Smáatriðin skipta líka máli

Í gær setti ég inn í hópinn Málspjall mynd af skilti sem hefur verið komið upp við íþróttamiðstöð Garðabæjar. Þar stóð með stórum stöfum „NO DRIVING“ og fyrir neðan með margfalt minni stöfum „ALLUR AKSTUR BANNAÐUR“. Ég sagði að þetta væri „bæjaryfirvöldum í Garðabæ til háborinnar skammar“. Bæjarstjóri Garðabæjar kom fljótlega inn í þráðinn og sagði: „Að sjálfsögðu munum við lagfæra þetta og setja íslensku í öndvegi, þar sem hún á heima.“ Þessi skjótu viðbrögð eru að sjálfsögðu hrósverð, og ég treysti því að við þetta loforð verði staðið og nýtt skilti sett upp hið fyrsta.

En auðvitað á ekki að þurfa að vekja athygli á slíkum tilvikum vegna þess að þau ættu ekki að koma upp. Hvernig í ósköpunum stendur á því að skilti af þessu tagi er sett upp á vegum íslensks sveitarfélags, þótt íslenska sé opinbert tungumál? Í 5. grein laga um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls segir: „Ríki og sveitarfélög bera ábyrgð á að varðveita og efla íslenska tungu og skulu sjá til þess að hún sé notuð.“ Hér hefur ótal sinnum verið bent á að víðast hvar í grannlöndum okkar er opinbert tungumál landsins haft efst á hvers kyns skiltum á opinberum stöðum.

Í umræðum í gær var nefnt að þetta væri örugglega „ekkert samsæri“ og ég er alveg sammála því – þótt þetta tilvik sé í Garðabæ dettur mér ekki í hug að það sveitarfélag sé öðrum verra að þessu leyti. Þess var líka getið til að lengd setninganna réði leturstærðinni – enski textinn er mun styttri en sá íslenski og því hægt að hafa hann með stærra letri. Það er alveg hugsanlegt, en þótt svo væri er það engin afsökun. Það hvarflar ekki að mér að á bak við þetta búi sú hugsun að hampa enskunni sérstaklega umfram íslensku – þetta er einfaldlega hugsunarleysi.

Eins og ég hef margsagt er ljóst að enska er og verður hluti af íslensku málsamfélagi. Hér býr fjöldi fólks sem skilur ekki íslensku auk þess sem fjöldi ferðamanna eykst sífellt. Það er ekki bara sjálfsögð kurteisi, heldur bráðnauðsynlegt af öryggissjónarmiðum að koma til móts við þetta fólk með því að hafa upplýsingar á ensku sem víðast, m.a. á hvers kyns skiltum. En íslenskan á alltaf að koma fyrst. Kannski finnst einhverjum það ekki skipta máli. Kannski finnst einhverjum gerður úlfaldi úr mýflugu með því að vekja máls á þessu og kvarta yfir því. En ég ítreka það sem ég hef áður skrifað:

„Auðvitað drepur það ekki íslenskuna þótt hún sé höfð á eftir ensku á skiltum í Leifsstöð. Auðvitað drepur það ekki íslenskuna þótt auglýsingar í búðargluggum séu ein­göngu á ensku. Auðvitað drepur það ekki íslenskuna þótt einhver fyrirtæki sendi starfsfólki tölvupóst sem er ein­göngu á ensku. Auðvitað drepur það ekki ís­lenskuna þótt fjöldi verslana auglýsi „Black Friday“, „Cy­ber Mon­day“ og „Singles Day“. En það sýnir, meðvitað eða ómeð­vit­að, ákveðið viðhorf til íslenskunnar – viðhorf sem smitar út frá sér og gerir til lengri tíma meiri skaða en við áttum okkur á í fljótu bragði.“