Að sigra leikinn

Í Málfarsbankanum segir: „Talað er um að sigra andstæðing og sigra í leik en ekki „sigra leik“. Hins vegar er talað um að vinna leik.“ Ástæðan fyrir því að það er tekið sérstaklega fram að ekki eigi að tala um að sigra leik er auðvitað sú að það tíðkast í málinu – annars væri ástæðulaust að vara við því. Okkur hefur samt verið kennt hvernig þetta eigi að vera – eða reynt að kenna, þótt deila megi um árangurinn. En þótt þarna sé mælt með því að segja sigra í leik virðist sambandið sigra í einhverjuleik / keppni / baráttu / orustu / kosningum o.s.frv. – ekki vera ýkja gamalt.

Ég finn engin dæmi um þessi sambönd í fornu máli, og raunar er elsta dæmið sem ég hef rekist á í Nýjum félagsritum 1872, þar sem segir: „en það er einnig ánægjulegt að vita, að Íslendíngar eru farnir að vinna sigur á stundum, og að heyra, hversu heppilega tókst að sigra í þessari orustu.“ Elsta dæmi um sigra í kosningum er frá 1901, það elsta um sigra í leik frá 1927, og um sigra í keppni frá 1934. Elstu dæmi um að sigra taki andlag í þessari merkingu eru ekki mikið yngri. Það elsta um sigra kosningar er frá 1919, um sigra keppni frá 1945, og sigra leik frá 1946.

Þegar leitað er að þessum samböndum á tímarit.is kemur í ljóst að talsvert er um sigra X þótt dæmin um sigra í X séu vissulega margfalt fleiri. Þannig er hlutfallið milli sigra leikinn og sigra í leiknum u.þ.b. 1:8, milli sigra keppnina og sigra í keppninni rúmlega 1:7, og milli sigra kosningarnar og sigra í kosningunum 1:16. Alls eru um 600 dæmi um sigra með þessum þremur andlögum. Það er athyglisvert vegna þess að textar á tímarit.is eru yfirleitt prófarkalesnir, og þar eð þessi sambönd hafa verið talin rangt mál hefði mátt búast við að þeim hefði verið breytt.

Allt önnur mynd blasir við þegar þessi sambönd eru skoðuð í Risamálheildinni, sem hefur að geyma 1,64 milljarða orða úr fjölbreyttum textum, flestum frá síðustu áratugum. Þar eru 786 dæmi um sigra leikinn en 247 um sigra í leiknum, 500 um sigra keppnina en 697 um sigra í keppninni, og 119 um sigra kosningarnar en 467 um sigra í kosningunum. Samtals eru því nánast nákvæmlega jafnmörg dæmi um þessi sambönd með andlagi (1405) og með forsetningarlið (1411). Munurinn á kosningum og hinum tveimur andlögunum er athyglisverður og sýnir að notkun sigra með andlagi er langalgengust í íþróttamáli.

Þótt ekki sé viðurkennt að tala um að sigra leik tekur sögnin sigra andlag þegar rætt er um að sigra andstæðing og er nánast samheiti við sögnina vinna, sem tekur andlag hvort sem rætt er um að vinna andstæðing eða vinna leik eins og fram kemur í tilvitnuninni í Málfarsbankann hér að framan. Vegna þessara líkinda sagnanna er auðvitað ekkert undarlegt að fólk hafi tilhneigingu til að yfirfæra hegðun vinna á sigra og nota andlag með sigra í þessum samböndum. En er einhver ástæða til að amast við því?

Eins og áður segir koma sambönd eins og sigra í X ekki fyrir í fornu máli og eru í raun litlu eldri en sigra X og sá aldursmunur dugir varla til að útskúfa þeim síðarnefndu – það var ekki komin löng hefð á sigra í X þegar sigra X kom upp. Það er líka ljóst af dæmafjöldanum af tímarit.is og sérstaklega úr Risamálheildinni að notkun sambandanna sigra X er mjög útbreidd. Rétt er að hafa í huga að hlutfall dæma um afbrigði sem talin eru röng er nánast örugglega mun lægra í prentuðum textum en í daglegu máli.

Það er sem sé enginn vafi á því að sigra leikinn er málvenja verulegs hluta málnotenda. Miðað við hina viðurkenndu skilgreiningu á réttu máli og röngu, „rétt mál er það sem er í samræmi við málvenju, rangt er það sem brýtur í bága við málvenju“, er þetta án nokkurs vafa rétt mál. Mér er ómögulegt að sjá rökin fyrir því að bæði vinna andstæðinginn og vinna leikinn sé gott og gilt, en aðeins sigra andstæðinginn, ekki sigra leikinn.

Einu rökin sem hægt væri að færa fram gegn sigra leikinn eru þau sem ég hef stundum vísað til: „Þetta er rangt af því að það hefur verið kennt svo lengi að það sé rangt.“ Ég sé samt ekki að það sé í þágu málræktar að berja hausnum við steininn með þetta og held því fram að sigra leikinn sé ótvírætt rétt íslenska.