Ristavél

Um fátt í tungumálinu skapast hatrammari deilur en um orðin brauðrist og ristavél. Síðast þegar þau orð bar á góma í Málvöndunarþættinum á Facebook voru skrifaðar hvorki fleiri né færri en 265 athugasemdir við færsluna, og hægt er að finna fjölmarga umræðuþræði um þetta mál á netinu. Mörgum sem nota brauðrist finnst ristavél ljótt og kjánalegt orð, sem tilheyri barnamáli og talmáli en eigi ekkert erindi inn í formlegt mál fullorðins fólks. Þeim sem nota ristavél finnst það orð aftur á móti fullkomlega eðlilegt.

Oft er það notað sem rök gegn ristavél að í tækinu sé engin vél í merkingunni 'tæki, oft samsett úr mörgum hlutum, olíu- eða rafknúið, til að vinna ákveðið verk' (mótor). En vitanlega innihalda heiti á fjölmörgum tækjum þennan orðhluta án þess að í þeim sé nokkur vél í þessari merkingu. Sem dæmi má nefna eldavél, myndavél, ritvél, rakvél, kaffivél, múgavél; leitarvél, bókunarvél, þýðingarvél; o.s.frv. Vissulega eru oft einhvers konar „vélar“ í sumum þessara tækja núorðið, s.s. rakvélum og ritvélum, en þannig var það ekki þegar orðin voru búin til.

Orðið ristavél er hliðstætt eldavél, myndavél, saumavél og fleiri orðum þar sem líta má svo á að fyrri hlutinn sé nafnháttur sagnar. Vissulega kemur oft einnig til greina að fyrri liðurinn sé eignarfall fleirtölu, en sá möguleiki er ekki alltaf fyrir hendi, t.d. í hakkavél. Eðlilegt er að líta svo á að þessi orð séu mynduð á sama hátt – hakkavél er 'tæki (vél) til að hakka með', ristavél er 'tæki til að rista með'. Það getur vel verið að orðið sé upprunnið í máli barna en börn eru býsna glúrin í orðmyndun og það er varla hægt að nota orðmyndunarleg rök til að hafna ristavél.

Einnig er til afbrigðið ristabrauðsvél sem er mun sjaldgæfara en ristavél, aðeins eitt dæmi í Risamálheildinni, þótt elsta dæmi um orðið á tímarit.is sé jafngamalt. Ef til vill hefur þessi mynd einkum verið notuð á Austurlandi, a.m.k. ef draga má einhverjar ályktanir af gamansögu í Degi 1985 þar sem segir frá Akureyringi sem réð sig á austfirskan netabát og þótti heldur fákunnandi um verklag og orðfæri á sjó. Einu sinni ætlaði hann að rista sér brauðsneið en fann ekki þartilgert tæki og spurði „Strákar, hvar er brauðristin? Þá gall við mikill hlátur og einn segir á milli hláturshviðanna: Hann kallar ristabrauðsvélina brauðrist“.

En hvaða orð eigum við þá að nota um þetta fyrirbæri? Við getum litið bæði til aldurs og uppruna. Elsta dæmi um brauðrist á tímarit.is er frá 1915. Þetta er tökuorð úr dönsku – þar heitir fyrirbærið brødrist eða brødrister, þótt enska tökuorðið toaster sé reyndar oft notað í staðinn. Aftur á móti er elsta dæmið um ristavél á tímarit.is frá 1983, og ekkert bendir til annars en orðið sé íslensk smíð. Aldurinn mælir því með brauðrist, en ef við viljum taka íslenskar nýmyndanir fram yfir tökuorð ættum við frekar að velja ristavél. Myndin ristabrauðsvél er of sjaldgæf til að koma til álita.

Mér dettur samt ekki í hug að leggja til að brauðrist sé hafnað – orðið hefur auðvitað fyrir löngu unnið sér hefð í málinu og ég nota það alltaf sjálfur. Ef ristavél væri að koma upp núna myndi ég sennilega leggjast gegn orðinu með þeim rökum að fyrirbærið sem það ætti að tákna hefði þegar íslenskt heiti. En í ljósi þess að orðið kom upp fyrir meira en aldarþriðjungi, er útbreitt, er íslensk nýmyndun og brýtur engar orðmyndunarreglur er engin ástæða til að hafna því – það er ekkert að því að sama fyrirbærið eigi sér fleiri en eitt heiti.