarskilgreiningunni. Þannig segir t.d. í Morgunblaðinu 1953: „Friðrik Ólafsson hefir tryggt sér sigur í landsliðsflokki á norræna skákmeistaramótinu.“ Í fréttinni kemur fram að ein umferð er eftir af mótinu, þannig að ekki er enn eðlilegt að segja að Friðrik hafi sigrað í því – en hann hefur tryggt sér sigurinn.

Sambandið tryggja sér sigur er vissulega oft – og kannski – oftast – notað í þessari merkingu enn, en töluvert er þó um þá notkun sem ég gerði athugasemdir við fyrir hátt í 40 árum. Þannig segir í Morgunblaðinu 2013: „Þessar fjórar þjóðir tryggðu sér sigur í sínum riðlum“ – þótt riðlakeppninni sé lokið og eins hefði verið hægt að segja Þessar fjórar þjóðir sigruðu í sínum riðlum.

Í þessu sambandi má nefna annað svipað samband – fagna sigri. Í síðustu viku heyrði ég í útvarpsfréttum umfjöllun um Íslandsmótið í golfi, þar sem m.a. var sagt frá sigurvegurum síðasta árs. Þar var hvað eftir annað sagt að þessi og þessi hefði fagnað sigri. Nú er ekki ástæða til að efast um að sigurvegararnir hafi fagnað titlum sínum, en þarna var samt augljóslega verið að vísa til sigursins, ekki fagnaðarins.

Þegar dæmi um þetta samband eru skoðuð á tímarit.is er augljóst að lengi framan af er verið að tala um fagnaðinn. En um 1980 er notkun sambandsins til að vísa til sigursins greinilega komin upp, eins og sést á þessu dæmi úr Dagblaðinu frá því ári: „það sýna undarfarnir leikir ótvírætt og einnig leikurinn við ÍR, þótt UMFN tækist ekki að fagna sigri“. Hér er varla vafi á því að fagna sigri merkir einfaldlega 'sigra'. Þessi notkun eykst verulega eftir 1990 ásamt því að fjöldi dæma um sambandið margfaldast.

Það er auðvitað engin ástæða til að amast við orðasamböndunum tryggja sér sigur og fagna sigri. En það er samt rétt að íhuga hvort ekki sé betra að binda notkun þeirra við upphaflega merkingu og nota einfaldlega sögnina sigra þar sem hún á við. En kannski eru það einmitt ákveðin atriði í meðferð þeirrar sagnar sem ýta undir það að margumrædd sambönd séu notuð í hennar stað.