Hvað er málvenja?
Ég hef oft verið spurður eitthvað sem svo: „Ef nógu margt fólk tekur upp einhverja vitleysu, verður hún þá rétt?“ Ég hef alltaf svarað slíkum spurningum játandi – þannig er það einmitt sem tungumálið virkar. En ég veit vel að slíkt svar hugnast ekki öllum – mörgum finnst að það sem er rétt hljóti að halda áfram að vera rétt þótt stór hluti málnotenda sé farinn að tala öðruvísi. Ágætur málvöndunarmaður sagði einu sinni að engum dytti í hug „að miða söngkennslu við það hvernig lélegasti söngvarinn syngur lagið. Þjóðlagið breytist ekki neitt þó að einstaka maður syngi falskt. Það heldur áfram að vera sama lagið.“
En tungumálið er annars eðlis – það er samkomulagsatriði málnotenda. Ef nógu margt fólk er farið að nota eitthvert orð, orðasamband, merkingu, beygingu eða framburð á þann hátt að málumhverfi þess (ekki endilega allt málsamfélagið) samþykki þessa notkun, þá er hún orðin rétt. Ágætt dæmi um þetta er orðið vetfang. Í Málfarsbankann segir: „Athuga að rugla ekki saman orðunum vetfang og vettvangur. Þetta gerðist í einu vetfangi. Málið hefur verið rætt á þessum vettvangi.“ En í Íslenskri orðsifjabók stendur „vetfang h. (17. öld) ‘andrá, svipan’; ummyndun úr vettvangur“.
Ég er alveg sammála Málfarsbankanum – í mínu máli eru vetfang og vettvangur tvö skýrt aðgreind orð með mismunandi merkingu, og mér finnst æskilegt að halda því þannig. En það þýðir ekki að ég efist um upprunaskýringu Íslenskrar orðsifjabókar, að vetfang sé ummyndun úr vettvangur – ef þetta væri að gerast í nútímamáli væri kannski frekar talað um „afbökun“ eða „orðskrípi“. Þegar þessi ummyndun var að verða hefur þetta auðvitað verið „rangt mál“ til að byrja með. En fólk hélt áfram að nota þessa „málvillu“, og á endanum hætti hún að vera „villa“ og varð viðurkennt mál. Þannig verða málbreytingar og þannig hafa þær alltaf orðið.
Hins vegar má auðvitað velta því fyrir sér hvenær tiltekin nýjung sé orðin málvenja, og þar með „rétt mál“ samkvæmt viðurkenndri skilgreiningu. Augljóslega er hún viðurkennd ef allt málsamfélagið er búið að taka hana upp, eins og með vetfang, en varla þarf það til – tæpast dettur nokkrum í hug að halda því fram að það sé rangt að bera fram á og au í orðum eins og langur og þröngur, þótt sá framburður sé óumdeilanlega „nýjung“ og enn sé til fólk sem ber fram a og ö í slíkum orðum. Það er útilokað að koma með skilgreiningu á málvenju sem almenn sátt verði um, en hér er mín tilraun:
Ef tiltekin nýjung hefur komið upp fyrir 20 árum eða meira, er farin að sjást í rituðu máli, nokkur fjöldi fólks hefur hana í máli sínu, og börn sem tileinka sér hana á máltökuskeiði halda henni á fullorðinsárum, finnst mér mál til komið að viðurkenna hana sem málvenju og þar með „rétt mál“. Það þarf ekki endilega að þýða að hún sé talin æskileg í hvaða málsniði sem er, en það þýðir að hún er ekki fordæmd og fólk sem hefur hana í máli sínu er ekki litið hornauga eða hneykslast á því.