Íslenska í stjórnarsáttmála

Ég var að skoða stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar. Hér er ekki vettvangur til að segja skoðun á honum í heild en ég staldraði við það sem ég fann um íslensku, íslenskt táknmál og máltækni:

  • Íslensk tunga er dýrmæt auðlind og á stóran þátt í að skapa sterkt samfélag. Íslenskan er tenging okkar við sögu okkar og menningu og mikilvægt að huga enn betur að íslenskukennslu. Við ætlum að styðja við tunguna með því að leggja áherslu á að íslenskan sé skapandi og frjór hluti af umhverfi okkar. Sérstök áhersla verður lögð á að börn og ungmenni nýti tungumálið í leik og námi með auknu framboði af nýju námsefni á íslensku og með því að hlúa að barnamenningu.
  • Huga þarf að eflingu íslenskukennslu fyrir alla kennaranema í takt við breyttar aðstæður í samfélaginu.
  • Þá verður áfram unnið að því að styrkja stöðu íslenskunnar í stafrænum heimi með áherslu á máltækni.
  • Efla þarf íslenskukennslu fyrir kennaranema og auka símenntun í takt við breyttar aðstæður.
  • Ráðist verður í átak til að stuðla að fjölbreyttri nýsköpun í námsgagnagerð og auknu framboði af nýju námsefni, ekki síst á íslensku, fyrir öll skólastig.
  • Mörkuð verður stefna um íslenskt táknmál með sérstakri áherslu á málumhverfi táknmálstalandi barna og námsefni á leik- og grunnskólastigi.
  • Markáætlun um samfélagslegar áskoranir á sviði máltækni, umhverfismála og sjálfbærni, tæknibreytinga á vinnumarkaði og heilbrigðisvísinda verður framhaldið allt kjörtímabilið.
  • Áfram verður markvisst unnið að því að íslenska verði gjaldgeng í stafrænum heimi.

Það er ástæða til að fagna þessum áformum. Nú er bara að vona að við þetta verði staðið.