Ég er á sextugnum

Einu sinni var hringt í mig frá „Reykjavík síðdegis“ á Bylgjunni til að ræða um þá íslensku málvenju sem fólk er óánægðast með, að sögn umsjónarmanna þáttarins – sem sé, að fólk milli þrítugs og fertugs er á fertugsaldri o.s.frv. Mörgum finnst að með þessu sé verið að gera fólk eldra en það er og bera þetta saman við t.d. ensku þar sem fólk á þessum aldri er in his/her thirties, eða dönsku þar sem fólk er i trediverne. Orðið fertugsaldur gæti í sjálfu sér alveg eins merkt ‚milli fertugs og fimmtugs‘ – það er ekkert „rökréttara“ að á fertugsaldri merki ‚áratuginn á undan fertugu‘ frekar en ‚áratuginn á eftir fertugu‘. Það er bara málvenja að það hafi fyrrnefndu merkinguna.

Þó er tvítugsaldur sér á báti. Það mætti ætla að með því væri átt við annan áratuginn í lífi fólks, frá 10-20 ára aldurs, en fáum dytti í hug að segja að 10-12 ára barn væri á tvítugsaldri. Orðabókum ber reyndar ekki alveg saman um merkingu orðsins – í Íslenskri orðabók er hún sögð ‚aldur manns sem er kominn nálægt tvítugu (t.d. frá 16–18 ára aldri)‘ en í Íslenskri nútímamálsorðabók segir ‚aldurinn kringum tvítugt‘. Ég hef á tilfinningunni að við myndum síður nota á tvítugsaldri um fólk sem við vitum að er orðið tvítugt. Hins vegar get ég sagt hann/hún er á tvítugsaldri um fólk sem ég veit ekki nákvæman aldur á, án þess að telja endilega að það sé innan við tvítugt.

Það eru líka eitthvað skiptar skoðanir um það hvenær fólk færist af einum áratug á annan. Stundum er því haldið fram að fólk komist ekki á fimmtugsaldur fyrr en það verður fjörutíu og eins árs – fólk sem er á fertugasta og fyrsta ári standi á fertugu. Ég hef aldrei séð nein rök fyrir þessu og hallast helst að því að það sé uppfinning fólks sem vill fresta því í lengstu lög að viðurkenna að það sé komið á nýjan áratug. En hvað sem því líður er ljóst að þessi séríslenska málvenja, að miða við efri tuginn, er þyrnir í augum margra, og ég hef jafnvel séð hugmyndir um að það þyrfti að breyta merkingu umræddra orða.

En það er meira en að segja það að breyta málvenju af þessu tagi. Ef við hugsuðum okkur að þetta breyttist – annaðhvort vegna meðvitaðrar ákvörðunar einhverra málfarsyfirvalda (hver svo sem þau ættu að vera) eða smátt og smátt í málsamfélaginu – þannig að á fertugsaldri færi að merkja aldurinn milli fertugs og fimmtugs, þá gæti það vissulega gengið þegar breytingin væri afstaðin. En meðan breytingin væri að ganga yfir (og það gæti tekið langan tíma) yrði þetta endalaus ruglingur – við myndum aldrei vita hvort verið væri að nota orðin í „gömlu“ eða „nýju“ merkingunni.

Eina leiðin út úr þessu væri því að taka upp ný orð sem kæmu í stað þeirra sem við notum nú. Ég hef séð tillögur um að nýta spilaheiti í þetta og segja t.d. ég er á fjarkanum í stað ég er á fimmtugsaldri. En annar möguleiki væri að búa til nafnorð úr lýsingarorðunum tvítugur, þrítugur o.s.frv. – segja ég er á tvítugnum / þrítugnum o.s.frv. Það væri reyndar ekki hægt að nota áttræður, níræður og tíræður á þann hátt heldur yrði að segja á átttugnum / nítugnum / títugnum. Samkvæmt þessu væri ég núna á (miðjum) sextugnum í stað þess að vera á sjötugsaldri eða hálfsjötugur – ég gæti alveg fellt mig við það. Hvað segið þið?