Þetta er rangt af því að það hefur verið kennt að það sé rangt

Hér á heimasíðu minni og á Facebook hef ég iðulega haldið fram skoðunum sem ganga í berhögg við það sem talið hefur verið „rétt mál“. Þannig hef ég sagt að brauðrist megi alveg heita ristavél, það sé í góðu lagi að fara erlendis, spá í einhverju og auglýsa nýslátrað lambakjöt, segja mér langar, og ég veit ekki hvað og hvað. Ég tel mig hafa fært góð rök fyrir þessum skoðunum og stend við þær, en auðvitað getur fólk haft aðra sýn á málin – fundist rök mín léttvæg eða villandi, eða talið mig draga rangar ályktanir af þeim. Ég geri ekki athugasemd við það.

Í umfjöllun um þessi atriði hef ég hins vegar litið fram hjá einni röksemd sem mætti beita gegn mér og þeim tilbrigðum sem ég vil samþykkja. Ég hef svo sem hvergi séð þá röksemd orðaða beint, en held að hún sé mjög oft undirliggjandi hjá þeim sem amast við málbreytingum. Hana mætti orða svona:

Þetta er rangt af því að það hefur verið kennt svo lengi að það sé rangt.

Í fljótu bragði gæti þetta kannski virst léttvæg röksemd – eða rökleysa, eftir því hvernig við lítum á málið. Vitanlega réttlætir það ekki vitleysu að hún hafi lengi verið höfð fyrir satt. Ef það sannast að maður sem hefur verið dæmdur fyrir glæp og setið lengi í fangelsi er saklaus er hann ekki látinn sitja áfram inni – með þeim rökum að hann hafi setið svo lengi inni að ástæðulaust sé að sleppa honum þótt sakleysi hans sé sannað.

En þetta er annars eðlis. Það má vel halda því fram að mikilvægt sé að festa ríki í málsamfélaginu og ekki sé hringlað með viðmið. Ef búið er að kenna áratugum saman að eitthvað sé rangt – þrátt fyrir að það sé eðlilegt málfar fjölda málnotenda – geti skapast óreiða og lausung í málinu ef það er allt í einu viðurkennt sem rétt mál. Þetta valdi vandræðum í kennslu og ýti undir þá hugmynd að það sé alveg sama hvernig fólk tali og skrifi.

Þetta er sjónarmið mjög margra og ég tek það alvarlega og ber virðingu fyrir því. En ég held að það sé rangt. Ég held þvert á móti að einstrengingslegt bann við tilbrigðum sem verulegur hluti – jafnvel meirihluti – málnotenda elst upp við og notar í daglegu lífi sé miklu frekar til þess fallið að skapa óvissu og óreiðu í málnotkun en viðurkenning þessara tilbrigða.

Það er hins vegar annað sem þarf að hafa í huga ef viðmiðum er breytt og farið að viðurkenna eitthvað sem áður hefur verið talið rangt. Við erum nefnilega föst í því, mörg hver (ég ekki undanskilinn), að dæma fólk eftir málfari – eftir því hversu vel það fylgir þeim viðmiðum sem hafa verið notuð um rétt og rangt. Þótt þeim viðmiðum væri breytt leiðir það ekki sjálfkrafa og umsvifalaust til breytingar á viðhorfi okkar til tilbrigðanna – og fólksins sem notar þau.

Við þurfum að þora að breyta stefnunni – viðurkenna tilbrigði sem eiga sér langa sögu og eru útbreidd í málinu. Það er engin uppgjöf. En við þurfum ekki síður að hætta að dæma fólk eftir málfari, hvað þá að tengja málfar við andlegt eða líkamlegt atgervi fólks. Mismunun eftir málfari er engu betri en mismunun eftir kynferði, trú, stjórnmálaskoðunum, kynhneigð o.s.frv.