Geggjað fjör

Ég hef séð á netinu nokkra umræðu um orðið geggjað eftir útvarpsfrétt í gær þar sem fram kom að það væri mikið tískuorð um þessar mundir. Sumum finnst ótækt að nota það sem hrós eða upphrópun vegna tengsla þess við orðið geðveikur. En þessi tvö orð eru orðsifjafræðilega óskyld, og þótt geggjaður geti vissulega haft merkinguna 'sturlaður, geðveikur' er það hvorki eina merking orðsins né hin upprunalega eins og Jón G. Friðjónsson hefur rakið. Elsta dæmi um orðið í Ritmálssafni Árnastofnunar er frá 1760 og þar hefur það merkinguna 'brenglaður, úr lagi genginn'. Það samræmist elstu dæmum um sögnina geggjast, t.d. úr kvæðinu „Þorkell þunni“ eftir Jónas Hallgrímsson, í Fjölni 1845: „Geggjast allur guðsorðalestur, / á grátunum tvístígur prestur.“

Þessa merkingu hefur orðið yfirleitt í dæmum frá 19. öld. Í Hirði 1858 segir: „Hverjum skynsömum manni má því varla vera grunlaust um, að þar sje eitthvað geggjað, þar sem menn telja læknandi dýrasjúkdóm, hver svo sem hann er, með landplágum.“ Í Skýrslum um landshagi á Íslandi 1858 segir: „árið 1770 telja þeir ekki nema 112,809, en segja þarámót, að árið 1760 hafi fjártalan verið 491,934; en eitthvað er geggjað í þessu.“ Í Þjóðólfi 1860 segir: „Hugsunartól höfundarins mætti vel vera geggjað frá því sem guð hefir skapað þau.“ Í Heimdalli 1884 segir: „því hvort sem það er satt eða ekki, þá er það eitthvað geggjað, þegar aðrar eins sögur eru sagðar um mann.“ Í Lögbergi 1890 segir: „En jeg er hálfhræddur um að fjelagshugmyndin sje nokkuð geggjuð hjá mörgum Íslendingum.“

Í elstu dæmum þar sem merkingin er 'sturlaður, geðveikur' fylgir eitthvert orð til skýringar á geggjuninni. Í Landsyfirréttardómum 1852 segir: „sum systkini hans annað hvort séu frávita eða geggjuð á sönsum.“ Í Skírni 1883 segir: „maðurinn væri svo geggjaður á vitinu, að hann yrði að flytja til vitfirringaspítala.“ Í Leifi 1884 segir: „En Sage ljet ekki neitt á þessu bera, heldur lofaði lækninum að álíta sig geggjaðan á sönsunum.“ Í Þjóðviljanum 1887 segir: „Sé bóndinn fjarverandi, geggjaður á geðsmununum eða fatlaður á einhvern hátt.“ Einnig eru dæmi um geggjaður á skynseminni / á vitsmunum / á geði / í höfðinu / í kollinum o.fl. En vegna þess að orðið geggjaður var svo oft notað í þessu samhengi yfirtók það fljótlega merkingu fylgiorðsins eins og nú er t.d. að gerast með sögnina byrla.

Elsta dæmi sem ég finn um merkinguna 'sturlaður, geðveikur' án þess að skýring fylgi er í Lögbergi 1891: „Menn höfðu áður verið hræddir um, að hann mundi vera eitthvað geggjaður, en höfðu ekki nógu sterkar gætur á honum.“ Á 20. öld verður þetta aðalmerking orðsins en dæmi um merkinguna 'brenglaður, úr lagi færður' finnast samt á fyrstu áratugum aldarinnar. Þannig segir í Ísafold 1918: „Eitthvað meira en lítið geggjað hlýtur ástandið í Búlgaríu að vera orðið, úr því svo slunginn maður og Ferdinand keisari hefir eigi treyst sér að sitja.“ Í Jafnaðarmanninum 1927 segir: „Íhaldið í landinu […] virðist hafa orðið hálf geggjað yfir þessum 2370 krónum.“ Í Iðunni 1930 segir: „Það er eitthvað geggjað þarna uppi – eitthvað, sem guð hefir misskilið.“

Ein einhvern tíma eftir miðja 20. öld gengur orðið í endurnýjun lífdaga, og þá einkum hvorugkynið geggjað. Í Fálkanum 1964 segir: „Þá verður oft alveg geggjað fjör.“ Í Tímanum 1966 segir: „Fólkið leitar stöðugt meiri skemmtana og orðin „geggjað fjör“ virðast yfirskrift óska þess og viðleitni.“ Fólk sem var ungt á sjöunda og áttunda áratugnum minnist þess að orðið hafi verið mikið notað í svipuðu samhengi þótt sú notkun komi ekki mikið fram á prenti. Í Áramótaskaupi Sjónvarpsins 1969 söng Flosi Ólafsson lagið „Það er svo geggjað“ sem var gefið út á plötu sumarið eftir, og hefur væntanlega gefið orðinu byr undir báða vængi. Í bréfi frá „Gamalli konu“ í Dagblaðinu 1977 segir: „Sum orð, eins og til dæmis æðislegt, ofsalegt, geggjað o.fl., gengu eins og rauður þráður í gegnum allt samtalið.“

Árið 1987 var heiti kvikmyndarinnar „One Crazy Summer“ þýtt sem Geggjað sumar og upp úr því virðist orðið verða hin venjulega samsvörun við enska lýsingarorðið crazy og notkun þess á prenti stóreykst, í margvíslegu samhengi. Þá verður allt mögulegt geggjaðstuð, rokk, þjóðfélag, verð, ljóð, partí, næturlíf, ástand, ráðhús, leikrit, andrúmsloft, ímyndunarafl, grín o.m.fl. Árið 1992 gerði Árbæjarsafn hippatímabilinu 1968-1972 skil í sýningu sem nefndist „Það er svo geggjað“. Ég sé ekki betur en á þessum árum sé orðið notað á sama hátt og nú, nema hvað það er orðið miklu algengara. Á þessum tíma er líka farið að nota orðið sem atviksorð, láta það standa með lýsingarorði – „Er með geggjað gott eintak af nýlegum Yamaha 5 strengja bassa til sölu“ segir í DV 1988.

Í raun og veru má segja að grundvallarmerking geggjaður sé sú sama í öllum tilvikum, þ.e. 'víkur frá normi, óvenjulegur'. Það má bera þetta saman við lýsingarorðið frábær sem upphaflega merkti 'sem ber frá, óvenjulegur'. Bæði orðin hafa þróast á svipaðan hátt þannig að frávikið frá norminu sem gat verið hlutlaust eða neikvætt er nú yfirleitt jákvætt. Einnig má bera geggjaður saman við brjálaður sem er upphaflega lýsingarháttur af sögninni brjála sem nú er ekki lengur notuð en merkir 'færa úr lagi'. Lýsingarorðið brjálaður getur merkt 'sturlaður, vitfirrtur' og í elstu dæmum er oft bætt við á geðsmunum eða á geði. En rétt eins og með geggjaður getur merking þeirra sambanda færst yfir á lýsingarorðið, þótt það sé líka notað á margvíslegan annan hátt – eins og geggjaður.