Metfé
Orðið metfé merkti upphaflega 'e-ð sem ekki var fast verðlag á en meta varð til fjár hverju sinni' eins og segir í Íslenskri orðabók, en þar er tekið fram að sú merking sé úrelt. Þessi merking kemur t.d. fram í Eimreiðinni 1903 þar sem segir: „Víghestar vóru líka í miklu hærra verði en aðrir hestar. Þeir vóru metfé, en verð á öðrum hestum var lögákveðið.“ En á 19. öld hnikaðist merkingin til eins og ýmis dæmi sýna. Í Norðanfara 1867 segir „þó finnst mjer kertaformsályktunin mikla á síðasta þingi vera enn meira afbragð; hún er, „hreint út sagt“, metfje“. Í Iðunni 1887 segir „það hafði verið hin mesta metfje-skepna“, í Austra 1893 segir „hér er kíkir, metfé mest“ og í Fjallkonunni 1897 segir „Var hann hið mesta metfé á vöxt“.
Eldri merking orðsins átti einungis við áþreifanlega gripi, oftast búfénað, en þarna sést að farið er að nota orðið um óáþreifanleg fyrirbæri eins og ályktun. Í eldri merkingunni voru gripirnir annaðhvort metfé eða ekki og ákvæðisorð eins og hin/hið mesta/mest og skilgreiningin á vöxt sýna því glöggt að merkingin hefur breyst og er orðin 'verðmikill hlutur, úrvalsgripur' sem gefin er sem aðalmerking í Íslenskri orðabók. Þessi merkingarbreyting er í sjálfu sér mjög eðlileg – ástæðan fyrir því að það þurfti að meta eitthvað sérstaklega var yfirleitt mikið verðmæti þess og þess vegna hafa málnotendur farið að skilja metfé þannig að það merkti 'verðmætur hlutur'. Þetta var aðalmerking orðsins mestalla 20. öldina.
En á seinasta hluta aldarinnar fékk orðið nýja merkingu. Fyrsta dæmi þess sem ég hef fundið er í Morgunblaðinu 1962, þar sem segir frá kaupum Manchester United á skoska knattspyrnumanninum Dennis Law: „Kaupverðið var um 14 millj. ísl. króna og er það hæsta verð sem enskt félag hefur greitt fyrir knattspyrnumann. Þetta er í annað sinn sem Dennis Law er seldur fyrir metfé.“ Í Vísi 1963 er fyrirsögnin „Ure til Arsenal fyrir metfé!“ en í fréttinni segir „Það var Arsenal sem keypti hann á metfjárhæð 65.000 pund.“ Í Fálkanum 1963 segir: „Árangurinn varð sá, að myndir hans voru seldar fyrir metfé.“ Það er þó fyrst undir 1980 sem þessi merking fer að verða áberandi, einkum um sölu á knattspyrnumönnum og listaverkum.
Undir 1990 er nýja merkingin orðin yfirgnæfandi og þá skrifar Gísli Jónsson í Morgunblaðinu 1989: „Hins vegar finnst mér hæpið að fara með orðið metfé yfir merkinguna hærri upphæð en áður hefur þekkst í einhverju sambandi.“ En tólf árum síðar hafði Gísli linast í andstöðunni og sagði 2001: „Mér þótti þetta svolítið hæpið fyrst, en ég sætti mig við það. Metfé er í sjálfu sér mjög gott orð, og merking orða hefur oft breyst í aldanna rás, enda má tunga okkar ekki verða steingervingur, þótt við vöndum hana og verjum.“ Í blöðum frá þessari öld hefur orðið langoftast merkinguna 'fjárupphæð sem slær met' og hún er komin inn í Íslenska nútímamálsorðabók, auk merkingarinnar 'sérstaklega gott húsdýr eða góður gripur'.
Orðið hefur þó stundum aðra merkingu í óformlegu tali, a.m.k. í máli sumra. Sú merking er einkum höfð um fólk og kemur fram í setningum eins og hann/hún/hán er nú algert metfé. Þarna getur orðið vissulega merkt 'dýrgripur‘ en virðist oftast merkja fremur 'sér á báti' eða jafnvel 'skrítin skrúfa'. Þetta er sem sé notað um fólk sem sker sig úr hópnum á einhvern hátt – í orði, hugmyndum eða athöfnum – og er frekar góðlátlegt en hæðnislegt að ég held þótt erfitt sé að átta sig nákvæmlega á því vegna heimildaskorts. Þessarar merkingar verður naumast vart í rituðu máli að því er virðist og því er erfitt að segja hversu útbreidd hún er, en fróðlegt væri að vita hvort lesendur nota orðið á þennan hátt eða kannast við þessa merkingu.