Að undirbúa sig undir eftirspurn eftir einhverju
Í Facebook-hópnum Málspjall voru í gær til umræðu orðasambönd þar sem sama myndanið er bæði fyrri hluti samsetningar og sjálfstætt orð (atviksorð eða forsetning) sem fylgir samsetningunni. Samsetta orðið getur bæði verið sögn, eins og undirbúa sig undir eitthvað, og nafnorð, eins og undirbúningur undir eitthvað og eftirspurn eftir einhverju. Sumum finnst fara illa á slíkum tvítekningum og Gísli Jónsson amaðist t.d. ótal sinnum við þeim í þáttum sínum í Morgunblaðinu – kallaði þær „Fróðársel“ með vísun til þess „að í Fróðárundrum, sem lýst er í Eyrbyggju, lyftist selshausinn fyrst í stað þeim mun ofar sem hann var oftar barinn niður“. Gísla var sérstaklega í nöp við sambandið eftirspurn eftir og vildi þess í stað tala um spurn eftir.
Ekki var þetta þó skoðun allra. Í einum þætti sínum birti Gísli bréf frá Veturliða Óskarssyni málfræðingi sem taldi Gísla stundum ganga fulllangt í þessari baráttu og benti á ýmis dæmi þar sem ekki er hægt að komast hjá tvítekningu með því að sleppa fyrri lið samsetningarinnar því að þá kemur annaðhvort út önnur merking eða merkingarleysa. Þannig er t.d. með samböndin yfirlit yfir eitthvað og aðgangur að einhverju – ekki er hægt að segja *lit yfir eitthvað eða *gangur að einhverju. Veturliði benti á að „spurn í merkingunni 'eftirspurn' er varla til í mæltu máli“. Gísli tók þessu vel og kvaðst viðurkenna „að hafa gengið út á ystu þremi með því að andæfa „aðgangur að“, „eftirspurn eftir“ og „tilefni til“. Hann hélt þó áfram að hrósa fréttafólki fyrir notkun síðarnefnda orðalagsins.
En það var ekki bara í mæltu máli sem spurn eftir var varla til. Áður en Gísli fór að tala um þetta virðist sambandið tæpast hafa verið til í ritmáli heldur – á tímarit.is er fjöldi dæma um spurn eftir u.þ.b. 0,2% af fjölda dæma um eftirspurn eftir fram til 1990. Það má því í raun halda því fram að spurn eftir einhverju hafi verið rangt mál a.m.k. fram á tíunda áratug síðustu aldar. Í Risamálheildinni sem hefur að geyma texta frá síðustu 20 árum er hlutfall dæma um spurn eftir hins vegar 6,6%. Hlutfallið í Morgunblaðinu (að meðtöldu mbl.is) er þó nokkru hærra, eða 10,5%, sem bendir til þess að áhrifa Gísla gæti helst þar. Það er ljóst að nokkur fjöldi fólks hefur tileinkað sér sambandið spurn eftir í riti, en ég er samt nokkuð viss um að þetta er lítið sem ekkert notað í talmáli.
Fleiri dæmi má nefna um að hæpið sé að sleppa fyrri lið samsetningarinnar. Arftaki Gísla Jónssonar í þættinum „Íslenskt mál“ í Morgunblaðinu, sonur hans Hjörtur Gíslason, amaðist einu sinni við sambandinu ummerki um og sagði: „Þegar forsetningin um hefur orðið að forskeyti í orðinu ummerki er óþarfi að láta hana fylgja með.“ En annar málvöndunarmaður, Jón Aðalsteinn Jónsson orðabókarritstjóri andmælti þessu og sagði „ekkert athugavert við að segja ummerki um íkveikju“. Það er hægt að tala um merki um yfirvofandi eldsumbrot en ekki *ummerki um yfirvofandi eldsumbrot því að merki getur merkt 'vísbendingar um eitthvað sem gæti gerst' en ummerki eru 'vísbendingar um eitthvað sem hefur gerst'.
Þetta eru dæmi um sambönd með samsettum nafnorð, en öðru máli gegnir um sambönd með sögnum. Þau eru reyndar margfalt færri enda samsettar sagnir ekki ýkja margar í málinu. Þannig er t.d. bæði *eftirspyrja eitthvað/einhverju og *eftirspyrja eftir einhverju alveg fráleitt. En þegar samsett sögn er til á annað borð er miklu frekar hægt að sleppa fyrri lið hennar en samsvarandi nafnorðs. Þótt útilokað sé að segja *búningur undir í stað undirbúningur undir er vel hægt að segja búa sig undir í stað undirbúa sig undir – merkingin er sú sama. Í því tilviki má vel halda því fram að betur fari á að forðast tvítekninguna, en dæmi um undirbúa undir á tímarit.is eru samt a.m.k. vel á þriðja þúsund, þau elstu frá 1856.
Niðurstaðan er sú að útilokað er að setja öll dæmi af þessu tagi undir sama hatt. Ég held reyndar að það sé undantekning frekar en regla að hægt sé að sleppa fyrri lið samsetta orðsins í nafnorðssamböndum af þessu tagi og halda sömu merkingu. Um þetta er best að halda sig við málvenju og búa ekki til sambönd sem engin hefð er fyrir, jafnvel þótt þau kunni að virðast „rökrétt“. Eins og ég hef margsinnis sagt fer því fjarri að tungumálið sé alltaf „rökrétt“ – eða eigi að vera það.