Posted on Færðu inn athugasemd

Þetta er pottþétt atviksorð

Orðið pottþétt hefur verið hálfgert tískuorð undanfarin ár. Í Íslenskri nútímamálsorðabók er orðið pottþéttur sagt lýsingarorð og skýrt 'alveg traustur', og sambandið þetta er pottþétt er skýrt 'þetta er alveg öruggt'. Í Íslenskri orðabók eru skýringarnar þær sömu en auk þess er þar skýringin 'pottheldur' og það orð er aftur skýrt 'alveg vatnsheldur'. Í elstu dæmum um orðið hefur það alltaf þessa bókstaflegu merkingu. „Stígvélin pottþéttu“ eru auglýst í Austra 1907, og í auglýsingu í Mána 1917 segir: „Og bændur lands og búalýður blessar þvílíkt verk, / að búa til svona vatnsföt, bæði pottþétt, mjúk og sterk.“ Orðið var sjaldgæft lengi framan af og er t.d. ekki að finna í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924.

En upp úr 1940 er farið að nota orðið í líkingum. Í Vísi 1943 segir: „En aðrir hafa reynst svo „pottþéttir“ að þátttaka þeirra í miðilsfundum hefir engan árangur borið.“ Í Austurlandi sama ár segir: „allt samstarf við „vinstri“ mennina var hégómi einn, nema með pottþéttum málefnasamningi um stjórnarstörf.“ Í Þjóðviljanum 1950 segir: „Hin sameiginlega blökk ríkisstjórnarafturhaldsins reyndist þannig pottþétt gegn öllum tilraunum til að umbóta á þessu sviði.“ Í Mjölni sama ár segir: „Svikamyllan er þannig pottþétt.“ Í Tímanum 1951 segir: „Fjögurra hjarta sögnin, sem þú tapaðir um daginn, var alveg pottþétt.“ Í þessum dæmum hefur orðið þá merkingu sem lýst er í orðabókum, þ.e. 'alveg traustur, öruggur'.

Eftir 1950 er orðið fyrst og fremst notað í þessari yfirfærðu merkingu þótt stöku dæmi séu einnig um bókstaflegu merkinguna. Það er samt athyglisvert að allt fram um 1980 er orðið iðulega haft innan gæsalappa – svo virðist sem yfirfærða merkingin hafi þótt óformleg og ástæða til að afsaka notkun hennar á prenti. Þannig segir í Vísi 1958: „En þótt samvizka Bretans kunni að vera „pottþétt“, eru þeir fleiri, sem heyra en þeir einir.“ Í Alþýðublaðinu 1961 segir: „Vörn FH sýndi mjög góðan leik í síðari hálfleik og virtist allt að „pottþétt“. Í Þjóðviljanum 1978 segir: „Persónulýsingar sjúklinganna eru allar „pottþéttar“ frá geðlæknisfræðilegu sjónarmiði, að þvi er ég best veit.“

Notkun orðsins eykst mjög á áttunda áratugnum og sérstaklega eftir 1980. Þá fara líka að koma fram ný tilbrigði í notkuninni, t.d. sambandið pottþéttur á. Elsta dæmi sem ég hef fundið um það er í Vísi 1973: „Russ Kunkel er alveg pottþéttur á því sem hann er að gera.“ Þarna merkir sambandið 'öruggur á, fær í' en svolítið annað tilbrigði er í „En ég er alveg pottþéttur á að við gætum það“ í Þjóðviljanum 1976. Þar merkir sambandið 'handviss um'. Í samböndum eins og pottþétt skemmtun, pottþétt stuð og fleiri hliðstæðum sem algeng eru í auglýsingum merkir orðið 'öruggt, sem klikkar ekki', en undirliggjandi er einnig gæðamat – pottþétt stuð merkir ekki bara 'öruggt stuð' heldur líka 'mikið stuð'.

En orðið er ekki bara lýsingarorð. Í seinni tíð er myndin pottþétt mun oftar notuð sem atviksorð í merkingunni 'örugglega' eða 'vel‘. Elsta dæmi sem ég hef fundið um það er í Þjóðviljanum 1978: „Að mínu áliti hefði Hrafn átt að endurskoða handrit sitt og leysa sumar senurnar, því margar hverjar voru of pottþétt skrifaðar.“ Í Helgarpóstinum 1979 segir: „Þetta var pottþétt vitrun.“ Í Morgunblaðinu 1981 segir: „Nei, þetta er pottþétt fiðrildi.“ Í tveimur seinni dæmunum er setningarstaðan þannig að pottþétt gæti verið lýsingarorð, en samhengið sýnir að merkingin er þarna 'örugglega' og því um atviksorð að ræða. Trúlegt er að dæmi á við þessi, þar sem setningarstaðan passar bæði við atviksorð og lýsingarorð, séu undirrót breytingarinnar.

Í fljótu bragði sýnist mér að í allt að tveimur þriðju nýlegra dæma um orðmyndina pottþétt á tímarit.is sé um atviksorð að ræða frekar en lýsingarorð. Nokkur nýleg dæmi: „Nú er kórónaveiran pottþétt að koma til Íslands“, „Þannig að á næsta ári geti ég pottþétt komist í keppnir og tryggi mér sæti á leikunum“, „Atvinnumennska í fótbolta hefði pottþétt hentað mér vel“, „Jón Sigurðsson var pottþétt með sárasótt eftir danskar vændiskonur“, „Hann er pottþétt lasinn, hugsar hún“. Þetta er þó líklega enn frekar óformlegt mál.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.