1980

Frá því að þessi hópur var stofnaður fyrir hálfu öðru ári hef ég skrifað hér hátt á fjórða hundrað pistla. Í verulegum hluta þeirra, a.m.k. 250, hef ég verið að fjalla um notkun og þróun tiltekinna orða, orðasambanda og setningagerða. Meginheimild mín hefur langoftast verið fjársjóðskistan tímarit.is, þótt Risamálheildin hafi einnig nýst vel til að skoða allra síðustu ár.

Auðvitað er tímarit.is ekki fullkomin heimild – þetta er ritað mál og við vitum að flestar nýjungar koma upp í talmáli og vel getur liðið langur tími uns þær fara að sjást á prenti, sérstaklega ef um óformlegt mál af einhverju tagi er að ræða, ekki síst slettur og einhvers konar bannorð. Samt sem áður er þetta langbesta heimildin sem við höfum um þróun málsins undanfarna áratugi – og raunar tvær síðustu aldir.

En ég er sem sagt búinn að skoða uppruna og þróun margvíslegra nýjunga og málbreytinga á tímarit.is – leita að elstu dæmum, skoða tíðniþróun o.fl. Vissulega er þetta stundum frekar yfirborðsleg athugun og ef ég væri að skrifa grein til birtingar í fræðiriti hefði ég orðið að leggja mun meiri vinnu í rannsóknina. Samt sem áður held ég að þessar athuganir gefi oftast sæmilega góða mynd af því sem til skoðunar er hverju sinni.

Það rann allt í einu upp fyrir mér að furðu margar nýjungar í orðanotkun og setningagerð virðast koma upp eða breiðast út um og upp úr 1980. Ég fór lauslega gegnum pistlana og ártölin kringum 1980 koma mjög oft upp. Hugsanleg skýring er sú að breytingar hafi orðið á fjölmiðlum um það leyti þannig að nýjungar í máli eða óformlegra mál hafi átt greiðari leið á prent. Fólk sem þekkti til á fjölmiðlum á þessum tíma gæti kannski sagt eitthvað um þetta.

En önnur skýring er sú að breytingatímabil í sögu málsins hafi hafist fyrir u.þ.b. 40 árum. Auðvitað þurfa þessar tvær skýringar ekki að vera ósamrýmanlegar og í raun finnst mér líklegast að þær eigi báðar við að einhverju marki – upp úr 1980 fór þjóðfélagið smátt og smátt að opnast og slakna á formlegheitum og það gæti hafa komið fram bæði í almennri málnotkun og í því að fjölmiðlar yrðu opnari fyrir óformlegra máli.

Í þessu sambandi er rétt að hafa í huga að yfir 60% þjóðarinnar eru yngri en 45 ára. Það fólk hefur því alist upp við þær breytingar sem hafa orðið á málinu eftir 1980 og a.m.k. sumt af því hefur tileinkað sér a.m.k. sumar breytinganna á máltökuskeiði. Jafnframt er rétt að athuga að yfir 60% félaga í þessum hópi eru yfir 45 ára aldri og höfðu því tileinkað sér málið að einhverju eða öllu leyti fyrir 1980. Því er ekki að undra að stundum komi upp ósamræmi milli málkenndar félaga í hópnum og þess máls sem nú tíðkast.

Það er ekkert undarlegt að við sem eldri erum kippumst stundum við, verðum pirruð og hneyksluð þegar við heyrum ný orð eða setningagerðir, eða orð og orðasambönd notuð í annarri merkingu en við erum vön. En þá er rétt að hafa í huga að í mörgum tilvikum hefur yngri hluti þjóðarinnar, jafnvel allt að 60% hennar, alist upp við þessi orð, orðasambönd og setningagerðir, og þessa notkun þeirra, og þekkir jafnvel ekki annað. Erum við þess umkomin að segja að málnotkun þessa stóra hóps sé röng?

Ég held ekki. En jafnvel þótt við viljum berja höfðinu við steininn og berjast gegn breytingunum yrði það í flestum tilvikum barátta við vindmyllur að reyna að breyta málnotkun sem nokkrar kynslóðir fólks hafa alist upp við. Höldum áfram að nota málið eins og við lærðum það, en sýnum málnotkun annarra umburðarlyndi þótt hún sé öðruvísi en okkar. Þannig vinnum við íslenskunni mest gagn.