Að ávarpa vandamálið
Sögnin ávarpa er gömul í málinu, a.m.k. frá 17. öld, í tveimur náskyldum merkingum eins og fram kemur í Íslenskri nútímamálsorðabók. Annars vegar merkir hún 'segja e-ð (við e-n), tala til (e-s)' en hins vegar 'halda stutta ræðu, flytja ávarp (yfir e-m)'. Á seinustu árum hefur þriðja merkingin svo bæst við, sú sem fram kemur í setningum eins og „Á þessum dögum finnst mér að staðan sé einfaldlega allt, allt önnur heldur en hún var áður en ég byrjaði að ávarpa vanda flokksins“ á Eyjunni 2013, „Femínískar hreyfingar sem vilja standa undir nafni verða að ávarpa málefni ólíkra hópa kvenna og setja þau á dagskrá“ í Vísi 2014 og „Við erum fyrst og síðast að ávarpa nýjar leiðir“ í ræðu á Alþingi sama ár.
Þarna er nokkuð augljóst að sögnin er notuð í einni þeirra merkinga sem address hefur í ensku, „to give attention to or deal with a matter or problem“ eða „beina athygli að viðfangsefni eða vandamáli eða glíma við það“. Önnur skýring er „If you address a problem or task or if you address yourself to it, you try to understand it or deal with it“, þ.e., „reynir að skilja það eða glíma við það.“ Þessi notkun sagnarinnar virðist reyndar ekki vera mjög gömul í ensku. Hún er ekki nefnd í minni gömlu menntaskólabiblíu, Oxford Advanced Learner's Dictionary of Current English frá 1963 (né í útgáfunni frá 1974), og í Ensk-íslenskri orðabók með alfræðilegu ívafi frá 1984 er aðeins nefnt „address oneself to a task“ sem skýrt er 'snúa sér að, taka til við'.
En aðalmerkingar sagnarinnar address í ensku eru þær sömu og ávarpa í íslensku og það hefur leitt til þess að þessi – að því er virðist nýlegi – merkingarauki ensku sagnarinnar er farinn að hafa áhrif á þá íslensku. Þessi þróun virðist hafa hafist fyrir u.þ.b. tíu árum – elstu dæmin sem ég hef rekist á eru þau þrjú sem nefnd eru í upphafi, frá 2013 og 2014. En notkun sagnarinnar í þessari merkingu hefur farið sívaxandi og er nú áberandi, ekki síst í tali stjórnmálafólks. Í Risamálheildinni eru fimm dæmi um þessa notkun sagnarinnar ávarpa í ræðum á Alþingi frá 2019, þar á meðal „ekki gafst tími til að ávarpa það sérstaklega í áætluninni“ og „Við verðum að ávarpa það“.
En að auki eru þrjú forvitnileg dæmi þar sem Risamálheildinni og texta ræðnanna á vef Alþingis ber ekki saman. Þetta eru „Þetta ávarpar með einhverjum hætti þær spurningar sem hv. þingmaður bar hér fram“ í Risamálheildinni sem verður „Þetta kemur með einhverjum hætti inn á þær spurningar sem hv. þingmaður bar hér fram“ á vef Alþingis; „Friðlýsingar eru ávarpaðar sérstaklega í ríkisstjórnarsáttmálanum“ sem verður „Friðlýsingar eru skoðaðar sérstaklega í ríkisstjórnarsáttmálanum“ og „við töldum rétt að ávarpa framtíðarsýnina með ákveðnum hætti í stjórnarsáttmálanum“ sem verður „við töldum rétt að nálgast framtíðarsýnina með ákveðnum hætti í stjórnarsáttmálanum“.
Skýringin á þessu ósamræmi er sú að Risamálheildin byggist á upphaflegri gerð ræðnanna, því sem raunverulega var sagt, en textinn á vef Alþingis er yfirlesinn og oft breyttur. Í þessum tilvikum hefur einhverjum, annaðhvort yfirlesurum Alþingis eða þingmönnunum sjálfum, greinilega ekki fundist við hæfi að nota ávarpa í þessari merkingu við nánari íhugun og því breytt textanum og sett önnur orð í staðinn. Þarna er ávarpa skipt út fyrir þrjár mismunandi sagnir: koma inn á, skoða og nálgast. Í Hugtakasafni þýðingamiðstöðvar utanríkisráðuneytisins er svo fjórða þýðingin – fjalla um. Þessi fjölbreytni skýrir í sjálfu sé að ávarpa skuli fá viðbótarmerkingu að láni úr ensku – það er engin íslensk sögn til sem nær yfir viðkomandi merkingu ensku sagnarinnar.
Hvað á þá að gera – hvernig eigum við að orða þessa merkingu á íslensku? Það er auðvitað hægt að segja að við þurfum ekkert á sérstakri sögn að halda til þess – við höfum komist af án þess í þúsund ár þótt við höfum allan tímann reynt að greina vandamál og viðfangsefni, ræða þau, skilja þau, ráðast til atlögu við þau, glíma við þau, taka þau til umræðu o.s.frv. Það er líka hægt að benda á að það er misskilningur að þótt enska hafi ákveðið orð yfir eitthvert hugtak þurfi íslenska endilega að hafa orð sem samsvarar því nákvæmlega. Það sé enginn vandi að orða þessa hugsun á fjölbreyttan hátt, mismunandi eftir aðstæðum. Það er mikið til í þessu, en þrátt fyrir þann fjölda orða og orðasambanda sem tiltæk eru sýnist mér ekkert þeirra ná viðkomandi merkingu alveg.
Ég er ekki hrifinn af því að nota sögnina ávarpa á þennan hátt, og geri það ekki sjálfur þótt ég geti ekki fullyrt að ég muni aldrei gera það í framtíðinni. Ég mæli með því að við leitumst við að orða viðkomandi merkingu á annan hátt. En mér finnst samt ekki trúlegt að þessari þróun verði snúið við, og það er vitanlega algengt að merking orða breytist eða þau bæti við sig merkingu fyrir erlend áhrif. Þetta er enginn heimsendir.