Var mér boðið eða ég boðinn?

Oft er rætt um fallnotkun í þolmyndarsetningum með sögninni bjóða – hvort eigi að segja t.d. mér var boðið í mat eða ég var boðin(n) í mat. Gísli Jónsson tók þetta nokkrum sinnum fyrir í þáttum sínum um íslenskt mál í Morgunblaðinu og lagði áherslu á að það ætti að segja mér var boðið í mat. Ekki kæmi til greina að segja ég var boðinn í mat „því þá hefði boðið kannski verið þegið og væri ég þá ekki lengur til frásagnar um eitt eða neitt.“ En málið er ekki alveg svona einfalt.

Sögnin bjóða stýrir þolfalli í samböndum eins og Ég bauð bílinn til sölu, og iðulega tekur hún bæði þágufalls- og þolfallsandlag – Ég bauð henni matinn. Þegar setningum með þolfallsandlagi er snúið í þolmynd verður andlagið að nefnifallsfrumlagi – Bíllinn var boðinn til sölu. Það mætti því í fljótu bragði ætla að Ég var boðinn í mat væri þolmynd af (Einhver) bauð mig í mat – þar sem ég væri maturinn. Það er sú merking sem Gísli vísar til – þótt ég sé reyndar nokkuð viss um að enginn hefur notað sambandið í þeirri merkingu.

Sögnin stýrir hins vegar þágufalli í þeirri merkingu sem hér er um að ræða – Einhver bauð mér í mat. Þegar setningum með sögnum sem stýra þágufalli er snúið í þolmynd helst þágufallið þótt það færist í frumlagssæti; við segjum Mér var hjálpað en ekki *Ég var hjálpaður. Mér var boðið í mat er því sú þolmynd sem við mætti búast af (Einhver) bauð mér í mat. En í sumum tilvikum fær lýsingarhátturinn setningarlegt hlutverk lýsingarorðs og þá helst þágufallið ekki, enda er þá ekki um þolmynd að ræða. Ég var boðinn í mat er þess háttar setning.

Munurinn sést t.d. vel með sögninni loka sem einnig stjórnar þágufalli. Við getum sagt bæði Dyrunum var lokað og Dyrnar voru lokaðar. Í fyrra dæminu er um þolmynd að ræða – sú setning lýsir verknaði. Í seinna dæminu hefur lokaðar stöðu lýsingarorðs og þar er ekki verið að lýsa verknaði heldur ástandi. Við getum sagt Dyrunum var lokað á nefið á mér en ekki *Dyrnar voru lokaðar á nefið á mér vegna þess að þetta er verknaður. Hins vegar segjum við Dyrnar voru lokaðar allan daginn en ekki *Dyrunum var lokað allan daginn, því að þar er um ástand að ræða. Að vísu væri hægt að segja dyrunum var lokað aftur og aftur allan daginn en þá er vísað til (endurtekinnar) athafnar.

Hliðstætt er þetta með boðinn. Mér var boðið í mat er þolmynd og segir frá verknaði, en Ég var boðinn í mat er ekki þolmynd, heldur er boðinn þar lýsingarorð sem segir frá ástandi; merkir eiginlega 'það stendur þannig á hjá mér að ég er boðinn í mat'. Þetta sést greinilega á því að við getum sagt Áðan var mér boðið í mat um næstu helgi en tæpast *Áðan var ég boðinn í mat um næstu helgi. Atviksorðið áðan sýnir að vísað er til verknaðar en ekki ástands. Eina leiðin til að seinni setningin gæti staðist væri sú að matarboðið hefði verið afturkallað í millitíðinni.

Það er engin nýlunda að lýsingarhátturinn boðinn fái stöðu lýsingarorðs. Í Bárðar sögu Snæfellsáss segir „Sá þurs var þangað boðinn er Kolbjörn hét“ og í Harðar sögu og Hólmverja segir „Kollur frá Lundi var boðinn til brúðkaupsins einnhver virðingamestur“. Nefnifallið kemur sem sé fyrir þegar í fornu máli. Ég sé ekki á hvaða forsendum ætti að fordæma það.