Áhrifslausar forsetningar
Forsetningin frá stjórnar alltaf þágufalli og forsetningarnar til og milli stjórna alltaf eignarfalli. Eða næstum alltaf. Undantekning er þegar þessar forsetningar eru notaðar í samböndum sem tákna afstöðu tveggja stærða eða upphæða hvorrar til annarrar. Nokkur dæmi af tímarit.is: „aðgerðin myndi taka allt frá tvo upp í átta tíma“, „ímynda sér að þeir væru að borða frá þrjá og upp í 30 gómsæta M&M-súkkulaðimola“, „Refirnir framleiða að meðaltali þrjá til fjóra hvolpa á ári, oturinn frá fjóra til sex hvolpa á ári“, „væri hægt að spara milli tvo og þrjá milljarða á ári í heilbrigðisþjónustunni“, „Með stofnun félagsins innleysir FL Group milli þrjá og fjóra milljarða í hagnað“, „hann féll milli fjóra og fimm metra niður af klettasyllu“, „maður kom alltaf með einn til tvo kassa af bjór með sér úr túrum“, „Á hverju fagsviði verður samið við tvo til þrjá aðila“.
Þarna koma fyrir samböndin frá tvo til, frá þrjá til, frá fjóra til; milli tvo og, milli þrjá og, milli fjóra og; X til tvo, X til þrjá, X til fjóra. Það eru bara tölurnar einn, tveir, þrír og fjórir sem beygjast þannig að ástæðulaust er að skoða hærri tölur. Ég vel eingöngu dæmi með karlkyni vegna þess að þar er hægt að sjá fallið ótvírætt – í kvenkyni og hvorugkyni eru nefnifall og þolfall eins (tvær/tvö, þrjár/þrjú, fjórar/fjögur), og í sama gildir um karlkyn tölunnar einn. Í öllum þessum dæmum er hins vegar ótvírætt um þolfall að ræða vegna þess að engin tvö föll hafa sömu mynd í karlkyni talnanna tveir, þrír og fjórir. Í fljótu bragði virðist því sem forsetningarnar frá, milli og til stjórni þolfalli í slíkum dæmum þótt þær stjórni þágufalli og eignarfalli annars.
En málið er ekki svo einfalt. Það er nefnilega hægt að finna fjölda dæma um að þessar forsetningar virðist stjórna þágufalli í sambærilegum dæmum – ekki bara frá, heldur líka milli og til. „24 sakborningar voru ákærðir fyrir brot gegn fleiri börnum (frá tveimur til sex)“, „við getum tekið við allt frá tveimur til tólf gestum í heimsókn í einu“, „munar sennilega milli tveimur til þremur metrum“, „Má ætla að Sambandið hafi tapað á milli tveimur og þremur milljörðum króna“, „Guðjón sem leikstýrir milli tveimur og fjórum sýningum á ári“, „meðal annars varið milli þremur og fjórum þúsundum króna til þess að endurbæta íþróttavöllinn“, „Á milli þremur og fjórum milljörðum króna var lýst í bú hans“, „þá var lagt upp með að hún væri í tveimur til fjórum senum“.
Ef að er gáð kemur í ljós að á undan sambandinu kemur alltaf sögn eða forsetning sem stýrir þágufalli: brot gegn tveimur börnum, tekið við tveimur gestum, munar tveimur til þremur metrum, tapaði tveimur milljörðum, leikstýrir tveimur sýningum, varið þremur þúsundum, lýsti þremur milljörðum, í tveimur til fjórum senum. Í dæmum með frá gæti þágufallið vissulega verið komið þaðan frekar en frá sögn eða forsetningu þar á undan, en í dæmum með milli og til hlýtur þágufallið að vera komið frá viðkomandi sögn eða forsetningu. Eina skýringin á þessu er sú að forsetningarnar frá, milli og til stjórni í raun alls ekki falli í þessum samböndum heldur hleypi fallstjórn undanfarandi sagnar eða forsetningar í gegnum sig, ef svo má segja. Á eftir frá, milli og til kemur þess vegna þolfall ef sögnin eða forsetningin á undan stýrir þolfalli, þágufall ef hún stýrir þágufalli.
Hér verður þó að hafa fyrirvara. Það er nefnilega stundum hægt að láta forsetningarnar stýra sínum „eðlilegu“ föllum í þessum samböndum, í dæmum eins og „Húsin höfðu frá tveimur til fjögra palla“ (í stað tvo til fjóra palla), „munu þær hafa tekið frá þremur til fjögurra marka“ (í stað þrjár til fjórar merkur), „er fjöldi þeirra nú á milli tveggja og þriggja milljóna á ári“ (í stað tvær og þrjár milljónir) o.fl. Ég hef ekki skoðað við hvaða aðstæður bæði afbrigðin ganga, eða hvort annað afbrigðið er skyldubundið við tilteknar aðstæður. Einnig verður að benda á að þetta er bundið við að um tölur sé að ræða. Í öðrum tilvikum stjórna forsetningarnar venjulegum föllum: frá hausti til vors, frá Reykjavík til Akureyrar, milli fjalls og fjöru, milli Hellu og Hvolsvallar o.s.frv.