Málspjall tveggja ára

Eins og oft hefur komið fram er tilgangur Facebook-hópsins Málspjall að skapa vettvang fyrir jákvæða umræðu og fræðslu um íslenskt mál og tilbrigði í því og notkun þess. Það er bjargföst skoðun mín að forsenda fyrir því að íslenska lifi áfram sé sú að henni sé gefið svigrúm – að það sé viðurkennt að hún eigi sér ýmis tilbrigði og henni megi beita á margvíslegan hátt, og fólk sé ekki á nokkurn hátt niðurlægt eða jaðarsett vegna málfars síns. Einstrengingsleg „málvöndun“ sem viðurkennir engin tilbrigði í framburði, beygingum, orðfæri, setningagerð, merkingu, málbeitingu eða öðru sem málið varðar er engin málvöndun, heldur málspjöll – tilræði við íslenskuna og vísasti vegurinn til að hrekja málnotendur frá henni, jafnvel í faðm enskunnar.

Við erum flest alin upp við að eitt tilbrigði málsins sé rétt en önnur röng, og það er erfitt og jafnvel sársaukafullt þegar barnalærdómur okkar er dreginn í efa eða honum hafnað. Ég veit að mörgum finnst ég rífa niður það sem fólk lærði að væri rétt, og finnst það jafnvel árás á foreldra sína eða kennara sem brýndu fyrir þeim að vanda mál sitt og tala ekki rangt mál. En tilgangur minn er alls ekki að ráðast gegn málvöndun eða ýta undir málbreytingar þótt það kunni stundum að líta þannig út, og ég skil vel að ýmsum skuli stundum sárna eða blöskra málflutningur minn. Tilgangur minn er sá einn að fá fólk til að hugsa um íslenskuna og beitingu hennar á gagnrýninn hátt og vekja athygli á því að þótt eitt sé rétt þarf annað ekki að vera rangt.

Það þýðir ekki að ekki megi leiðbeina fólki og fræða það um málhefð. Þvert á móti – það er eðlilegt og bráðnauðsynlegt. En það má ekki gera af yfirlæti, hneykslun, hroka og vanþekkingu, með dylgjum eða brigslum um fáfræði, heimsku, málfátækt og hroðvirkni, heldur verður að setja leiðbeiningar og fræðslu fram af þekkingu, skilningi, umburðarlyndi og virðingu. Ég er sannfærður um að málfarsumræða á þeim nótum er til þess fallin að glæða áhuga málnotenda á tungumálinu og hvetja þau til þess að huga að því hvernig þau umgangast það. Það er margfalt vænlegra til að stuðla að viðgangi íslenskunnar en órökstuddir sleggjudómar um „rétt“ mál og „rangt“ sem þar að auki eru oft byggðir á vafasömum forsendum.