Til styrktar eignarfallsins

Undanfarið hef ég oft séð amast við setningum eins og fyrirsögn þessa pistils þar sem nafnorð í eignarfalli sem stýrist af forsetningunni til tekur með sér annað fallorð í eignarfalli. Sem dæmi má nefna „Sigurgeir synti til styrktar Barnaheilla“ og „Flest loforð ríkisstjórnarinnar til stuðnings lífskjarasamningsins voru uppfyllt á tímabilinu“ úr nýlegum fréttum. Í slíkum dæmum á þágufall á seinna nafnorðinu sér ríka hefð, þ.e. til styrktar Barnaheillum og til stuðnings lífskjarasamningnum. Sama máli gegnir um nokkur önnur nafnorð – til aðstoðar þeim, til hjálpar þeim, til liðsinnis þeim, til verndar þeim o.fl. Vissulega má finna einstöku eldri dæmi um eignarfall í þessum samböndum, t.d. „láta gróðann ganga til hjálpar þeirra, sem eru í nauðum staddir eftir síðustu jarðskjálfta“ í Tímanum 1966, en slíkum dæmum virðist hafa fjölgað talsvert á síðustu árum.

Þegar nafnorð tekur með sér annað fallorð stendur það seinna venjulega í eignarfalli (nema í forsetningarliðum í samböndum með „órjúfanlegri eign“, s.s. fara á bak hestinum, hafa hendur í hári honum o.s.frv.). Það sama gildir um framantalin nafnorð þegar þau standa ekki í forsetningarlið með til – við segjum aðstoð þeirra, hjálp þeirra, liðsinni þeirra, stuðningur þeirra, vernd þeirra – orðið styrkt er eiginlega aldrei notað nema í sambandinu til styrktar. Ef eitthvert þessara orða stendur með annarri forsetningu en til tekur það líka með sér eignarfall – við segjum með aðstoð þeirra, án liðsinnis þeirra, vegna stuðnings þeirra o.s.frv. Forsetningarnar án og vegna taka með sér eignarfall, eins og til. Sennilegast er að breytingin úr þágufalli í eignarfall í umræddum dæmum stafi af því að málnotendur alhæfi þá reglu að nafnorð taki með sér eignarfall.

Í umræddum samböndum getur þágufallsorðið líka komið á undan forsetningarliðnum – sagt er þeim til aðstoðar / hjálpar / liðsinnis / stuðnings / styrktar / verndar. Ég þekki hins vegar engin dæmi þess að eignarfallsorð færist fram fyrir forsetningarliðinn á þennan hátt. Það er aldrei sagt *þeirra til aðstoðar / hjálpar / liðsinnis / stuðnings / styrktar / verndar eða neitt slíkt. Þótt ég noti ekki sjálfur eignarfall í samböndum eins og til styrktar þeim finnst mér til styrktar þeirra ekki hljóma sérlega óeðlilega, en *þeirra til styrktar finnst mér alveg fráleitt. Þetta styrkir þá tilgátu að tilhneiging til að hafa eignarfall í umræddum samböndum stafi af því að málnotendum finnist eðlilegt að eignarfall komi á eftir nafnorði. En þegar orðið sem um er að ræða kemur ekki á eftir nafnorðinu heldur á undan forsetningarliðnum kemur þessi tilfinning ekki fram.

Á þessu er þó önnur hlið sem gaman er að velta fyrir sér. Það er oft sagt að eignarfall standi höllum fæti í málinu og oft hefur verið skrifað um svonefndan „eignarfallsflótta“ þar sem önnur föll eða aðrar fallmyndir eru notuð í stað hefðbundinna eignarfallsmynda. Eignarfall er líka langsjaldgæfast fallanna fjögurra. Í venjulegum texta má búast við því að u.þ.b. 30% nafnorðanna standi í nefnifalli, önnur 30% í þolfalli og þriðju 30% í þágufalli – en aðeins 10% í eignarfalli. Eignarfall er líka nánast horfið úr færeysku en stundum er sagt að færeyska gefi vísbendingar um breytingar sem vænta megi á íslensku í framtíðinni. En e.t.v. má líta á breytinguna yfir í eignarfall í þeim samböndum sem hér eru til umræðu sem e.k. varnarviðbrögð málsins – tilraun til að auka notkun eignarfallsins og styrkja það í sessi. Þágufallið stendur sterkt og munar ekkert um þetta.

Yfirleitt finnst mér eðlilegt að virða málhefð og mæla með því að hún sé virt, og hún er alveg skýr í þessu tilviki. Þágufall hefur verið notað í umræddum samböndum allt frá fornu máli þótt frá því séu vissulega undantekningar – „til styrktar og vitnisburðar þessarar gjörðar“ segir í bréfi frá 1341. Eignarfallið er nýjung og ekki óeðlilegt að reyna að stugga við því. En það væri samt enginn stórkostlegur skaði þótt eignarfallið leysti þágufallið af hólmi í þessum samböndum, og meira að segja hugsanlegt að það kæmi málinu til góða þegar á allt er litið.