Hafnaður, náður og lagður

Í Málvöndunarþættinum á Facebook vakti Steinunn Rut Friðriksdóttir nýlega athygli á setningunni „Mín hræðsla við höfnun hvarf fyrir yfir 9 árum þegar ég var hafnaður af stelpu.“ Steinunn sagði: „Þetta finnst mér ég sjá sífellt oftar, þ.e. að fólk forðast þágufallsmyndina (mér var hafnað) og notar í stað þess nefnifall (ég var hafnaður).“

Þetta minnti mig á þýðingu á heiti kvikmyndarinnar Gotcha! sem var sýnd í Reykjavík fyrir hálfum fjórða áratug. Íslenski titillinn var Náður og hljómaði undarlega í mínum eyrum og greinilega margra fleiri. Þjóðviljinn sagði í umfjöllun um þessa mynd 1985: „þessi lýsingarháttur er allajafna ekki til af sögninni að ná, en vesturbæingur á blaðinu upplýsir að þetta hafi verið notað í „fallinni spýtu" og svipuðum leikjum þar í sveit að fornu“.

Þessi lýsingarháttur var samt ekki nýr á þessum tíma. Í Þjóðviljanum 1902 segir: „Sökudólgur var ónáður, er síðast fréttist“, og í blaðinu Reykjavík 1909 segir „Þjófurinn sem stal konungskrönzunum úr Hróarskeldu dómkirkju náður“. Athyglisvert dæmi er í Tímanum 1936: „allir vinir þeirra óska þess, að næsti áfanginn að gullbrúðkaupinu megi verða þeim svo farsæll og giftudrjúgur eins og sá, sem nú er náður“.

En lýsingarhátturinn náður hefur líklega verið algengastur í leikjum eins og áður er vikið að. Í lýsingu á fangaleik í Lögbergi 1916 segir: „Ekki þarf annað en geta snert þann sem maður eltir og sagt „náður“, þá verður hann að stöðvast“. Þetta er tekið fyrir í málvöndunargrein í Vísi 1936: „Eg bæti hér við, út götumáli barnanna: „Þú ert náður.“ Slíkt orðskrípi hefi eg aldrei heyrt til sveita, hvorki fyrr né síðar. Þar er sagt: Það er búið að ná þér (þér hefir verið náð o. s. frv.).“

Ég nefndi hér í gær að í dæmum eins og Ég var boðinn í mat, Dyrnar voru lokaðar o.s.frv. væri ekki um þolmynd að ræða – setningarnar lýstu ástandi, ekki verknaði, öfugt við Mér var boðið í mat, Dyrunum var lokað. Ég held að það megi líta eins á nefnifallið með náður. Þú ert náður er ekki þolmynd, vísar ekki til verknaðarins að ná einhverjum, heldur til þess að nú er hann kominn í tiltekið ástand – er náður. Fólk getur auðvitað haft mismunandi skoðanir á þessum dæmum en þau eiga sér skýrar fyrirmyndir í notkun annarra sagna.

Þetta minnti mig líka á umdeilda fyrirsögn á frétt á RÚV í fyrra: „Illa lagðir bílar töfðu slökkvilið í útkalli.“ Margir bentu á að sögnin leggja stjórnar þágufalli í þessari merkingu og því gengi nefnifall ekki. En það er útilokað að segja Illa lögðum bílum töfðu slökkvilið í útkalli. Við leit á netinu finnast nokkur hliðstæð dæmi frá síðustu árum, og til er hópur á Facebook sem heitir Illa lagðir bílar. Kannski er sögnin leggja að bætast í hóp áðurnefndra sagna þannig að illa lagðir bílar vísi til ástands eða stöðu bílanna en sé ekki þolmynd.

En hvað þá með dæmið sem nefnt var í upphafi – er hafna líka að bætast í þennan hóp? Það má a.m.k. finna nokkur dæmi á netinu sem benda til þess. Mér fannst einna athyglisverðust skrá á vef Samgöngustofu um höfnuð einkamerki. En það sem er sérkennilegast við áðurnefnt dæmi er að því fylgir af-liður sem er einkennismerki þolmyndar; hafnaður af stelpu. Hér er því um þolmynd að ræða og setningin lýsir verknaði, ekki ástandi. Annað svipað dæmi fann ég í Morgunblaðinu 2014: „Og svo var indæl stúlka að tala um afturgöngur á dögunum og tók sem dæmi Miklabæjar-Sólveigu sem var höfnuð af presti“ skrifar hneykslaður lesandi.

Í slíkum setningum er nefnifallið nýjung að því er ég best fæ séð, og á sér ekki fordæmi hjá öðrum sögnum. En hvað er að gerast þarna? „Er þetta hluti af nýju þolmyndinni? Eða afleiðingar ofvöndunar í ljósi eilífðarbaráttu gegn þágufallshneigð?“ spurði Steinunn. Ég held að þetta sé hvorugt þótt mig gruni að á bak við þetta geti e.t.v. leynst einhver skyldleiki við „nýju þolmyndina“. En það er of snúið til að fara út í á þessum vettvangi.