Nauðsyn breytinga á málstaðli og íslenskukennslu
Í dag flutti ég erindi um málstaðal, málbrigði, „rétt“ mál og „rangt“ á námskeiði Samtaka móðurmálskennara fyrir grunnskólakennara. Það var skemmtilegt, nemendur áhugasamir, önnur erindi áhugaverð, og umræður mjög gagnlegar. En ég sannfærist alltaf betur og betur um að það er mjög brýnt að endurskoða íslenskan málstaðal og færa hann nær því máli sem raunverulega er talað í landinu. Málstaðallinn miðast við það sem þótti vandað ritmál á fyrri hluta 20. aldar. Síðan hefur þjóðfélagið breyst gífurlega og almenn málnotkun líka, enda hlýtur tungumálið að verða að þjóna samfélaginu á hverjum tíma.
En málstaðallinn hefur ekki breyst – hann tekur ekki tillit til breytinga sem eru áratuga eða jafnvel alda gamlar og ná til verulegs hluta þjóðarinnar, breytinga sem verða því að teljast „rétt mál“ samkvæmt viðurkenndri skilgreiningu. Bilið milli hans og raunverulegrar málnotkunar fer því sífellt breikkandi og það kom fram á námskeiðinu í dag að mörg atriði málstaðalsins eru fjarri máli flestra grunnskólanema. Það þjónar engum tilgangi og er beinlínis skaðlegt fyrir íslenskuna að streitast við að halda slíkum atriðum að nemendum. Breytingar á málstaðlinum þola enga bið.
En ég styrkist líka sífellt í þeirri trú að við þurfum að endurskoða íslenskukennslu og kennsluefni í grunnskólum. Það kom fram á námskeiðinu að Menntamálastofnun hefur verið að gefa út nýtt kennsluefni í samræmi við aðalnámskrá en sér sig einnig tilneydda til að endurprenta eldri bækur með forskriftarmálfræði og æfingahefti með eyðufyllingum til að koma til móts við eindregnar óskir margra kennara. Í málfræðibókunum er ofuráhersla lögð á „rétt“ mál og „rangt“, og á málfræðilega greiningu án tengsla við raunverulega málnotkun nemenda. Það er ekki áhugavekjandi eða vænlegt til árangurs.
Eyðufyllingarnar eru þó verstar. Sumir nemendur kunna það sem verið er að þjálfa en neyðast samt til að vinna verkefnin og hlýtur að finnast það hundleiðinlegt. Aðrir nemendur eru óvissir á því sem verkefnin eiga að þjálfa en ég hef enga trú á því að þeir læri mikið á því að gera fjöldann allan af sams konar andlausum æfingum. Þetta þjónar fyrst og fremst þeim tilgangi að halda nemendum uppteknum. Á hinn bóginn er ég hræddur um að æfingar af þessu tagi eigi stóran þátt í að gera íslensku að frekar óvinsælli námsgrein eins og rannsóknir hafa sýnt fram á að hún er.
Það er oft kallað eftir aukinni íslenskukennslu í grunnskólum, og fyrir tveimur árum lagði mennta- og menningarmálaráðuneytið fram tillögu að breytingu á viðmiðunarstundaskrá grunnskóla, þar sem gert var ráð fyrir að íslenskukennsla í 1.-7. bekk yrði aukin, um samtals 460 mínútur á viku. Fjöldi athugasemda barst við þessa tillögu og henni hefur ekki verið hrint í framkvæmd. Mín skoðun er sú að óþarft sé að auka þann tíma sem varið er í íslenskukennslu – hins vegar sé mjög mikilvægt að nýta tímann betur og draga úr ófrjórri greiningarvinnu, kennslu um „rétt“ mál og „rangt“ og eyðufyllingum.
En hvað á að koma í staðinn? Það er vissulega hægara um að tala en í að komast og ég hef ekki forsendur til að koma með ítarlegar tillögur um það. Ég legg samt áherslu á að mér finnst sjálfsagt að kenna einhverja málfræði en ekki sem sjálfstætt viðfangsefni, heldur í tengslum við málnotkun. Á námskeiðinu í dag talaði Hanna Óladóttir um nemendamiðaða kennslu – kennslu sem tæki mið af nemendunum sjálfum, máli þeirra og áhugasviðum. Ég held að það skipti miklu máli, og meginatriði að sýna máli nemendanna virðingu í stað þess að tala það niður – láta börn og unglinga finna að þau eigi sjálf hlutdeild í málinu.