„Málvilla“ dagsins
Um þessar mundir set ég daglega pistil undir fyrirsögninni „Málvilla“ dagsins inn í hópinn Málspjall á Facebook. Flesta þessara pistla hef ég birt áður en margir hafa verið endurbættir nokkuð. Að auki set ég fremst í hvern pistil dæmi um viðfangsefnið, á forminu Sagt var og Rétt væri. Þetta er form sem er tekið úr ábendingum sem komu út í kverinu Gætum tungunnar árið 1984 og birtust einnig í dagblöðum. Ég hef oftar en einu sinni lýst því yfir að þessi aðferð við „málfarsráðgjöf“ sé eitur í mínum beinum og því má þykja undarlegt að ég noti hana þarna.
En það verður ekki litið fram hjá því að til er óopinber íslenskur málstaðall – reglur um það hvað teljist „rétt“ mál og hvað „rangt“, „gott“ og „vont“, „vandað“ og „óvandað“, „æskilegt“ og „óæskilegt“. Ég er vissulega ósáttur við ýmislegt í þessum staðli og tel mjög brýnt að taka hann til endurskoðunar og breyta honum – viðurkenna ýmis tilbrigði sem hafa verið í málinu áratugum saman og fjöldi fólks tileinkar sér á máltökuskeiði. Ég er sannfærður um að það væri til þess fallið að efla og styrkja íslenskuna en ekki öfugt. En þetta er ekki á mínu valdi.
Ég held samt að það sé nauðsynlegt að hafa einhvern staðal, og þrátt fyrir að ég sé á margan hátt ósáttur við staðalinn eins og hann er tel ég mikilvægt að fólk eigi þess kost að kynna sér hann – og tileinka sér hann ef það vill. Það eru ýmsar aðstæður þar sem það getur skipt máli að þekkja þennan staðal – og fara eftir honum. Þess vegna nota ég þessa aðferð. Fólk sem er að leita að upplýsingum um hvað er talið „rétt“ og hvað „rangt“ þarf þá ekki að lesa nema þessar tvær línur í hverjum pistli.
Vilji fólk hins vegar fá skýringu á því hvers vegna annað afbrigðið hefur verið talið rétt og hitt rangt getur það lesið áfram, það sem fer á eftir undirfyrirsögninni Eða hvað? En þar á það á hættu að finna ekki bara útskýringu á hefðbundnu mati á tilbrigðunum, heldur rekast líka á annað sjónarmið – rök fyrir því að þetta sé kannski ekki eins og venjulega hefur verið haldið fram, og kannski væri eðlilegt að viðurkenna líka það sem „sagt var“ sem rétt mál. Ég legg samt áherslu á að vitanlega þýðir það ekki að hitt afbrigðið yrði talið rangt.
Með þessu móti tel ég mig koma til móts við ýmsa hópa. Meginmarkmið mitt er að fræða fólk og ýta undir málefnalega umræðu um fjölbreytni og tilbrigði tungumálsins, en ekki að boða einhverja stefnu eða skoðun, hvað þá að fá fólk til að breyta máli sínu. Hins vegar hika ég ekkert við að hafa skoðun á ýmsum málfarsatriðum og setja þá skoðun fram, en mér er slétt sama hvort mér tekst að sannfæra annað fólk eða ekki. Ég vonast hins vegar til þess að mér takist að auka skilning fólks á tilbrigðum í máli og umburðarlyndi fyrir þeim.
Það er nefnilega ekki þannig að eitt þurfi alltaf að vera rétt en annað rangt – einn framburður, ein beyging, ein setningagerð, ein merking. Ég held að sá hugsunarháttur sé stórskaðlegur fyrir tungumálið, ýti undir málótta og málfarslega stéttaskiptingu sem hvort tveggja er til þess fallið að veikja íslenskuna, draga úr mótstöðuafli hennar gegn ytri áhrifum. Það er allt í lagi að fólk noti íslenskuna á svolítið mismunandi hátt. Málið sér sjálft um að hafa taumhald á tilbrigðunum þannig að það verði ekki ónothæft sem samskiptatæki.
Tilbrigði eru í góðu lagi. Íslenska er alls konar – og á að vera það.