Honum sagðist vera létt
Ég sá á netinu umræðu um setninguna „Honum sagðist vera létt eftir að hafa birt myndirnar sjálfur“ sem stóð í DV í dag. Það voru skiptar skoðanir um hvort þessi setning stæðist – mörgum fannst frekar eiga að vera hann sagði að sér væri létt eða hann sagði sér vera létt. Það sem er óvenjulegt við þessa setningu er að frumlag sagnarinnar segjast, honum, stendur í þágufalli þótt sögnin taki venjulega nefnifallsfrumlag – hann sagðist vera leiður, hún sagðist vera glöð o.s.frv.
Það er augljóst að þágufallið er komið frá sambandinu vera létt sem segjast tekur með sér. Við segjum mér er létt, honum er létt o.s.frv. Það er svo sem ekki einsdæmi að nafnháttarsögn ráði fallinu á frumlagi aðalsagnar á þennan hátt. Sagnir eins og virðast og sýnast haga sér svipað – þær ráða ekki fallinu á frumlagi sínu, heldur kemur það frá sögninni sem þær taka með sér. Við segjum hún virtist vera glöð, hana virtist vanta peninga, henni virtist vera kalt, hennar virtist vera þörf – vegna þess að við segjum hún er glöð, hana vantar peninga, henni er kalt, hennar er þörf.
Munurinn á virðast og segjast er hins vegar sá að þegar virðast tekur nafnháttarsögn næst á eftir sér ræður sú sögn alltaf falli frumlagsins, en segjast hefur venjulega sjálfstætt nefnifallsfrumlag. Þess vegna finnst okkur eðlilegt að segja honum virtist vera létt en skrítið að segja honum sagðist vera létt – í seinna tilvikinu söknum við nefnifallsfrumlagsins. En þótt slíkar setningar séu sjaldgæfar eru þær ekki einsdæmi. Í fornu máli koma fyrir nokkur dæmi hliðstæð því sem vitnað var til í upphafi.
Þar er að vísu notuð sögnin kveðast sem þá var margfalt algengari en segjast. Í Sturlungu segir t.d. „Árna kvaðst það illt þykja“ og „Hrafni Oddssyni kvaðst það vel líka“, og í Reykdæla sögu segir „Honum kvaðst illa hug um segja“. En í fornu máli eru líka dæmi þar sem kveðast fær að hafa sitt nefnifallsfrumlag en nafnháttarsögnina sem á eftir kemur vantar þá þágufall – „Þórður kvaðst þykja tvennir kostir til“ og „Hrafn kvaðst sýnast að haldinn væri“ segir í Sturlungu, og „Þorgils kvaðst leiðast þarvistin“ segir í Flóamanna sögu.
Hér eru sem sé tveir kostir og báðir vondir. Annar er sá að leyfa segjast / kveðast að hafa sitt nefnifallsfrumlag í friði og segja hann sagðist vera létt. En þá sér þágufallsins sem nafnháttarsögnin sem kemur á eftir tekur venjulega með sér engan stað, og það truflar okkur. Hinn kosturinn er að leyfa nafnháttarsögninni að taka völdin af segjast / kveðast og ráða falli frumlagsins og segja honum sagðist vera létt, en þá truflar það okkur að frumlagið skuli ekki vera í nefnifalli.
En þótt dæmi séu um hvort tveggja í fornu máli þýðir það ekki endilega að þetta séu heppilegar setningagerðir. Sem betur fer eru nefnilega til tveir aðrir kostir, eins og nefnt er hér að framan – að nota germyndina segja í stað miðmyndarinnar segjast og annaðhvort leyfa nafnháttarsögninni að halda frumlagi sínu, hann sagði sér vera létt, eða nota skýringarsetningu í staðinn, hann sagði að sér væri létt. Ég held að það sé rétt að mæla frekar með þessum kostum en hinum tveimur.