Enska í íslensku málsamfélagi - ákall um stefnu
Ég ímynda mér að einhverjum kunni að þykja vera þversagnir í því sem ég hef skrifað hér undanfarið um íslensku og útlendinga. Annars vegar hef ég hvatt til umburðarlyndis gagnvart „ófullkominni“ íslensku og predikað þolinmæði í garð þeirra sem eru að læra málið, en hins vegar hef ég gagnrýnt að ráðuneyti auglýsti starf þar sem ekki var krafist íslenskukunnáttu. Ég get skilið að fólki finnist ósamræmi í þessu, en í síðarnefnda tilvikinu byggðist gagnrýnin reyndar á því að ég taldi að auglýsingin samræmdist ekki lögum – ekki á því að ég teldi óhæfu að ráða starfsfólk án íslenskukunnáttu.
En þetta er samt mál sem ég er í miklum vandræðum með og á erfitt með að mynda mér skoðun á. Ég get alveg fallist á að kröfur um kunnáttu í tungumáli sem aðeins 370 þúsund manns í öllum heiminum tala geti verið óraunhæfar í tæknivæddu alþjóðlegu umhverfi, komið í veg fyrir að við getum ráðið hæfasta fólkið til starfa og skert samkeppnishæfni landsins. Auk þess má alveg halda því fram að mismunun á grundvelli tungumáls sé eða geti verið ómálefnaleg og ósanngjörn, og hugsanlega andstæð stjórnarskrá eins og ráðherra nefndi í blaði í dag.
Á hinn bóginn verður að líta til þess að íslenskan er í stöðugri varnarbaráttu. Ef við gerum engar kröfur um íslenskukunnáttu í neinum störfum verður íslenskan óhjákvæmilega alltaf undir vegna þess að enskan verður vinnumál að meira eða minna leyti á öllum vinnustöðum þar sem eitthvert starfsfólk kann ekki íslensku. Til lengri tíma er hætta á að það myndi veikja íslenskuna til mikilla muna, skerða umdæmi hennar og jafnvel leiða til þess að hún yrði fyrst og fremst notuð í einföldum samskiptum og inni á heimilum.
Við þurfum að finna leið sem tekur tillit til fólks sem ekki á íslensku að móðurmáli og hefur oft litla sem enga kunnáttu í málinu – leið sem gerir því kleift að bjarga sér í samfélaginu og sinna ýmsum störfum, án þess að íslenskan verði ævinlega víkjandi. Það er ekki einfalt mál að halda íslenskunni á lofti, halda því til streitu að hún sé nothæf og notuð á öllum sviðum, en jafnframt gæta þess að íslenskukunnátta og -færni sé aldrei notuð til að mismuna fólki. Ég kann engar töfralausn á þessu, en þó má benda á eitt og annað sem væri hægt að gera.
Í fyrsta lagi er rétt að athuga að það er mikill munur á því að kunna íslensku til hlítar og kunna enga íslensku. Í mörgum tilvikum er nóg að ætlast til þess að fólk skilji málið sæmilega og geti bjargað sér í hversdagslegum samræðum. Í öðru lagi er hægt að leggja áherslu á starfsbundinn orðaforða – t.d. að starfsfólk í verslunum og veitingahúsum læri þann grundvallarorðaforða sem þarf til að eiga einföld samskipti við viðskiptavini. Í þriðja lagi er hægt að gefa aðlögunartíma – ráða fólk tímabundið í störf án íslenskukunnáttu með því skilyrði að það sýni fram á nægilega kunnáttu í málinu að tilteknum tíma liðnum.
Þetta leysir auðvitað ekki öll mál. En það er ekki gott ef farið er á svig við lög í þessu efni vegna þess að það býður þeirri hættu heim að enskan gangi á lagið, ef svo má segja. Það er miklu betra að draga úr kröfum um íslenskukunnáttu, ef það er talið rétt eða nauðsynlegt, og hafa þá lög og reglur sem hægt er að standa við. En það þolir enga bið að taka stöðu ensku í íslensku málsamfélagi til umræðu og móta um hana stefnu.