Að fjárafla

Nýlega var ég spurður um sögnina fjárafla sem fyrirspyrjandi sagðist oft hafa rekist á undanfarið í merkingunni 'afla fjár'. Ég kannaðist ekki við þessa sögn og hana er ekki að finna í neinum orðabókum. Hún kom mér samt ekkert á óvart vegna þess að á síðustu árum hefur það færst mjög í vöxt að nota samsettar sagnir í stað orðasambands með sögn og nafnorði eða sögn og forsetningu eða atviksorði. Þetta eru sagnir eins og haldleggja í stað leggja hald á, frelsissvipta í stað svipta frelsi, nafnbirta í stað birta nafn, ökuleyfissvipta í stað svipta ökuleyfi, brottvísa í stað vísa brott, o.s.frv. Stundum eru samsettar sagnir líka myndaðar af nafnorði án þess að nokkur sögn liggi að baki, eins og t.d. jólaskreyta af jólaskraut.

En ég fór að leita dæma um fjárafla og fann fleiri, eldri og fjölbreyttari dæmi en ég átti von á. Elsta dæmið sem ég fann var fimmtíu ára gamalt, úr Vikunni 1972: „United Artists, fyrirtækið sem framleiðir myndina, hefur lofað mér því að þeir muni fjárafla tvær kvikmyndir.“ Þarna er merkingin augljóslega ekki 'afla fjár', heldur 'fjármagna'. Elsta dæmi þar sem merkingin 'afla fjár' er skýr er í Fréttamolanum 1986: „Fyrir páska þótti gjaldkera félagsins […] kominn tími til að fjárafla eitthvað.“ Í Bæjarbót 1989 segir: „Að undanförnu hafa strákarnir verið, eins og bæjarbúar hafa eflaust tekið eftir, að fjárafla fyrir ferðinni.“ En iðulega gæti hvor merkingin sem er átt við og kemur í sama stað niður hvor er valin.

Í Morgunblaðinu 1980 segir: „sá styrkur hefur hvergi nærri nægt og framleiðendur átt í erfiðleikum með að fjárafla sinn hluta.“ Þetta gæti merkt bæði 'afla fjár til síns hluta' og 'fjármagna sinn hluta'. Í Foringjanum 1980 segir: „Til að fjárafla alla þessa starfsemi okkar erum við með flugeldasölu um hver áramót“. Í Fréttum 1986 segir: „Meistaraflokkur og 2. flokkur ÍBV í handbolta selur um þessar mundir svokölluð lukkudagatöl, til að fjárafla rekstur handboltadeildarinnar.“ Í Morgunblaðinu 1986 segir: „Knattspyrnuhátíðin er til að fjárafla gerð íþróttavallar við Litla-Hraun.“ Í Íþróttablaðinu 1991 segir: „Hún hefur selt nokkur hundruð kílómetra af klósettpappír til þess að fjárafla utanlandsferðir.“

Eins og dæmin sýna tekur fjárafla oft andlag í þolfalli – „fjárafla tvær kvikmyndir“, „fjárafla sinn hluta“, „fjárafla alla þessa starfsemi“, „fjárafla þátttöku“ o.s.frv. En í dæmum þar sem merkingin 'afla fjár' er skýr er hægt að hafa sögnina án andlags – „fjárafla í nafni félagsins“, „fjárafla eins og skepnur“, „allir fjárafla nema einn“, „við erum reyndar mjög dugleg að fjárafla“ o.s.frv. Í þessari merkingu tekur sögnin líka stundum forsetningarlið með fyrir – „fjárafla fyrir ferðinni“, „fjárafla fyrir skuldum“, „fjárafla fyrir starf félagsins“, „fjárafla fyrir deildina“ o.s.frv. Í tveimur fyrrnefndu dæmunum er merkingin 'til að greiða' og þá stjórnar fyrir þágufalli en í tveim þeim seinni er merkingin 'í þágu' og þá stjórnar sögnin þolfalli.

Að lokum má spyrja hvernig eigi að bregðast við sögninni fjárafla – er þetta gagnleg viðbót við málið sem sjálfsagt er að bjóða velkomna, eða er þetta óþarft orð sem rétt er að stugga við? Það er auðvitað smekksatriði. Sögnin er óþörf í þeim skilningi að hægt er – og venja – að orða merkingu hennar á annan hátt, en það sama gildir auðvitað um mikinn fjölda orða í málinu. Það má alveg halda því fram að samsettar sagnir séu almennt frekar stirðar, en svo má líka segja að það sé liprara að tala um að fjárafla starfsemina eða fjárafla fyrir ferðinni en afla fjár til starfseminnar og afla fjár til ferðarinnar. Ég get ekki heldur séð að fjárafla sé neitt verri sögn en fjármagna sem er auðvitað fullkomlega viðurkennd.