ske, máske - og kannski
Atviksorðin máske/máski og kannske/kannski eru tökuorð úr dönsku, komin inn í málið á 16.-17. öld. Samkvæmt tímarit.is var máske miklu algengara lengi framan af – það var ekki fyrr en um 1930 sem kannske varð algengara. Um svipað leyti fara myndir með -i, máski og kannski, líka að verða áberandi, en fram undir það var nánast alltaf ritað máske og kannske. Dæmum um máske/máski hefur smátt og smátt farið fækkandi síðan um miðja síðustu öld, sérstaklega á síðustu 30 árum, og orðið virðist vera að hverfa úr málinu. Rithátturinn máske hefur alltaf verið algengari en máski þótt mjög hafi dregið saman með þessum myndum undanfarna áratugi, og máske er eini rithátturinn sem er gefinn upp í Íslenskri stafsetningarorðabók.
Tíðni kannske/kannski hefur aftur á móti aukist stöðugt undanfarna áratugi, og nú er það hátt í 200 sinnum algengara en máske á tímarit.is. Rithátturinn kannski varð algengari en kannske á sjöunda áratug síðustu aldar og síðan hefur stöðugt dregið í sundur – nú er kannski u.þ.b. 100 sinnum algengara en kannske, og fyrrnefnda myndin er sú eina sem er gefin upp í Íslenskri stafsetningarorðabók. Og svo er það sögnin ske sem kom inn í málið á 16. öld og lengi hefur verið amast við – er „útlendur slæðingur og vart rithæf“ segir í Íslenskri málfræði Björns Guðfinnssonar eins og mörgum mun í minni. Áratuga barátta gegn henni virðist þó ekki hafa borið mikinn árangur lengi vel, en eftir síðust aldamót hrapar hún í tíðni og virðist vera á leið úr málinu – eins og máske.
Sögin ske hefur aldrei verið rituð *ski og kannski er það e-ið í endann sem veldur því að ske og máske eru á útleið – það veldur því að orðin hafa ekki íslenskan svip yfir sér. Aftur á móti kann kannski að hafa tryggt sér framhaldslíf með því að rithátturinn með -i varð ofan á. Hugsanlega er þetta dæmi um að tilfinning okkar fyrir því hvernig íslensk orð eigi að vera sé í fullu fjöri.