Daglegt mál, 1984

Fyrir 38 árum, sumarið 1984, annaðist ég útvarpsþáttinn „Daglegt mál" um tveggja mánaða skeið – fimm mínútna þætti tvisvar í viku. Í seinustu tveimur þáttunum ræddi ég um orsakir breytinga á málinu og viðbrögð við þeim. Þessir tveir þættir birtast hér, óbreyttir að öðru leyti en því að sleppt er framan af fyrri þættinum og kveðjuorðum í þeim seinni, og á einum stað er vikið við orði. Mér sýnist flest sem hér er sagt vera í fullu gildi, og stefnumótunin sem kallað er eftir í lokin hefur ekki enn farið fram.

Það er augljóst að málið flyst nú frá kynslóð til kynslóðar með allt öðrum hætti en fyrir svo sem fimmtíu árum. Þar ber margt til. Fyrst er það að nefna að börn læra nú mál sitt að talsverðu leyti af öðrum börnum, en áður lærðu þau málið mest af fullorðnu fólki; foreldrum sínum, og jafnvel öfum og ömmum. Þar munar strax einni kynslóð, og er augljóst hver áhrif það hlýtur að hafa á hraða málbreytinga.

Annað atriði er það að áður fyrr var reynsluheimur barnanna að miklu leyti sá sami og fullorðna fólksins. Þegar þjóðin bjó nær öll í sveitum voru börnin með fullorðnu fólki við allt sem það tók sér fyrir hendur. Þau lærðu því strax að tala um flesta þá hluti sem fullorðna fólkið talaði um. Nú er þetta allt öðruvísi, eins og allir vita; börnin eru í skóla, leikskóla, eða að leika sér með félögum sínum innan húss og utan; foreldrarnir eru á vinnustöðum, skemmtunum o.s.frv.

Börnin þurfa því að tala um ýmislegt sem foreldrarnir taka lítinn sem engan þátt í, en á hinn bóginn fást foreldrarnir við sitthvað sem börnin koma ekki nálægt og læra því lítið að tala um. Það er væntanlega öllum ljóst hvernig þetta hlýtur að ýta undir örari málbreytingar. Þar er auðvitað einkum um að ræða breytingar á orðaforða, en þær draga auðvitað dilk á eftir sér; ef menn vantar orð yfir það sem þeir ætla að tala um, kostar það oft vandræðalegt hik, kauðalegar umorðanir, margorðar útskýringar o.s.frv.

Í þriðja lagi er það svo að málið er að ýmsu leyti ekki eins þýðingarmikið og það var; myndin hefur komið í stað þess að nokkru leyti. Í stað þess að lesa eða hlusta á sögur skoða börnin nú myndasögur, horfa á sjónvarp eða vídeó. Þessum myndum fylgir oft erlent mál; og þótt íslenskur texti sé með, er það oft vafasamur ávinningur, því að þar er oft um að ræða slæmar þýðingar. Þetta leiðir til þess að myndin verður aðalatriði, málið í besta falli eins konar hækja með henni.

Í fjórða og síðasta lagi skal ég svo nefna erlend áhrif. Það er augljóst að þau eru þónokkur, en ég held þó að oft sé gert of mikið úr þeim. Við megum ekki gleyma því að þau mál sem oftast er talað um í þessu sambandi, danska og nú einkum enska, eru skyld íslensku; þótt sama þróun verði í þeim, þarf ekki endilega að vera um að ræða áhrif eins þeirra á annað, heldur getur verið um að ræða sams konar aðstæður í þeim öllum, sem kalli á sams konar þróun.

Það er ljóst að ekkert þeirra atriða sem ég nefndi er hægt að rekja til þess að það fólk sem nú er að alast upp sé heimskara eða latara eða hirðulausara um mál sitt en feður þess og mæður, afar og ömmur; heldur stafa þau öll af breytingum sem hafa orðið á þjóðfélaginu. Við getum haft mismunandi skoðanir á því hvort allar þessar breytingar hafi orðið til góðs eða ekki, en sjálfsagt má sýna fram á að þær hafi flestar eða allar verið óhjákvæmilegar.

Ég held að það sé ástæðulaust að hugsa sér að fyrri kynslóðir hafi verið svo miklu hirðusamari um mál sitt en við; þjóðfélagshættir voru á hinn bóginn þannig að þeir stuðluða að varðveislu málsins án mikilla breytinga. Um ýmis þau atriði sem þar koma við sögu hefur Helgi Guðmundsson skrifað fróðlega grein, „Um ytri aðstæður íslenskrar málþróunar“, sem birtist í bókinni Sjötíu ritgerðir helgaðar Jakobi Benediktssyni, sem Stofnun Árna Magnússonar gaf út árið 1977.

Ef við ásökum Íslendinga nútímans fyrir hirðuleysi um málfar sitt, erum við því að beina spjótum okkar í vitlausa átt – við eigum að snúast gegn þeim þjóðfélagsbreytingum sem verða þess valdandi að málfarslegt uppeldi breytist. Það kann að vera hægt að snúast gegn myndablöðum, vídeói og ýmiss konar erlendum áhrifum, þótt örugglega yrði það þungur róður. En erfiðara yrði að snúa aftur til bændaþjóðfélagsins, og dettur væntanlega engum í hug í alvöru. Ég leyfi mér þess vegna að álykta sem svo að þessi leið sé nánast ófær.

En er þá engin leið til að draga úr hraða þeirra breytinga, sem óhjákvæmilega verða á málinu? Jú, auðvitað er hægt að stórauka móðurmálskennsluna í skólunum. Það ætti enginn að þurfa að undrast að íslenskukunnáttu unglinga hraki, þegar þjóðfélagsbreytingar draga stórlega úr málfarslegu uppeldi án þess að aukin kennsla komi á móti. Á undanförnum áratugum hefur fjölgað að mun þeim námsgreinum sem kenndar eru í grunnskólum, og byrjað er fyrr á öðrum en áður var; og þetta þýðir auðvitað að móðurmálskennslan fær ekki aukinn tíma, eins og hún hefði þurft til að vega upp á móti því sem tapast utan skólans.

Ef menn vilja í raun og veru hægja á málbreytingum, halda málinu u.þ.b. á því stigi sem það er á nú, þýðir ekki annað en gera móðurmálskennslunni mun hærra undir höfði en gert hefur verið á undanförnum árum, og verja til hennar stórauknum tíma. Það er út í hött að ætlast til að nemendur meðtaki fyrirmyndarmálið jafnauðveldlega nú, þegar þeir þurfa að læra það meira og minna í skólum, og á tímum kvöldvöku, rímnakveðskapar og húslestra. En það er eins og menn berji hausnum við steininn, og átti sig ekki á þeim breyttu aðstæðum sem eru fyrir hendi í þjóðfélaginu.

Að ætlast til að nemendur nú á tímum læri sömu íslensku og afar þeirra og ömmur töluðu án meiri kennslu er óraunhæf krafa og ósanngjörn bæði gagnvart kennurum og nemendum. Við þurfum að gera okkur þetta ljóst, og gera síðan upp við okkur hvort við erum reiðubúin til að veita íslenskukennslunni þennan aukna tíma, eða hvort við ætlum að slá af kröfum gullaldarmálsins. Þarna verður ekki bæði sleppt og haldið, og þörf á ákveðinni stefnumótun í þessum málum verður sífellt brýnni.