Orðanotkun sýnir afstöðu og mótar skoðanir

Í útvarpsfréttunum áðan heyrði ég gott dæmi um það hvernig afstaða er tekin með orðanotkun. Sagt var frá ótta Evrópuríkja um að Rússar hygðust draga úr gassölu til Evrópu í hefndarskyni fyrir refsiaðgerðir sem þeir eru beittir vegna stríðsins í Úkraínu. Í báðum tilvikum er auðvitað verið að refsa hinum aðilanum – eða hefna sín á honum – fyrir aðgerðir hans. En sögnin refsa vekur þau hughrif að um sé að ræða réttmæta aðgerð, makleg málagjöld – hefna aftur á móti að á bak við búi hefndarhugur sem ekki eigi endilega rétt á sér. Það er ljóst að hefna er margfalt neikvæðara orð en refsa.

Vissulega má halda því fram að þetta sé ekki sambærilegt vegna þess að Rússar hafi brotið alþjóðalög með innrásinni og því eðlilegt að tala um viðbrögð við henni sem refsingu. En þessi viðbrögð voru einhliða ákvörðun viðkomandi ríkja, ekki ákveðin með einhverjum dómi. Þar að auki hefur lengi tíðkast að tala um refsiaðgerðir þegar reynt er að þvinga eitthvert ríki til að breyta háttum sínum, óháð því hvort það sem um er að ræða er brot á alþjóðalögum eða ekki. Nærtækt er að minna á refsiaðgerðir gegn Suður-Afríku á seinni hluta síðustu aldar vegna kynþáttaaðskilnaðar, og refsiaðgerðir gegn Íran á síðustu árum vegna auðgunar úrans.

Nú er fjarri mér að vilja bera í bætifláka fyrir Rússa og hina óréttlætanlegu innrás í Úkraínu, en ég fæ ekki betur séð en aðgerðir Rússa gagnvart Evrópuríkjum séu af nákvæmlega sama toga og aðgerðir Evrópuríkja gagnvart þeim. Við kjósum hins vegar að nota miklu neikvæðara orð um aðgerðir Rússa en um aðgerðir Evrópuríkja. Við það er í sjálfu sér ekkert að athuga – þetta endurspeglar væntanlega afstöðu flestra Íslendinga. En það er mikilvægt að skoða málnotkun í fréttum á gagnrýninn hátt til að sjá hvernig hægt er að móta skoðanir okkar með tilbrigðum í orðanotkun án þess að við gerum okkur grein fyrir því.