Hinsegin

Orðið hinsegin er gamalt í málinu og talið vera einhvers konar sambræðingur úr hins vegar og (á) hinn veginn. Í Flateyjarbók frá lokum 14. aldar segir (með nútímastafsetningu): „Konungur leit til hans og mælti: „Hinn veg munum við nú breyta Brandur““ en í öðru handriti sama texta frá 15. öld stendur hinnsegin í stað hinn veg. Orðið var áður skilgreint sem atviksorð í orðabókum en hefur þó lengi einnig verið notað sem (óbeygjanlegt) lýsingarorð, þ.e. látið standa með nafnorði, eins og t.d. orðin þannig, svona og svoleiðis sem sömuleiðis voru lengst af eingöngu flokkuð sem atviksorð. Í Íslenskri nútímamálsorðabók er það þó tvær flettur, annars vegar atviksorð og hins vegar lýsingarorð.

Aðalmerking orðsins var áður 'á hinn veginn, öðruvísi' og það var oft notað sem andstæða við svona. Í Heimilisritinu 1956 segir: „Sjaldan hef ég heyrt mann grípa fram í frásögn konu sinnar með þessari athugasemd: „Það skeði ekki svona – heldur hinsegin.““ Í Morgunblaðinu 1983 segir: „Það verður væntanlega enginn hörgull á fólki, sem á eftir að benda á, að tiltekið atvik hafi nú ekki verið svona heldur hinsegin.“ En orðið gat líka merkt 'skrýtinn, undarlegur' eða jafnvel 'galinn'. Í Eimreiðinni 1939 segir: „Ertu eitthvað hinsegin, Dísa mín? Hvað heldurðu að hexið segi?“ Í Alþýðublaðinu 1975 segir: „Mér datt fyrst í hug, að nú væri einhver í einhverju ráðuneytinu orðinn eitthvað hinsegin.“

Orðið var mjög oft notað í sambandinu svona hinsegin sem merkir 'af því bara, út í loftið, í tilgangsleysi, af tilviljun, óvart‘ eða eitthvað slíkt. Í Nýjum kvöldvökum 1913 segir: „Þegar eg kom heim í gestahúsið, rak eg augun í blað og leit í það svona hinseginn.“ Í Alþýðublaðinu 1950 segir: „Í rauninni kærðum við okkur ekki um að eignast barn, það kom svona hinsegin.“ Í Tímanum 1955 segir: „Læknirinn hafði fengið mikinn áhuga fyrir trjáprófinu og bað sjúkling sinn að teikna tré svona hinsegin.“ Í Vikunni 1960 segir: „frú Gunnhildur segir, að hún hafi aldrei verið gift, bara átti barnið svona hinsegin, líklega með einhverjum útlendingi.“ Í Magna 1961 segir: „Ég var ekki hjónabandsbarn. Heldur varð ég til svona hinsegin.“

En merkingarnar voru fleiri. Í Íslenskri orðabók kemur fram að orðið geti merkt 'þunguð, ófrísk' og þá merkingu hefur það t.d. í Iðunni 1933: „Sérðu ekki á mér hinsegin?“ Í Samtíðinni 1951 segir: „Sigga greyið var hinsegin og átti bara mánuð eftir.“ Í Vísi 1957 segir: „„Það á að staurhýða þessa „legáta“, sem hlaupa eftir hverju pilsi og gera sumar kannske hinsegin.“ Það virðist líka hafa getað merkt 'á túr', t.d. í Þjóðviljanum 1953 þar sem segir: „Hún er ein af þeim, sem verður að liggja í þrjá eða fjóra daga, þegar hún er hinsegin.“ Þessi dæmi sýna að hinsegin hefur verið notað sem skrauthvörf yfir feimnismál sem ekki mátti nefna, og þannig var það líka í upphafi með notkun þess um samkynhneigða.

Elsta dæmi sem ég finn á prenti um vísun orðsins í samkynhneigð er í Alþýðuhelginni 1949 þar sem segir: „Hvað, er hann nokkuð hinsegin? – Nei, það held ég ekki – en sveitamaður.“ Þarna er vissulega ekki öruggt að vísað sé til samkynhneigðar en samhengið bendir þó til þess. Enginn vafi er á merkingu orðsins í Speglinum 1960 þar sem segir: „En svo illa tókst til, að foringjarnir, sem þær hittu hafa líklega verið hinsegin, svo að ekki varð úr viðskiptum.“ Sama gildir um dæmi í Andvara 1960: „Þú ert þó ekki hinsegin? Jú, fari bölvað sem hún er ekki hinsegin!“ Í Samvinnunni 1969 segir: „margir þeir karlmenn sem skarað hafa frammúr á andlegu sviði hafa verið hinsegin, með öðrum orðum nokkurskonar kona.“

Notkun orðsins hinsegin um samkynhneigð virðist hafa aukist smátt og smátt á sjöunda og áttunda áratugnum og Guðbergur Bergsson gaf t.d. út Hinsegin sögur 1984. Framan af var þetta þó niðurlægjandi orð sem samkynhneigt fólk vildi ekki nota um sjálft sig. Böðvar Björnsson, þekktur baráttumaður samkynhneigðra, fjallar um orðfæri um samkynhneigð í Þjóðviljanum 1981 og nefnir m.a. „tvö velþekkt orð, argur (argskapur) og blauður, og að lokum tvö nýlegri orð sem stundum heyrast, öfuguggi og hinsegin. Öll eru þessi orð þannig innréttuð að réttast er að fela þau þögninni til notkunar“. En þetta átti eftir að breytast og samkynhneigt fólk tók orðið hinsegin smátt og smátt upp á sína arma.

Ég veit ekki nákvæmlega hvenær þetta fór að breytast en þegar kom fram á tíunda áratuginn var samkynhneigt fólk a.m.k. farið að nota orðið um sjálft sig – árið 1995 stóðu Samtökin 78 fyrir „Hinsegin bíódögum“. Árið 1998 var umræðuþáttur í Ríkisútvarpinu undir heitinu „Af því við erum hinsegin“ og fjallaði um samkynhneigða Íslendinga í Kaupmannahöfn. Árið 1999 stóð jafnréttisnefnd Stúdentaráðs fyrir „hinsegin dögum“, og árið 2000 voru í fyrsta sinn haldnir „Hinsegin dagar“ á vegum fimm félagasamtaka samkynhneigðra. Nú er þetta fullkomlega viðurkennt og eðlilegt, eiginlega „regnhlífarhugtak yfir allt það fólk sem er ekki gagnkynhneigt og/eða fellur ekki inn í það sem telst hefðbundið kyn eða kynhlutverk“.