Mistök voru gerð
Ég sá áðan færslu frá blaðamanni sem vitnaði í setninguna „Mistök voru gerð“ í yfirlýsingu eigenda Ásmundarsalar og sagði: „Mér finnst að við blaða- og fréttamenn ættum að gera með okkur samkomulag að losa okkur við þolmyndina og koma germyndinni í tísku í fréttaflutningi!“
Ég tek undir þetta. Þarna er verið að misbeita tungumálinu og sannarlega ekki í fyrsta skipti – nota þolmynd til að draga athygli frá gerendunum, þeim sem ábyrgð bera á mistökunum. Mistök gera sig ekki sjálf og engin ástæða til að láta gerendurna komast upp með að skýla sér á bak við andlitslausa þolmynd.
Með þessu er ég ekki að taka afstöðu til þessa tiltekna atviks – hvort eigendurnir gerðu mistök eða hvers eðlis þau voru. Þessi ábending hefur almennt gildi því að sams konar misbeiting málsins til að draga úr ábyrgð gerenda og afvegaleiða þar með lesendur eða áheyrendur, meðvitað eða ómeðvitað, er mjög algeng.
Ég skrifaði í fyrra pistil sem heitir „Germynd er fyrir gerendur“ og ágætt að rifja hann upp.