úð
Orð sem enda á -úð eru allnokkur til í málinu – sum gömul, eins og ástúð og harðúð, en önnur mynduð á 20. öld, eins og samúð og andúð. Eins og kemur fram í Íslenskri orðsifjabók er orðhlutinn -úð kominn af -hugð við það að g fellur brott og u lengist í staðinn (uppbótarlenging). Þessi breyting er bundin við áherslulaus atkvæði og verður ekki í orðinu hugð þegar það stendur eitt og sér eða er fyrri hluti samsetninga, svo sem hugðarefni. En þegar ég var að skoða þetta rakst ég á skemmtileg skoðanaskipti sem þetta varða, rúmlega hundrað ára gömul.
Árið 1915 hafði Sigurður Nordal skrifað: „Mér finst sjálfsagt að málið taki orð eins og stemning, sem særir ekki nokkurt íslenzkt eyra, er komið á allra varir og aldrei verður þýtt, svo að gagni sé.“ En um þetta var ekki almenn sátt, og sumarið 1918 lagði höfundur sem skrifaði undir nafninu Viðfinnur – og mun vera dr. Björn Bjarnason frá Viðfirði – það til í grein í Morgunblaðinu að í staðinn fyrir stemning væri notað orðið úð. Þá mætti tala um kvöldúð, náttúð eða næturúð, árúð eða morgunúð, dagúð, og einnig fjallúð, sævarúð o.s.frv.
En Björn lagði líka til að orðið úð yrði notað eitt og sér, og sem fyrri liður samsetninga eins og úðfagur, úðmikill o.fl. Þetta leist höfundi sem skrifaði undir stöfunum AJ – sennilega dr. Alexander Jóhannesson, síðar prófessor – ekki á, og sagði í dagblaðinu Fréttum: „En Viðfinni skjátlast, er hann vill nota úð í upphafi orðs: lögmál íslenzkrar tungu heimtar hugð, og væri því ef til vill ekki úr vegi að nota hugð fyrir stemning?“ Hann taldi það vel koma til greina, en samræmis vegna væri þá rétt að nota myndina -hugð einnig í seinni lið orða, og tala um kvöldhugð, nátthugð o.s.frv.
Björn sat við sinn keip og svaraði í Fréttum: „orðið úð er í fullu samræmi við íslenzkt tungutak og hljómeðli málsins; það er þess eiginn afspringur; liggur jafnvel léttara á tungu en móðir þess hugð; og því síður kemur það í bága við beygingareðli málsins. Það er ramm-íslenzkt að hljómi og hneiging.“ Hann benti á ýmis dæmi um að seinni liður samsetningar væri gerður að sjálfstæðu orði, og vakti einnig athygli á því að Einar Benediktsson hefði notað orðið úð sjálfstætt í kvæði – „og djúp var hans úð“. Alexander svaraði aftur og taldi dæmi Björns léttvæg, og benti á að Einar Benediktsson væri „ekki óskeikull í íslenzkri tungu“ og finna mætti „fjölda mállýta í kvæðum hans“.
Þar með lauk þessum skoðanaskiptum og tillögur Björns um að nota úð og samsetningar af því í merkingunni 'stemning' virðast ekki hafa fengið mikinn hljómgrunn. Halldór Laxness notaði þó morgunúð og kvöldúð í Kvæðakveri og Pétur Gunnarsson notar síðarnefnda orðið í Punktur punktur komma strik, auk þess sem það hefur verið notað sem þýðing á heiti lagsins „Abendempfindung“ eftir Mozart. Ólafur Jóhann Sigurðsson notar svo næturúð í Seiður og hélog. En mætti ekki alveg endurvekja þessar tillögur? Rök Alexanders gegn þeim eru ekki þungvæg og orðin eru lipur og fara vel í málinu.